Besti vinur einkabílsins

Þegar Vinstrihreyfingin – grænt framboð var stofnuð hló margur marbendillinn. Það þótti óðs manns æði að ætla sér að spyrða saman umhverfissjónarmið og klassísk vinstri gildi. Flokknum var spáð um 5% fylgi og kættust margir yfir því. Kjörfylgi og sífelld aukning á fylgi í skoðanakönnunum síðan þá hafa hins vegar leitt í ljós að þessi hugmyndafræðilega sambúð á fullan rétt á sér. Umhverfismál eru samofin flestum ef ekki öllum pólitískum álitamálum og æ fleiri virðast vera að átta sig á þeirri staðreynd. Á sama hátt eiga hefðbundin gildi félagshyggju og jafnaðar góða samleið með umhverfissjónarmiðum, enda miða þau að því að umhverfisgæðum sé ekki misskipt.

Þessu gera hins vegar ekki allir sér grein fyrir, þó vissulega fari þeim fjölgandi. Þannig sá kjaranefnd ASÍ sannleikann í þessu og sendi minnisblað til miðstjórnar um framtíð Vatnsmýrarinnar. Þar var þéttingu byggðar lýst sem kjarabætandi aðgerð, hún hefði í för með sér minni rekstrarkostnað á bílum og yki möguleikana á því að bæta almenningssamgöngur. Þannig yrði það raunhæfur möguleiki að velja það að eiga ekki bíl og það mun alltaf koma þeim tekjulægstu til góða. Á vefriti ungra nútímalegra jafnaðarmanna, Pólitík, má hins vegar sjá að til eru þeir sem kenna sig við jöfnuð og félagshyggju en sjá enga tengingu á milli þessara fyrrgreindu þátta. Þar ræðir greinarhöfundur (BN – ekki er nafn hans gefið upp að öðru leyti á vefritinu) um þá sem agnúast út í einkabílinn og finnur þeim flest til foráttu.

BN málar ástand almenningssamgangnakerfis borgarinnar svörtum litum. Ferð til og frá Breiðholti tekur tæpa tvo tíma, farþegar þurfa að húka í 20 mínútur í míglekum skýlum og greiða síðan 150 kr. fyrir ferðina. Í hraða nútímasamfélags telur BN það augljóst að almenningssamgöngur séu ekki raunhæfur kostur fyrir íbúa höfuðborgarinnar. Hann telur þéttingu byggðar engu breyta um þörf íbúa fyrir það að eiga bíl. Og í lok greinar sinnar kemur í ljós að hér er á ferð jafnaðarmaður sem sér og skilur nútímann í réttu ljósi: „Nútíma samfélag byggist á góðum samgöngum og greiðum samskiptum og það verður ekki aftur snúið í þróuninni. Það væri því skynsamlegra að eyða allri þessari orku sem fer í að amast út í bílana til að finna leiðir til að reka þá á hagkvæmari hátt.“

Þannig var það. Þessi endalausa barátta umhverfisverndarsinna fyrir breyttum áherslum í samgöngumálum borgarinnar er því á villigötum að mati BN. Hann er greinilega á móti nýsamþykktri umhverfisáætlun Reykjavíkurborgar en þar er gert ráð fyrir því að „… efla almenningssamgöngur á kostnað einkabílsins“. Augljóslega eru borgaryfirvöld að eyða orku sinni í óþarfa að mati greinarhöfundar Pólitíkur. Þá gerir kjararáð ASÍ sér ekki grein fyrir því að baráttan gegn einkabílunum er vonlaus og eina ráðið er að berjast fyrir því að „finna leiðir til að reka þá á hagkvæmari hátt.“

Greinahöfundur Pólitíkur virðist hins vegar ekki gera ráð fyrir því að hægt sé að bæta almenningssamgöngur hér á landi. Hann virðist ekki átta sig á því að allar tillögur þess efnis að fækka einkabílum gera um leið ráð fyrir því að almenningssamgöngur verði efldar. Þannig mundi BN ekki þurfa að húka í 20 mínútur í míglekum skýlum, eyða tveimur klukkustundum á dag í ferðir til og frá Breiðholti og fleira það sem gerir það að verkum að hann getur ekki nýtt sér þjónustu SVR í dag. Þvert á móti er grunnforsenda þess að einkabílum sé fækkað sú að það takist að efla almenningssamgöngur til muna. Ýmsar leiðir hafa verið nefndar í því sambandi, ekki síst sú hugmynd að koma á fót neðanjarðarlestarkerfi í borginni. Í slíku kerfi þyrfti BN væntanlega ekki að standa af sér veðrið í strætisvagnaskýlum borgarinnar. Ef hann mætti ráða væri sú leið hins vegar ekki farin og raunar engin önnur leið til að efla almenningssamgöngur, þar sem orkunni ætti frekar að eyða í það að finna leiðir til hagkvæmari rekstrar bíla.

Sjónarmið eins og fram koma í þessari grein BN, hefur hingað til helst verið að finna í herbúðum Sjálfstæðisflokksins og Félags íslenskra bifreiðaeigenda, og þar af leiðandi í ríkustum mæli hjá fyrrverandi borgarstjóra Sjálfstæðismanna og fyrrverandi framkvæmdastjóra FÍB, Árna Sigfússyni. Hér er ekki hugsað til enda, að raunhæfasta kjarabótin fyrir láglaunafólk eru bættar almenningssamgöngur. Þær leiða einnig til minni loftmengunar, umsvifaminna gatnakerfis, þess að umferðin gengur greiðar fyrir sig og fleira í þeim dúr. Þær auka almenn lífsgæði íbúa höfuðborgarinnar. Efling almenningssamgangna er því bæði umhverfismál og félagslegt mál og rímar því vel við stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Hinir nútímalegu jafnaðarmenn eru aftur á móti ekki sama sinnis.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.