Launhelgar bókmenntanna IV: Frumheimildir finnast

Mikið hefur áunnist í rannsóknum á því hver er höfundur bókanna um Frank og Jóa Hardy. Þær eru þó enn á viðkvæmu stigi og því ekki þorandi að birta allar þær upplýsingar sem grafnar hafa verið upp. Hins vegar ætti að vera óhætt að velta tilgangi bókaflokksins fyrir sér. Hinn dularfulli höfundur sem hulist hefur heiminum í öll þessi ár hafði skýr markmið með ritun bókanna. Athuganir um uppruna Hardybræðra urðu til þess að bréfkorn fannst frá honum til útgefenda sinna þar sem hann útskýrði hugmyndir sínar um bókaflokkinn. Bréfið er á ensku, en af tillitssemi við lesendur Múrsins hefur því verið snarað yfir á íslensku. Reynt var að gera það í anda þeirra bókmenntaperla sem þýðingarnar á sögunum um þá bræður eru og fjallað var um í um síðustu grein um launhelgar bókmenntanna.

"Spæjarasögur eru spennandi fyrir drengi eins og fullorðna. Í þessari bókaröð legg ég til tvo drengi, Jóa og Frank Hardy, syni frægs spæjara. Frá föður þeirra heyra þeir um margvísleg mál og smám saman byrja þeir sjálfir að leysa ráðgátur. Þeir taka á "hliðarmálum" glæpanna. Þannig gera þeir bræður sitt á meðan faðir þeirra er alvöru spæjarinn. Vinna drengjanna sem áhugaspæjarar felur í sér gnótt af atburðum, spennandi en hreinum."

Lesendur geta rétt ímyndað sér þá æsingu sem ríkti í herbúðum rannsakenda þegar bréf þetta kom í ljós. Hér fæst bein innsýn í hugarheim höfundar bókanna og glöggt sést hvað hann ætlast fyrir með ritun þeirra. Hann ætlar að færa ungum drengjum spennandi sögur af spæjurum á þeirra aldri. En það er ekki nóg, ævintýrin verða að vera "hrein", þ.e.a.s. hreinlyndi þeirra bræðra skiptir ekki minna máli en spennan. Er hér komin óræk sönnun þess sem bókmenntafræðingar hafa lengi haldið fram, (og komið hefur verið inn á áður í þessum greinaflokki) að bækurnar um Hardybræður séu að stórum hluta til siðaboðskapur. Þannig skiptir hreint hjartalag aðalsöguhetjanna höfuðmáli í lausn þeirra glæpamála sem þeir taka sér fyrir hendur. Það er því ekki úr vegi að líta aðeins nánar á bækurnar sjálfar og velta því fyrir sér hvort markmiðin með ritun sagnanna hafi náðst.

Bókin Frank og Jói finna fjársjóð er eitt gleggsta dæmið um gott hjartalag þeirra bræðra. Hún er fyrsta bókin í röðinni, kom út á frummálinu árið 1927 undir heitinu The Tower Treasure. Þar hefur fjársjóði verið stolið úr Turnhúsinu, en þar búa eldri systkin. Grunur beinist að garðyrkjumanni þeirra, en sá er faðir eins af skólafélögum Hardybræðra, Perrí Róbínson. Illa horfir fyrir Róbínson, hann er rekinn úr starfinu, enginn vill ráða hann vegna ásakana um þjófnað og á endanum er hann handtekinn. Perrí þarf að hætta í skólanum og fara að vinna til að sjá fyrir fjölskyldu sinni. Frank og Jói gefast hins vegar ekki upp. Þeir þurfa að berjast gegn öllu bæjarfélaginu þar sem enginn trúir þeim. Leynilögreglumaðurinn Smuff er þeim einnig óþægur ljár í þúfu, en hann ætlar sér að sanna glæpinn á Róbínson og fá verðlaun fyrir. Systkinin í Turnhúsinu, Haró og Aðallína Perón, eru þeim bræðrum einnig til trafala, en þau eru sannfærð um sekt garðyrkjumannsins síns. Þau reyna því að bregða fæti fyrir bræðurna í rannsókn þeirra og kæra sig lítt um þessa snuðrandi unglinga í húsi og á landareign sinni. En Frank og Jói gefast ekki upp og á endanum tekst þeim að koma upp um hinn sanna þjóf. Sá var utanbæjarmaður, en það er algengt með glæpamenn í sögunum – lítið virðist um þrjóta í heimabæ þeirra bræðra. Frank og Jói björguðu Róbínsonfjölskyldunni þannig með trygglyndi sínu, staðfestu og hreinu hjartalagi.

Um auðugan garð er gresja í leit að dæmum um hreinlyndi þeira bræðra og traust á mannfólkinu í þeim bókum sem á eftir fylgdu. Sem dæmi er tekin bókin Njósnarinn á flugleið 101. Hún kom út 40 árum eftir fyrstu bókina, árið 1967, og nefndist The Secret Agent on Flight 101 á frummálinu. Hún hefst á því að Fenton Hardy býður sonum sínum og Sidda Morton á sýningu töframanns. Þegar sýningu lýkur heimsækja þeir töframanninn baksviðs og hann er hinn alúðlegasti og sýnir þeim hvernig töfrar hans virka. Hann biður Fenton að aðstoða sig við eitt atriðið og í kjölfarið lætur hann spæjarann fræga hverfa. Líður nú og bíður en þegar hvorki sést tangur né tetur af föður þeirra, leita piltarnir skýringa hjá töframanninum. Framkoma hans hafði hins vegar breyst til muna, hann var "ekki vingjarnlegur lengur" og skýring hans var einföld þegar bræðurnir spurðu út í það hvar faðir þeirra væri nú niðurkominn: "Ég veit ekkert um það," sagði Hexton lymskulega. "Hann er sjálfsagt að leika á ykkur." Bræðurnir efast um þessa skýringu en þegar þeir vilja rannsaka málið kallar Hexton á tvo aðstoðarmenn, þar af einn tveggja metra rum, til að vísa þeim út. Kemur þá hreinlyndi og trúgirni þeirra bræðra glöggt í ljós: "Jói var reiðubúinn að berjast, en Frank greip í handlegg hans. Kannski var Hexton að segja satt. Jói samþykkti það." Að svo búnu yfirgefa drengirnir svæðið og Hexton kemur fanga sínum Fenton Hardy undan.

Hreinlyndi þeirra bræðra er slíkt að þeir virðast ekki sjá illan ásetning hjá nokkrum manni. Fleiri dæmi eru til um að menn þeim vingjarnlegir hafi snarlega breytt framkomu sinni þegar bræðurnir spyrja óþægilegra spurninga sem tengjast þeim málum sem þeir vinna að þá og þá stundina. Það hefur þó engin áhrif á þá bræður og verður ekki til þess að þeir gruni viðkomandi um græsku.

Það er því ljóst af þessum dæmum (sem eru aðeins brot af þeim sem fyrir hendi eru) að höfundur bókanna hefur haldið tryggð við upphaflegar hugmyndir sínar um tilgang þeirra: Spennandi sakamál leyst af hreinlyndum drengjum. Leitin að höfundinum stendur enn og hefur þó nokkur árangur náðst í þeim rannsóknum. Bréf það sem hér segir frá er hins vegar mikill fjársjóður. Þó engar fleiri uppgötvanir yrðu gerðar í þessari rannsókn hlýtur hún að teljast tímamótarannsókn í bókmenntum 20. aldar. Allar líkur benda þó til þess að lausn gátunnar um höfundinn dularfulla sé á næsta leiti.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.