Sérkennilegur málflutningur

Nokkuð sérkennileg umræða er hafin í kjölfar vangaveltna um leiðtogaefni íhaldsins í Reykjavíkurborg í næstu sveitarstjórnakosningum. Eins og alþjóð veit og áður hefur verið fjallað um á Múrnum hefur komið til tals að Björn Bjarnason menntamálaráðherra taki að sér leiðtogahlutverkið í Reykjavík og vænta Sjálfstæðismenn þess að hann geti leitt þá til sigurs í kosningunum að ári. Í kjölfarið hafa fulltrúar annarra flokka tjáð sig um afleiðingar þess að Björn færi í borgarmálin. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lýsti því yfir í viðtali við Dag um helgina að hún bæri engan kvíðboga fyrir því að takast á við Björn, kvaðst raunar tilbúinn í slaginn við hvaða Sjálfstæðismann sem er.

Í dag, 26. febrúar, mátti síðan heyra Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúa tjá sig um málið og einnig lesa um það að á vefriti ungra jafnaðarmanna, politik.is og var málflutningur beggja nokkuð sérstakur. Alfreð Þorsteinsson kvaðst ekki í nokkrum vafa að Vinstrihreyfingin – grænt framboð myndi halda áfram samstarfinu um Reykjavíkurlistann sem flokkurinn ætti nú þegar aðild að.

Hér er um nokkurn misskilning að ræða. Vinstrihreyfingin – grænt framboð á enga aðild að Reykjavíkurlistanum og hefur aldrei átt. Nokkrir félagar í hreyfingunni hafa starfað innan Reykjavíkurlistans og gera það sumir enn, þeirra á meðal Árni Þór Sigurðsson, varaborgarfulltrúi. Það þýðir hins vegar ekki að Vinstrihreyfingin – grænt framboð eigi aðild að Reykjavíkurlistanum, síður en svo. Flokkurinn hefur aldrei tekið afstöðu til Reykjavíkurlistans og engar samþykktir liggja fyrir um þátttöku flokksins í starfinu. Enda hefur Vinstrihreyfingunni – grænu framboði aldrei verið boðið að taka þátt í því.

Það er hins vegar ómögulegt að segja hvað verður upp á teningnum í næstu sveitarstjórnarkosningum. Engar viðræður hafa farið fram á milli flokka um þátttöku í kosningabandalagi, en sjálfsagt kemur að því. Niðurstaða þeirrar viðræðna sker síðan úr um fyrirkomulag framboðsmála árið 2002. Að þeim viðræðum þurfa flokkarnir að koma á jafnréttisgrundvelli, enda yrði um sameiginlegt framboð þriggja flokka að ræða. Grundvöllur fyrir Reykjavíkurlistanum eins og hann leit út við síðustu kosningar er brostinn, þrír flokkar af fjórum hafa sameinast og því er ekki um annað að ræða en kosningabandalag Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins.

Í ljósi þessa stingur málflutningur ungu jafnaðarmannanna á Pólitík nokkuð í augu. Þar er því lýst yfir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sé sjálfsagður framtíðarleiðtogi Samfylkingarinnar. Það er trú ritstjórnarfulltrúa Pólitíkur „að Samfylkingin muni fyrst ná sér á flug þegar Ingibjörg tekur við leiðtogastöðunni. Spurningin er ekki sú hvort að hún sé nógu góð til að taka við Samfylkingunni heldur hvort að Samfylkingin sé nógu góð fyrir hana.“

Eiga Framsóknarflokkurinn og Vinstrihreyfingin – grænt framboð að gefa hluta stefnumála sinna eftir, eins og óhjákvæmilega hlýtur að gerast í kosningabandalagi, til þess eins að koma Ingibjörgu Sólrúnu í leiðtogasæti Samfylkingarinnar? Og hver mundi taka við sem borgarstjóri eftir að Ingibjörg færi yfir í landsmálin? Ef þessi skoðun ungliðanna á sér einhverja stoð í veruleikanum, er augljóst að staða Ingibjargar sem frambjóðanda mun breytast miðað við það sem hún var í tvennum síðustu kosningum. Þar taldist hún ekki frambjóðandi neins flokks, heldur borgarstjóraefni alls listans. Augljóslega gengur það ekki upp ef næsta skref er leiðtogahlutverk eins af þeim þremur flokkum sem að kosningabandalaginu myndu standa.

Hvað sem öðru líður má spyrja hvaða hagsmunum það þjóni að útnefna Ingibjörgu Sólrúnu sem framtíðarleiðtoga Samfylkingarinnar á þessari stundu. Ljóst er það þjónar ekki hagsmunum Reykjavíkurlistans. Staðreyndin er sú að ef það þjónar hagsmunum einhvers þá er það Samfylkingarinnar sjálfrar. Og það er ekki góð byrjun á mögulegu samstarfi að taka sinn eigin flokk svo algjörlega fram yfir það.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.