Örvæntingarfull leiðtogaleit

Þá er það opinbert; Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík gerir sér engar vonir um að vinna komandi borgarstjórnarkosningar með því mannvali sem hann hefur yfir að ráða í dag. Það hefur lengi verið ljóst að Inga Jóna Þórðardóttir er ekki sá leiðtogi sem sjálfstæðismenn í Reykjavík þarfnast og nýtur hún engan veginn nægilegs trausts innan síns flokks. Skýrasta dæmið um það var könnun DV á fylgi forystumanna Sjálfstæðisflokksins í borginni í síðasta mánuði. Útkoma þeirrar könnunar var á einhvern óútskýranlegan hátt túlkuð sem mikill sigur fyrir Ingu Jónu af blaðamönnum DV. Í ljós kom þó við nánari skoðun að Júlíus Vífill Ingvarsson naut meira trausts eigin flokksmanna en Inga Jóna, en hún lenti hins vegar ofar í könnuninni vegna stuðnings utanflokksmanna.

Nú þegar rúmt ár er í borgarstjórnarkosningar er örvænting sjálfstæðismanna að taka á sig nýjar myndir. Um nokkurt skeið hefur sú kjaftasaga gengið að ætlunin sé að leita að nýju leiðtogaefni D-listans í Reykjavík innan raða ríkisstjórnarinnar. Nú hefur það fengist staðfest að ekki er eingöngu um óra misvitra kaffihúsaspekinga og stjórnmálaspekúlanta að ræða. Björn Bjarnason menntamálaráðherra hefur upplýst að til hans hafi verið leitað og hann beðinn um að taka að sér leiðtogahlutverkið í Reykjavík. Björn gaf hins vegar ekkert út á afstöðu sína til málsins.

Hvert sem svar Björns verður er hins vegar um mikil tíðindi hér að ræða. Raunar eru miklar líkur á að svar hans verði jákvætt. Með því að ræða við Björn og gera þær viðræður opinberar er búið að lýsa því yfir að núverandi leiðtogi sé svo veikur að þörf sé á að leita að nýjum. Því verður að teljast ólíklegt að Inga Jóna leiði listann í næstu kosningum, sama hvert svar Björns verður. Það að leitað sé til Björns Bjarnasonar vekur hins vegar upp ýmsar vangaveltur.

Hver yrði stefna D-listans í borginni með Björn Bjarnason sem borgarstjóraefni? Yrði farið út í umfangsmikla einkavæðingu í grunnskólanum líkt og menntamálaráðherra virðist ætla að heimila í Hafnarfirði? Það er einnig viss áfellisdómur yfir núverandi borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins að leita þurfi út fyrir raðir þeirra eftir forystusauði. Munu allir borgarfulltrúar treysta sér til að lúta leiðsögn Björns? Það væri einnig að sumu leyti athyglisverð staða að sjá Björn Bjarnason etja kappi við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Það er ekki svo langt síðan að Björn líkti borgarstjóra við Pol Pot á heimasíðu sinni. Það er því hætt við að köldu myndi anda á milli þeirra í kosningaslagnum.

Eins vekur þessi umræða upp spurningar um stöðu mála innan ríkisstjórnarinnar. Ef Björn ætlar að gerast borgarstjóraefni hlýtur það að vera í von um að vinna. En hver verður þá menntamálaráðherra? Verður það Þorgerður Katrín, eða kannski leiðtogi sjálfstæðismanna á Suðurlandi, Árni Johnsen? Það er hætt við því að ýmsar hræringar verði óhjákvæmilegar ef Björn þekkist boðið og margur muni standa eftir sár. Það er hins vegar óskemmtileg tilhugsun að fá Björn Bjarnason í stól borgarstjóra Reykjavíkur.

Líklega er þó ekki mikil hætta á því. Sjálfstæðisflokkurinn í borginni stendur illa í ölllum skoðanakönnunum og langvinnt tal um leiðtogaleysi hefur átt sinn þátt í því. Það er hins vegar ekki líklegt að þeim hremmingum ljúki með örvæntingarfullum aðgerðum eins og þeim að kalla Björn Bjarnason til leiks. Hann er ekki sá mikli leiðtogi sem menn vilja vera láta með þessum pælingum. Það verður hins vegar gaman að sjá hvað hann tekur sér fyrir hendur þegar hann er búinn að tapa borginn, þ.e.a.s. ef hann treystir sér í slaginn.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.