Líkur sækir líkan heim

Nýlega bárust fregnir af því að hinn nútímalegi jafnaðarmaður Tony Blair væri að leggja land undir fót. Hann ætlar sér að ferðast vestur yfir Atlantsála til að sækja forseta Bandaríkjanna, George W. Bush, heim. Á sínum tíma var talað um hina miklu vinstri bylgju sem reið yfir Vesturlönd. Var þá horft til leiðtoga eins og Bill Clintons, Tony Blairs og Gerard Schröders. Ekki komu þó allir auga á vinstri gildin hjá þessum leiðtogum. Svo rammt kvað hins vegar að þessum sigrum "vinstri gildanna" að tveir flokkar hér á landi, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin, kepptust um að lýsa sig hugsjónabræður þessara miklu leiðtoga. Var það einkum "þriðja leiðin" sem heillaði íslensku pólitíkusana, enda sú leið um margt þægileg fyrir stjórnmálamenn sem vilja ekki að hægt sé að festa hendur á nokkrum hlut í stefnu þeirra.

Nú er sú fyrsta af þessum fjórum alheimsstoðum félagshyggjunnar fallin. Í Hvíta húsið er sestur maður sem seint verður kenndur við vinstri gildi og félagshyggju, Bush yngri. Biðu því margir spenntir eftir að sjá hvernig samskiptum nýrra valdhafa í Washington við bandamenn sína í Evrópu yrði háttað. Og nú koma kostir þriðju leiðarinnar enn og aftur í ljós. Tony Blair er á leið til Washington að skýra Bandaríkjaforseta frá afstöðu Breta til nokkurra stefnumála repúblikana.

Tilgangur ferðarinnar er fjórþættur. Í fyrsta lagi almenn kurteisisheimsókn til nýrra valdhafa. Í öðru lagi ætlar Blair að fullvissa Bush að hin sterku vináttubönd þjóðanna haldi sama á hverju gengur. Þriðja ástæða fararinnar er að undirstrika það fyrir heimsbyggð allri að það séu ekki eingöngu Bandaríkjamenn sem standa að loftárásunum á Írak, Bretar standi heilshugar að þeim aðgerðum með þeim. Fjórða og síðasta opinbera ástæða vesturferðar Blairs, er síðan að gera Bush, og heimsbyggðinni þá um leið, heyrinkunnugt að bresk stjórnvöld styðji áætlanir Bandaríkjastjórnar um geimvarnir.

Þau eru traust, vináttubönd Breta við fyrrum nýlendur sínar í vestri. Svo traust reyndar að oft er ógjörningur að sjá mun á stefnu stjórnvalda í löndunum tveimur. Tony Blair sýnir það og sannar með þessari heimsókn sinni að hann á ekki síður samleið með núverandi forseta Bandaríkjanna en fyrrverandi. Utanríkisstefna þjóðanna tveggja er nær samhljóða. Stendur Blair þar þéttar með Bandaríkjamönnum en með bandamönnum sínum í Evrópu og er á öndverðum meiði við aðrar forystuþjóðir Evrópusambandsins. Spurningin er aðeins hvenær Blair mun taka helstu stefnumið Bandaríkjastjórnar í innanríkismálum upp á arma sína. Raunar er þar margt keimlíkt, enda hefur ríkisstjórn Blairs á sumum sviðum fetað sig eftir þeirri braut sem Thatcher varðaði. En Blair hefur talað fyrir hönd stjórnar sinnar og ljóst er að húsbóndaskiptin í Hvíta húsinu hafa engin áhrif á samband ríkjanna. Rakkinn er jafn tryggur og fyrr.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.