Launhelgar bókmenntanna III: Þjóðargersemar í þýðingum

Hver er höfundur bókanna um Frank og Jóa? Þessi spurning hefur farið eins og eldur í sinu um bókmenntaheim landsins undanfarna daga. Aðdáendur þessara drengjasagna sem innprentuðu kynslóð eftir kynslóð góða og rétta siði, misstu margir hverjir trausta stoð í lífi sínu þegar upplýst var að Franklin W. Dixon væri aðeins dulnefni. Þegar höfundi þessa greinaflokks varð ljóst hversu mikið tilfinningamál þetta var fyrir lesendum ákvað hann að vanda vel til verksins og rannsaka málið ofan í kjölinn. Því var gert hlé á birtingu greinanna á meðan undirritaður tók sér rannsóknarleyfi frá öðrum störfum til að grafast fyrir um hið sanna í "Franklin W. Dixon-svindlinu" eins og einhverjir hafa nefnt það.

Þær rannsóknir leiddu hins vegar í ljós að málið er víðfeðmara en margur hugði. Að því koma miklu fleiri en virtist í fyrstu og nýr leyndardómur blasir við í hvert skipti sem annar er upplýstur. Þeir sem mikla ábyrgð bera í þessu máli eru hinir íslensku útgefendur og þýðendur bókanna. Sá heimur sem blasti við íslenskum lesendum bókanna var fagur heimur þar sem hin réttu gildi voru í hávegi höfð, búinn til af hinum hreinlynda Franklin W. Dixon og þýddur á frábæran máta af nokkrum stílsnillingum. Þar mátti lesa um hina björtu veröld bandaríska smábæjarins og sögusviðið hreinlega spratt fram af síðunum, slík var snilld höfundar og þýðanda. Það er því ekki úr vegi að beina sjónum að þýðingunum, áður en blekkingarvefur höfundarins er rakinn.

Þýðingar á bókunum um þá Frank og Jóa eiga ekki sísta þáttinn í því að skapa hið rétta andrúmsloft. Margar bækurnar verða hrein og klár listaverk í meðförum þýðenda, en að öðrum ólöstuðum ber bókin Leyndarmálið um hvalinn af sem gull af eiri. Bókin kom út á frummálinu árið 1968 undir titlinum The mystery of the Whale Tattoo . Hinn íslenski þýðandi sleppir hins vegar öllum tilvísunum í húðflúr í titli bókarinnar. Án efa er þar um uppeldislega aðgerð að ræða, enda hefur það ekki holl áhrif á hughreina lesendur bókanna að vera minntir á jafnauvirðilegt fyrirbæri og líkamsskreytingar. Bókin kom út hér á landi árið 1982 og sem fyrr var það Prentsmiðjan Leiftur hf. sem gaf hana út.

Leyndarmálið um hvalinn er um margt sérstök. Styttingin sem gerð var á titlinum heldur sér út alla bókina. Hún er eingöngu 112 síður og ber öll heldur stuttaralegan keim. Í upphafi bókar er engin tilraun gerð til þess að kynna aldur, nöfn og háralit þeirra bræðra í eðlilegum samtölum líkt og í öðrum bókum, heldur er lesanda strax gerð grein fyrir því hverjir hér eru á ferð. "Jói Hardy var ljóshærður, 17 ára piltur, en Frank bróðir hans var dökkhærður, 18 ára." Eins er engin tilraun gerð til að þýða nafn heimabæjar þeirra eins og fordæmi voru fyrir úr fyrri bókum, Strandhöfn er einfaldlega Bayport. Bókin er hins vegar komin nokkuð langt á þróunarbraut farskjóta þeirra bræðra. Í fyrstu bókunum ferðuðust þeir um í vagni, sem gaf þeim nokkuð ævintýralegan blæ þangað til lesandi uppgötvaði að það voru hestöfl en ekki hestar sem knúðu vagn þeirra áfram. Í Leyndarmálinu um hvalinn hafa þeir bræður hins vegar eignast bíl, sem og aðrir í heimabæ þeirra.

Það sem gerir textann í Leyndarmálinu um hvalinn að slíkri snilld sem raun ber vitni, er hins vegar viðleitni þýðandans til þess að varpa lesandanum beint á málsvæði sögunnar. Þannig er ekki reynt að fella málið að íslenskri málvenju, enda gerist sagan ekki á Íslandi. Þess í stað leggur þýðandi sig í líma við að "ameríkanisera" textann, þannig að lesandi sér lífið í hinum fallega bandaríska smábæ fyrir hugskotssjónum sínum. Lítum á nokkur dæmi:

"Já, en minnist þess drengir, að þið verðið að vera búnir að hlæja út, áður en Elmar kemur," og til áréttingar ögraði hún þeim með vísifingri. "Já, maddama!" sögðu þeir Frank og Jói hlæjandi.";
"Við markaðstorgið var nægilegt rými fyrir bílinn og er þeir gengu inn á sýningarsvæðið, glumdu við gleðilæti, söngur, hávaði frá boltaleikjum, skrækir frá fólki ríðandi á rugguhestum og hvarvetna léttleiki, sem einkennir útiskemmtanir. Frank og Jói sneru sér að hliði, þar sem ekki var mikil mannþröng.";
"Jói gekk í átt til inngöngudyranna, en vörðurinn stöðvaði hann: "Þú ert Hardy! Og hvað svo? Þú átt að kaupa aðgöngumiða eins og aðrir."";
"Besti vinur þeirra sveiflaði sigurmerki og brokkaði til þeirra.";
"Við vitum ekkert um þetta, og nú skuluð þið lofa okkur að vera í friði. Við eigum að fara aftur í starf eftir fáeinar mínútur.";

Að lokum má nefna það þegar bláókunnugur maður kallar til Jóa: "Sestu niður, sonur, ég skal bjarga þér örugglega eftir eina mínútu" eða að leyndarmálinu um hvalinn virðist fylgja leiðarvísir, ef marka má eftirfarandi samtal þeirra bræðra við Fenton Hardy:
""Er nokkur leiðarvísir?" spurði Jói, ákafur.
"Já, einhver maður hafði sett sig í samband við lögregluna og kvaðst hafa í fórum sínum nokkrar upplýsingar um Blackright."

Þýðingar bókaflokksins áttu þannig sinn þátt í því að skapa það andrúmsloft sem lesandinn sóttist eftir. Hreinlyndir, ungir, bandarískir drengir, íþróttastjörnur og spæjarar, leysa málin. Það er í raun undarlegt hve lítið hefur farið fyrir umræðu um þessar þýðingar, jafnmiklar þjóðargersemar og þær eru. Víst er þó að breyting mun verða þar á þegar bókmenntafræðingar landsins kynna sér efniviðinn. En hver skrifaði þá bækurnar um Frank og Jóa? Vissulega ekki þýðendurnir, en þeir áttu stóran þátt í að gera þær að þeim listaverkum sem þær eru. Við verðum að bíða róleg og fikra okkur áfram um launhelgar bókmenntanna í næstu grein.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.