Þegar hús er ekki hús

Fyrir nokkrum árum kynntu fulltrúar Reykjavíkurlistans tillögur um skemmtihús í Hljómskálagarðinum. Um var að ræða n.k. garðskála, "pavillion", þar sem hægt væri að fá veitingar og standa fyrir ýmsum skemmtunum. Ætlunin var að laða fleira fólk í Hljómskálagarðinn sem gæti notið náttúrunnar á hinum opnu svæðum og fengið kaffibolla og kökusneið sér til hressingar. Á kvöldin væri síðan hægt að hafa ýmiss konar dagskrá í garðinum og draumsýnin var sú að þangað myndu Reykvíkingar flykkjast á mildum sumarkvöldum.

Hugmyndin mætti hins vegar mikill andstöðu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Gengu þeir fram fyrir skjöldu, allir sem einn, sem verndarar hinna opnu svæða borgarinnar. Þeir máttu ekki heyra á það minnst að hróflað yrði við túnfletinum í Hljómskálagarðinum og létu margir þeirra að því liggja að fulltrúar Reykjavíkurlistans vildu eyðileggja garðinn sem útivistarsvæði. Þessi mikla umhverfisvitund Sjálfstæðismanna kom fólki í opna skjöldu og var eftir því tekið að nýir talsmenn náttúruverndar væru komnir fram á sjónarsviðið. Þarna var fólk sem lét ekki undir nokkrum kringumstæðum byggja á grænum svæðum, ekki einu sinni þótt tilgangur bygginganna væri að laða fleira fólk á svæðið. Hætt var við byggingaráformin og Hljómskálagarðurinn stóð eftir óhreyfður.

Nokkru síðar bar svo við að Hrafn nokkur Gunnlaugsson fékk styrk frá Reykjavíkurborg til að gera mynd þar sem gerð var grein fyrir skipulagshugmyndum hans. Mynd þessi var vel heppnuð í alla staði, á sjónrænan hátt tóks höfundinum að koma draumsýn sinni til skila. Áhorfendur sátu agndofa þegar húsalengjur sporðreistust unnvörpum, byggð spratt upp í Viðey, flugvöllur birtist í miðjum Skerjafirði og hús ofan úr Árbæ skutu upp kollinum í Hljómskálagarðinum. Myndin fékk mikið umtal, blaðagreinar voru skrifaðar, um hana var rætt í öllum umræðuþáttum landsins og borgaryfirvöld tóku meira að segja tillit til hennar í skipulagsvinnu vegna flugvallarkosninganna.

Og minnihlutinn í borginni rankaði við sér. Hér hafði Hrafn sett fram ýmsar sniðugar hugmyndir sem virtust fara vel í fólk og því var um að gera að eigna sér eitthvað af þeim. Því leið ekki á löngu þar til þessir fyrrum verðir túnanna í Hljómskálagarðinum höfðu gert eina hugmynd Hrafns að sinni. Nú skyldi byggja í garðinum og það ekki einhvern garðskálaræfil, heldur reisa þar heilt safn gamalla húsa sem ekki geta staðið annars staðar, eins og segir í tillögu Sjálfstæðismanna. Því það er ekki sama hver leggur hlutina til. Ef fulltrúar Reykjavíkurlistans vilja að lítill hluti Hljómskálagarðsins verði nýttur undir hús heitir það árás á útivistarsvæði borgarinnar. Þegar Sjálfstæðismenn hins vegar leggja til að húsum verði dritað niður í allan garðinn eru þeir að standa vörð um hagsmuni borgarbúa.

Hundur er hundur og sullur er sullur og kind er kind. En hús er hins vegar ekki hús. Ekki í öllum tilfellum að minnsta kosti. Það ætlar að sannast aftur og enn að myndmálið er máttugt. Í þessu tilviki var það svo máttugt að náttúruvernd borgarfulltrúa minnihlutans fauk út í veður og vind. Það þarf kannski ekki að koma á óvart. Tillöguflutningur Sjálfstæðismanna í borginni hefur ætíð stjórnast af því hvernig vindar almenningsálitsins blása í það og það skiptið.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.