Kratar kúvenda

Nútímalegir jafnaðarmenn skera reglulega upp herör gegn öllu því sem þeim finnst vera "þjóðernisíhald" hverju sinni. Allt tal um þjóðleg gildi og það að standa vörð um íslenska menningu fer yfirleitt mjög illa í hina Evrópusambandssinnuðu krata. Það skýtur því nokkuð skökku við að sjá nýlega ritstjórnargrein á vefriti Ungra jafnaðarmanna, politik.is. Þar tekur annar ritstjórinn, Sif Sigmarsdóttir, á því vandamáli sem henni finnst þjóðsöngur Íslendinga vera.

Af og til hefur þessi umræða skotið uppi kollinum. Sumum finnst þjóðsöngurinn ekki nógu sönghæfur, textinn flókinn og sumum þykir hann alls ekki við hæfi. Ritstjóri Pólitíkur notar hefðbundin rök andstæðinga þjóðsöngsins en leggur öllu meiri áherslu á innihald textans. Þjóðsöngur Íslendinga er nefnilega sálmur. Lofsöngur séra Matthíasar Jochumssonar er ekki Íslandi til dýrðar, heldur drottni almáttugum.

Vissulega er það þörf ábending hjá ritstjóranum að söngur drottni til dýrðar sé ekki við hæfi í landi þar sem trúfrelsi ríkir. Hins vegar er engin ástæða til að þjóðsöngur landsins verði einfaldur, sönghæfur og öllum aðgengilegur. Það er einmitt mikill kostur á Lofsöngnum að fáir geta sungið hann og enn færri skilja um hvað hann fjallar. Þjóðsöngvar eru ein áþrifamestu þjóðernistákn sem fyrirfinnast, ásamt þjóðfánum. Í Bandaríkjunum, til dæmis, er fátt annað sem sameinar íbúana en þessi þjóðernistákn og einhver óljós hugmynd um ameríska drauminn. Þar mega tveir-þrír Bandaríkjamenn ekki hittast án þess að fara að gaula þjóðsönginn. Þjóðsöngurinn er fluttur, gjarnan af einhverri stórstjörnu, á undan fótboltaleikjum, hafnaboltaleikjum, körfuboltaleikjum o.s.frv. Menn sveipa sig fánanum við öll tækifæri og belja saman "Star spangled banner".

Íslendingar gera þetta aftur á móti ekki. Þegar þjóðsöngurinn er spilaður opinberlega, syngja örfáir með. Ólafur Stefánsson tók t.d. yfirleitt einn undir á heimsmeistaramótinu í handbolta í Frakklandi og er það vel. Þjóðsöngur Íslendinga er tákn. Það skiptir engu máli hvað í texta hans segir, það skiptir engu máli hvernig hann hljómar, hann er tákn fyrir íslenska þjóð. Hann er ekki eina dæmið um kvæði og lög sem verða táknræn og missa upprunalegt gildi sitt við það. Nægir að nefna Maístjörnu Halldórs Laxness við lag Jóns Ásgeirssonar. Það lag er að öðlast sess þjóðernistákns og var til dæmis sungið á lýðveldisafmælinu á Þingvöllum árið 1994. Það skiptir engu máli þó hér sé um sósíalískan boðskap að ræða, ortan í tilefni 1. maí. Það skiptir ekki máli þó skáldið boði framtíðarland verkalýðsins og forsætisráðherra og þjóðin öll taki undir. Kvæðið er orðið að tákni og upphaflegur boðskapur þess skiptir ekki máli.

Hið sama gildir um þjóðsöng Íslendinga. Það hversu erfitt er að syngja hann og hið helgilega yfirbragð gerir það að verkum að hann er ekki í stöðugri notkun. Honum er tjaldað til hátíðabrigða. Hins vegar er fullt af ættjarðarljóðum og lögum sem ættjarðarelskendur geta sameinast í flutningi á. Þjóð, sem er jafn hætt við þjóðernisbelgingi og kynþáttafordómum eins og Íslendingum, er hollt að búa við þessar aðstæður. Eðli þjóðsöngsins kemur í veg fyrir að honum sé flíkað við öll tækifæri, því það gerir ekkert nema að vekja menn til umhugsunar um hverjir tilheyra þjóðinni og hverjir ekki.

Margur hefði haldið að hinir Evrópusambandssinnuðu ungkratar ættu að geta sameinast okkur, hinum þjóðernissinnuðu íhaldspungum, í þessu máli. Það eru því viss vonbrigði að annar ritstjóri málgagns þeirra skuli gera sitt til þess að reisa enn fleiri múra á milli okkar og bræðra okkar og systra í Evrópu. Því múr er múr, hvort sem hann er reistur á efnahagslegum forsendum eða hugarfarslegum.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.