Sameignarfélag um samfélagsþjónustu

Nýverið samþykkti borgarráð að ganga til viðræðna við Bessastaðahrepp, Garðabæ, Hafnarfjörð, Kópavog, Mosfellsbæ og Seltjarnarnes um stofnun sameiginlegs félags um almenningssamgöngur. Á undanförnum árum hefur samstarf aukist á því sviði á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega með tilkomu græna kortsins. Stefna bæjarfélaganna hefur verið að auka þetta samstarf enn frekar og nú á að stíga skrefið til fulls og stofna sameignarfélag um reksturinn.

Með því vinnst heilmargt. Við núverandi aðstæður er t.d. er dýrara að taka strætó frá Kringlunni upp í Hamraborg í Kópavogi heldur en frá Seltjarnarnesi og upp í Grafarvog. Á þessu vinnst bót þar sem stefnt er að einu leiðarkerfi og einni gjaldskrá fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Einnig verður það óhagræði úr sögunni að ekki er hægt að nota skiptimiða úr Almenningsvögnum í SVR, eða öfugt, þannig að strætisvagnaferð frá Kópavogi í Vesturbæ Reykjavíkur kostar 330 kr.

Sameiginlegur rekstur almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu mun þýða betri þjónustu fyrir íbúa svæðisins. Það mun vonandi leiða til þess að fleiri fari með strætó en áður. Kallast það mjög á við fyrirætlanir Reykjavíkurborgar, en í Staðardagskrá 21 er stefnan sett á öflugri almenningssamgöngur á kostnað einkabílsins. Sameiginlegt leiðakerfi og sameiginleg gjaldskrá höfuðborgarsvæðisins mun hjálpa til við að ná því markmiði.

Hins vegar verður ætíð að stíga varlega til jarðar þegar um sameiningu fyrirtækja er að ræða. Huga verður vel að starfsfólki þeirra og ekki má skilja það eftir í sömu óvissu og ríkisstjórnin leiddi yfir starfsfólk Búnaðarbankans sællar minningar. Stefnt er að því að ná samningi milli fyrirtækjanna eigi síðar en 1. mars. Ýmsum þætti einn mánuður nokkuð skammur tími í jafnstóra aðgerð, sérstaklega þar sem hér er um mjög mikilvægan þátt í þjónustu sveitarfélaga að ræða. Það er því spurning hvort hér sé ekki farið óþarflega geyst.

Rekstarfyrirkomulag hins nýja fyrirtækis skiptir miklu máli. Öflugar almenningssamgöngur eru sjálfsögð þjónusta hvers sveitarfélag og þær á aldrei að reka út frá gróðasjónarmiðum. Það er því ánægjulegt að í skýrslu sem unnin var fyrir Reykjavíkurborg um kosti sameiningarinnar er sérstaklega tekið fram að hlutafélagaformið henti ekki. Hér er ekki um samkeppnisrekstur að ræða heldur samfélagsþjónustu.

Óskandi er að þessi sameining gangi upp og hægt verði að auka þjónustu við íbúa sveitarfélaganna. Hið sameiginlega félag mundi einnig standa betur að vígi í samningum við ríkisvaldið. Óréttlát skattheimta af strætisvagnarekstri sveitarfélaganna, er ein meginástæða þess að ekki er hægt að bjóða upp á betri þjónustu en raun ber vitni. Vonandi rætist sú draumsýn að innan skamms verði strætisvagninn jafn raunhæfur kostur og einkabíllinn hvar sem er á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Það er eitt stærsta umhverfismál höfuðborgarsvæðisins.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.