Maddaman sviptir sig sjálfræði

Ekki er ofmælt að framsóknarmenn séu með flokkshollari mönnum. Þó hefur nokkrum sinnum borið við að hinir ungu framsóknarmenn sem standa að vefritinu Maddaman.is, hafi sýnt sjálfstæða hugsun. Þeir hafa gagnrýnt sumar aðgerðir ríkisstjórnarinnar, að vísu aðeins þær allra verstu – en það er þó a.m.k. einhver sjálfræðisvottur. Upp á síðkastið hefur hins vegar dregið mjög úr þessum tilburðum ungliðinna. Öryrkjamálið svokallaða varð síðan til þess að lýðum varð ljóst að þessi neisti sjálfstæðrar hugsunar er slokknaður með öllu.

Skýrasta dæmið um þetta er ótrúleg grein eftir ritstjóra Maddömunnar, Finn Þór Birgisson, en hún birtist sl. fimmtudag. Þar fer ritstjórinn mörgum orðum um bréfaskipti milli forsætisnefndar þingsins og Hæstaréttar sem víðfræg eru orðin. Reyndar virðist ritstjórinn hafa heimildir fyrir því að bréfaskiptin hafi eingöngu verið á milli forsetanna tveggja, Alþingis og Hæstaréttar. Það er gott að fá það á hreint, en stjórnarandsstaðan hefur einmitt látið að því liggja.

Ritstjóranum sýnist skrif forseta Alþingis til forseta Hæstaréttar hins vegar vera þjóðráð. Halldór Blöndal hafi eingöngu verið að bregðast við erindi stjórnarandstöðunnar þess efnis að frumvarp ríkisstjórnarinnar um málefni öryrkja ætti ekki að taka á dagskrá Alþingis vegna þess að það bryti í bága við stjórnarská. Síðan leyfi stjórnarandstaðan sér að bregðast hin versta við bréfinu!! Það er ekki nema von að Finnur Þór hneykslist. Hann skýrir að vísu ekki hvers vegna Halldór Blöndal beið með það í rúma viku, allt fram á síðustu stundu að senda Hæstarétti bréfið fyrst það var svo mikið þjóðráð.

Steininn tekur þó úr í málflutningi ritstjóra Maddömunnar þegar hann reynir að halda því fram að með bréfaskriftunum hafi verið komið í veg fyrir frekari málaferli. Hann gagnrýnir stjórnarandstöðuna mjög fyrir tvískinnung í þeim málum. Þannig hafi hún átalið ríkisstjórnina fyrir að egna "öryrkja til frekari málaferla" með því að halda því fram að Hæstiréttur ætti að hafa síðasta orðið um túlkun dómsins. Nú hafi stjórnvöld unnið það þarfa verk að fá túlkun dómsins án málaferla og því geti allir verið ánægðir.

Efast verður um að meiri skrumskæling hafi sést á sannleikanum í þessu máli, og hafa stjórnarflokkarnir þó mikið gert af slíku. Stjórnarandstaðan gagnrýndi stjórnvöld fyrir að leggja fram frumvarp sem tæki ekki á því sem fram kom í dómi Hæstaréttar frá 19. desember. Stjórnvöld bentu hins vegar á það að öryrkjar gætu bara farið í mál til að sannreyna það og Jónína Bjartmarz, form. heilbrigðisnefndar Alþingis, taldi það beinlínis æskilegt. Nú reyna ungliðar Framsóknarflokksins að halda því fram að slíkt sé óþarfi þar sem túlkun dómsins hafi fengist án málaferla! Hvaða endemis bull er þetta? Að Hæstiréttur hafi fellt dóm í máli sem ekki einu sinni er búið að kæra í!

Bréfaskipti Halldórs Blöndals og Garðars Gíslasonar eru enn eitt dæmið um flumbrugang stjórnvalda í öryrkjamálinu. Þau eru fordæmalaus í réttarsögu landsins og helstu lagaspekingar hafa varað mjög við því að þau gefi tilefni til þess að ætla að dómstólar séu ekki óháðir löggjafarvaldinu. Ef svo er, og öryrkjamálið í heild sinni virðist sannarlega benda til þess, er þrískipting ríkisvaldsins farin fyrir bí og stjórnarskrá íslenska lýðveldisins því ómerk. En ritstjóri vefrits ungliðahreyfingar Framsóknarmanna hefur ekki áhyggjur af því. Áætlunarverk flokksins hans tókst, frumvarpið er orðið að lögum með gæðastimpli Hæstaréttar Íslands. Það er ekki líklegt að breyting verði á fylgi Framsóknarflokksins á næstunni ef þessi málflutningur er dæmi um skoðanir ungliða flokksins. Og það er kannski eini ljósi punkturinn í þessu máli.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.