Launhelgar bókmenntanna II: Ævintýri á Íslandi

Í öðrum þætti umfjöllunarinnar um Frank og Jóa er rétt að beina sjónum aðeins nánar að einstökum bókum seríunnar áður en hulunni verður svipt af höfundinum. Fyrsta bókin um þá bræður var gefin út árið 1927 undir nafninu "The Tower Treasure". Enn koma út nýjar bækur, að sögn eftir Dixon, en við vitum betur. Sannir aðdáendur þeirra Hardy-bræðra telja þó að fyrstu 58 bækurnar séu hinar einu og sönnu bækur um Frank og Jóa, þ.e.a.s. frá "The Tower Treasure" árið 1927, til "The Sting of the Scorpion" árið 1979. Ein þessara bóka er í sérstöku uppáhaldi margra hér á landi, enda gerist hún að mestu á Íslandi.

Löngu áður en Mezzoforte, Sykurmolarnir, Björk, Friðrik Þór og þau öll unnu sína ágætu landkynningu, gerði Franklin W. Dixon sitt til að kynna Ísland fyrir heiminum. Árið 1969 kom út bókin "The Arctic Patrol Mystery". Var hún nokkurt stílbrot í sögunum um þá bræður, enda gerðist hún að mestu í fjarlægu landi norður undir heimskautsbaug. Ýtti þetta undir kenningar þess efnis að Franklin W. Dixon væri yfirmaður í hernum og þekking hans á Íslandi skýrðist af því að hann hefði dvalið um skeið í herstöð Bandaríkjamanna hér á landi. Íslenskir bókaútgefendur brugðust skjótt við og tveimur árum síðar kom bókin út í íslenskri þýðingu hjá Prentsmiðjunni Leiftri hf. Þýðandinn vildi ekki láta íslenska lesendur velkjast í vafa um að sagan ætti erindi við þá og hlaut hún nafnið "Frank og Jói á Íslandi".

Engum sem les bókina dylst að höfundurinn hefur komið til Íslands. Til að byrja með er þó engu líkara en að þekkingu sína fái hann úr landkynningarbókum, því í aðflugi að Keflavíkurflugvelli virða þeir bræður fyrir sér landslag þar sem hverir gjósa við rætur jökla. Raunsærri lýsing tekur þó við þegar vélin er lent og ævintýrið byrjar fyrir alvöru. Siddi Morton er í för með þeim bræðrum og þeir eru svo heppnir að rekast strax á vinalegan ungan Íslending, Guðmund Bergsson, sem hafði verið við nám í Bandaríkjunum. Með þeim tekst hin mesta vinátta og Gummi er betri en enginn þegar að hasarnum kemur. Hann virðist enda marga fjöruna hafa sopið og kippir sér ekkert upp við það að hér séu komnir bandarískir leynilögregluunglingar, heldur býður fram aðstoð sína.

Verkefni Franks og Jóa er að hafa uppi á Gylfa nokkrum Hallbjörnssyni til að koma arfi, sem honum hafði hlotnast, til skila. Það virðist hafa verið mjög algengt nafn á 7. áratugnum (þess má geta að enginn með því nafni finnst í símaskránni í dag), því Gumma líst sem þetta muni örðugt verk: "Það verður eins og að leita að nál í heystakk" segir hann. Enda reynist leitin erfið, ekki síst vegna þess að Gylfi hafði skipt um nafn og tekið upp nafnið Gylfi Mar. Höfundur sýnir mikla þekkingu á íslensku nafnakerfi í stórskemmtilegum kafla um leit bræðranna að nafninu Hallbjörnsson í símaskránni. Gummi útskýrir hinar fornu reglur um kenninöfn og beinir drengjunum á réttar brautir.

En leitin að Gylfa er ekki aðalsaga bókarinnar. Heimsókn bandarísku geimfaranna hingað til lands sem voru að kynna sér aðstæður fyrir tungllendingu er sennilega kveikjan að bókinni. Geimfararnir eru staddir hér á landi þegar Frank og Jói mæta á svæðið, en þeir eru ekki einir á ferð. Alþjóðlegur njósnahringur, sem ekur um á þýskum Taunus-bíl, hefur tekið sér bólfestu hér á landi. Þeir hafa mikil umsvif, eru með þyrlu, bát og fullkomna sendistöð sem þeir hafa grafið inn í fjall einhvers staðar inn af Snæfellsnesi. Brátt snýst sagan upp í hatramma baráttu piltanna við njósnarana, eftir að leiðtoga geimfaranna er rænt! Kemur þá í ljós að Ísland á 7. áratugnum er stærra og fjölþjóðlegra en margur hefur haldið.

Njósnurunum, sem tala ekki íslensku, aðeins eitthvert óskilgreint balkanmál og ensku með hreim, tekst á snilldarlegan hátt að hverfa í fjöldann aftur og aftur þegar bræðurnir eru við það að klófesta þá. Eitthvað virðast flugslys líka hafa verið algengari þá en nú því þegar yfirvöld bjarga þeim bræðrum eftir að hafa þurft að norpa yfir nótt á Vatnajökli eftir eitt slíkt, virðast þau lítt uppnumin. Þeir bræður biðja um að þeim sé flogið norður á Akureyri, þangað sem förinni var heitið, og er það auðsótt mál. Engir eftirmálar eru af þessu slysi og ekki virðist Íslendingum hafa þótt það frétnæmt.

Bræðurnir þurfa þó ekki að standa einir í baráttunni því auk Sidda Mortons bætist þeim fljótlega liðsauki í Bidda Hopper. Þeir njóta einnig ómældrar aðstoðar íslenskra yfirvalda. Þar á bæ eru menn óðfúsir í að hjálpa hinum ungu leynilögreglumönnum, þeir fá afnot af varðskipi og embættismenn utanríkisráðuneytisins aðstoða þá í hvívetna. Yfirvöld mega sín þó lítils gegn njósnurunum, enda eru bjargvættir piltanna þegar njósnararnir hafa klófest þá ekki mannlegir. Flokkur ísbjarna sem gengið hafði á land frá Grænlandi stekkur glæpamönnunum á flótta þannig að piltarnir komast undan.

"The Arctic Patrol Mystery" gefur jákvæða mynd af Íslendingum. Þeir trúa allir á álfa, huldufólk og drauga og eru gestrisnir úr hófi fram. Ekki er þó víst að það hafi haft þau áhrif að ferðamenn hafi flykkst hingað til lands, því bókin þykir almennt ein af sístu bókunum um Frank og Jóa. Á Amazon.com fær hún aðeins 1 af 5 mögulegum stjörnum, á meðan fjöldi bóka um þá bræður fær 4 stjörnur í einkunn. Hin miklu áhrif bókarinnar eru þó ekki síst hér á landi. Þetta er bókin sem færði íslenskum ungmennum heim sanninn um að hreinlyndir bandarískir unglingar hefðu ætíð sigur yfir Austur-Evrópskum óbótamönnum, ekki síst ef Íslendingar aðstoðuðu þá.

En hver skrifaði þessa merku bók? Var það einn af bandarísku hermönnunum á vellinum? Ef svo er þá er hér komið skýrasta dæmið um bandarísk menningaráhrif í kjölfar hersetunnar. En hvað er til í því að höfundurinn beri jafn norrænt eftirnafn og Svenson? Enn og aftur verður að bíða betri tíma með að svipta hulunni af leyndardóminum um það hver skrifaði sögurnar um Frank og Jóa.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.