Borg á krossgötum

Síðastliðinn fimmtudag gerðust þau merku tímamót í borgarstjórn Reykjavíkur að samþykkt var Staðardagskrá 21 (S21). Árið 1997 gerðist Reykjavík aðili að Álaborgarsamþykktinni um S21. Álaborgarsamþykktin gekk út á að færa Ríó-samþykktina um Dagskrá 21 á stjórnsýslustig sveitarfélaga. Lykilhugtakið að baki Dagskrá 21 og S21 er "sjálfbær þróun" og er þar átt við þróun sem eykur lífsgæði en gengur ekki á höfuðstól náttúruauðlindanna.

Mikil og góð vinna hefur verið unnin innan borgarkerfisins við undirbúning S21. Titillinn er ekki gagnsær en það sem um er að ræða er í raun umhverfisstefna Reykjavíkurborgar. Plaggið er þannig bæði framkvæmdaáætlun, þar sem ýmis verkefni eru tilgreind, sem og stefnumótun fyrir framtíðina. Hér er því framtíðarsýn á umhverfismál næstu alda á ferð.

Eitt af merkilegri ákvæðum í S21 er sú stefnumörkun að almenningssamgöngur verði efldar á kostnað einkabílsins. Reykjavíkurborg er ein af fáum höfuðborgum heimsins sem býr við þær aðstæður að enn er ekki allt komið í óefni í umferðarmálum. Hvert sem við lítum í kringum okkur, nema kannski í Þórshöfn og Nuuk, er umferð í borgum orðin nær óleysanlegt vandamál. Sums staðar er bílaumferð hreinlega bönnuð í miðborgum, annars staðar er við ramman reip að draga.

Reykjavík stendur nú á krossgötum hvað varðar þróun borgarinnar og umferðar í henni. Með þéttari byggð og öflugri almenningssamgöngum ætti að vera hægt að stemma stigu við óhóflegri umferð einkabíla. Það er ánægjulegt að borgaryfirvöld séu svo framsýn að þau ætli sér á næstu árum og áratugum að stemma stigu við fjölgun bíla.

Á síðustu árum hafa Íslendingar orðið æ meðvitaðri um hversu mikilvægt er að ganga varlega um náttúru landsins og sinna umhverfismálum af kostgæfni. Hvort sem um er að ræða einstaklinga, fyritæki eða stofnanir, sést þessi aukna umhverfisvitund berlega. S21 er einn liður í þessari vitund. Sú vinna sem þar hefur farið fram mun verða borgarbúum leiðarhnoða í umhverfismálum um ókomna tíð. Þeirri vinnu lýkur aldrei. Hún helgast m.a. af aukinni þátttöku borgarbúa í umhverfismálum, betri umgengni við borgina og þeirri vissu að við eigum landið ekki, heldur höfum það aðeins að láni. Samþykkt S21 markar tímamót í umhverfismálum Reykjavíkurborgar og er óræk sönnun þess að stjórnmálamenn og yfirvöld eru í æ ríkari mæli að öðlast skilning á mikilvægi umhverfismála fyrir okkur öll.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.