Launhelgar bókmenntanna I: Siðapostuli sem var ekki til

Nýverið skók mikið hneykslismál bókmenntaheiminn. Dulnefni rithöfunda er gömul saga og ný og er skemmst að minnast hinnar dularfullu Stellu Blómkvist. Dygga aðdáendur uppbyggilegra barna- og unglingabókmennta rak þó í rogastans þegar í ljós kom að hinn geðþekki Franklin W. Dixon hefur aldrei verið til. Kynslóð eftir kynslóð hafði alist upp með gildi þau sem Dixon boðaði í bókum sínum að leiðarljósi. En nú eru Frank og Jói orðnir föðurlausir.

Vissulega var þetta mikið hneyksli, en eftir á má sjá ýmis merki um að svo hafi verið í pottinn búið. Bækurnar um Frank og Jóa eru miklar formúlubókmenntir og hver og ein einasta bók fylgir fyrirfram gefinni formúlu.

Frank og Jói eru kynntir til sögunnar, gjarnan með setningum á borð við: "…sagði Frank dökkleitur 18 ára piltur, við Jóa bróður sinn sem var ári yngri og ljóshærður." Síðan eru heimilisaðstæður þeirra kynntar, en þeir eru synir Fentons Hardys hins mikla einkaspæjara sem oftar en ekki er fjarverandi vegna starfa sinna. Frú Hardy og mágkona hennar, Geirþrúður frænka, sjá um heimilið á meðan og gera það með bravúr. Gnægð bakkelsis og góðs matar (sem á sér einungis hliðstæðu í sögum Enidar Blytons) fyllir húsið. Geirþrúður frænka nöldrar í þeim, eins og frænkur eiga að gera, en brosir síðan góðlátlega í kampinn yfir uppátækjum þeirra bræðra, þegar þeir sjá ekki til.

Frank og Jói eru prúðir bandarískir piltar, íþróttahetjur í skólanum, framúrskarandi námsmenn, hafa ökuréttindi, réttindi til að fljúga flugvél og skara fram úr á flestum sviðum mannlífsins. Aðkoma þeirra að glæpamálinu sem hver saga fjallar um er ýmist á þann hátt að faðir þeirra leitar ásjár hjá þeim, eða að hann er ekki við og skjólstæðingar hans gera sér því aðstoð tveggja 17 og 18 ára pilta að góðu. En þeir eru ekki einir á ferð. Hinn tryggi meðreiðarsveinn, Siddi Morton, er aldrei langt undan. Og hann er betri en enginn. Svo heppilega vill til að Siddi er sveimhugi mikill sem festir ekki hugann lengi við áhugamál sín. Hins vegar er hann mjög leitandi og hefur því í gegnum tíðina verið hugfanginn af fjöldanum öllum af áhugamálum.

Þetta kemur sér mjög vel fyrir Frank og Jóa, því undantekningarlaust tengjast áhugamál Sidda þeim glæpamálum sem bræðurnir eiga að leysa í það og það skiptið. Í Leyndarmálinu um hvalinn er Siddi sérfróður um ústkurð í hvalbein, í Ævintýri í Alaska er hann sérfróður um indíána á norðurslóðum og í perlunni Frank og Jói á Íslandi hefur hann kynnt sér hagi Íslendinga sérstaklega í eilífri leit sinni að hinu eina sanna áhugamáli.

Boðskapur bókanna var hreinn og beinn. Hin amerísku gildi voru í hávegum höfð, þar sem móðirin sá um heimilið og naut aðstoðar mágkonu sinnar. Karlmennirnir lentu hins vegar í svaðilförum en tókst ætíð að leysa úr þeim vegna hreinlyndis síns og hjartagæsku. En nú er búið að fletta ofan á svikaranum. Franklin W. Dixon er dulnefni (minnir enda óneitanlega á samsetning úr nöfnum tveggja forseta Franklin D. Roosevelts og Richard Nixons) og hinn mikli siðapostuli var ekki til.

Hver var þá hinn raunverulegi höfundur Franks og Jóa? Getur verið að kenningar um að rithöfundur sem dó 1930, u.þ.b. 45 árum áður en bókaserían sló í gegn, geti verið skapari þessara amerísku hetja? Í næstu greinum verður leyndarmálið upplýst, um leið og bækurnar um Frank og Jóa verða greindar enn frekar, sem og hin miklu siðferðilegu áhrif sem þær höfðu.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.