Heimskasta þjóð í heimi

Á Íslandi býr þjóð sem alltaf tekst að misskilja hlutina. Það er sama hvar borið er niður, alltaf skal henni takast að misskilja allt og rangtúlka sannleikann á ótrúlegan hátt. Raunar má ætla að Íslendingar séu heimsmeistarar í misskilningi, óháð höfðatölu. Það er að minnsta kosti hin óhjákvæmilega niðurstaða ef marka má orð formanns Framsóknarflokksins. Það er misskildasti maður á Íslandi, hann fer fyrir misskildasta stjórnmálaflokknum í misskildustu ríkisstjórn sem landið hefur átt.

Það er alveg sama hvernig Framsóknarflokkurinn reynir að bæta hag þjóðarinnar, alltaf tekst henni að túlka það á versta veg. Aðgerðir flokksins í síðustu ríkisstjórn voru misskildar, öll kosningabarátta flokksins við síðustu kosningar sömuleiðis. Ekki hefur það batnað eftir að hin nýja ríkisstjórn tók við, í hverju málinu á fætur öðru misskilur þjóðin einlægan vilja framsóknarmanna til góðra verka. Stóriðjan, aðgerðir og ummæli umhverfisráðherra, vistaskipti varaformannsins, Evrópuumræðuher flokksins, o.fl. o.fl.

Síðasta dæmið í þessari löngu misskilningssögu eru aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna nýlegs dóms Hæstaréttar um málefni öryrkja. Samkvæmt könnun DV frá því á mánudaginn var eru rúmlega 80% þjóðarinnar ríkisstjórninni ósammála. Einhver skyldi ætla að í þessum tölum fælust skýr skilaboð til ráðamanna, en þegar nánar er að gáð reynist svo ekki vera. Formaður Framsóknarflokksins veit betur. Þjóðin er enn einu sinni að misskilja gerðir Framsóknarflokksins. Og ástæðan í þetta skiptið: áróðursmaskína öryrkja.

Öryrkjar virðast nefnilega búa yfir sérstaklega öflugri áróðursmaskínu sem hvað eftir annað tekst að slá ryki augu þjóðarinnar. Það skiptir engu hvað Halldór og Davíð segja, Garðar og almannatengslafulltrúar hans smella fingrum og þjóðin blindast umsvifalaust. Vissulega þættu þetta tíðindi til næsta bæjar og margur mundi leita í raðir Öryrkjabandalagsins eftir stuðningi við málstað sinn, fyrst áróðurssveit þeirra er svo öflug. En hún er ekki einsdæmi eins og fyrr var rakið, hún er einungis enn eitt dæmið um lánleysi forystumanna í misskildasta flokki landsins. Hver sem er virðist geta rangtúlkað verk framsóknarmanna og skrumskælt í augum þjóðarinnar. Hvað er að í áróðursmálum hjá Framsóknarflokknum fyrst svo er?

Það væri kannski réttast fyrir Halldór að láta undan kröfum Öryrkjabandalagsins. Það myndi að vísu sennilega misskiljast og einhvern veginn snúast í höndunum á honum. Síðan væri réttast fyrir hann að ráða Garðar og áróðursmaskínu hans til starfa fyrir flokkinn og ríkisstjórnina. Ekki veitir af, því samkvæmt nýjustu könnunum er Framsóknarflokkurinn kominn niður fyrir 10% fylgi og ríkisstjórnarmeirihlutinn samkvæmt því fallinn. Allt er þetta því að kenna hvað þjóðin er gjörn á að misskilja frómar aðgerðir ráðamanna sinna. Já, það er vandlifað í henni vellu.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.