Heilbrigðisvitund eða verslunarhagsmunir

Vefþjóðviljinn heldur áfram krossferð sinni gegn öllum þeim aðgerðum sem hann telur hefta frelsi almennings. Nýverið fór samþykkt umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur (UHR) fyrir brjóstið á einhverjum penna hans. Nú skal það tekið fram áður en lengra er haldið að undirritaður er fulltrúi í umræddri nefnd og að einn ritstjórnarfulltrúa Vefþjóðviljans, Glúmur Jón Björnsson, er þar varamaður og hefur sem slíkur oft setið fundi nefndarinnar.

Pistlahöfundur Vefþjóðviljans, hver sem hann kann að vera, fer mikinn síðastliðinn laugardag vegna samþykktar UHR um innflutning á írsku nautakjöti. UHR átaldi að leyfi hefði verið gefið fyrir flutningnum enda hefðu sannarlega ekki öll tilskilin vottorð verið fyrir hendi. Byggði nefndin það álit sitt á auglýsingu 324/1999 frá Landbúnaðarráðuneytinu sem fjallar um innflutning á sláturafurðum sem ekki hafa fengið hitameðferð. Önnur grein auglýsingarinnar fjallar um þau vottorð sem fylgja verða kjötinu til að heimilt sé að flytja það inn til Íslands. Þau eru nokkur og í b-lið þeirrar greinar er þess krafist að með innflutningi fylgi vottorð um það að í upprunalandinu hafi ekki fundist neinn þeirra sjúkdóma á lista B frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni sem ekki finnst á Íslandi.

Þetta vottorð vantaði með írska kjötinu, enda hefði aldrei verið hægt að gefa það út. Á lista B frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni eru hvorki fleiri né færri en 7 sjúkdómar sem hafa fundist á Írlandi en finnast ekki hér. Einn þeirra sjúkdóma er kúariða. UHR átaldi því innflutninginn harðlega vegna þess að nefndin telur hann ólöglegan. Nefndin lagðist einnig gegn frekari innflutningi frá löndum þar sem kúariða hefur fundist. Þetta telur pistlahöfundur Vefþjóðviljans dæmi um það þegar óvandaðir pólitíkusar vilja maka krókinn.

Á undanförnum mánuðum hefur hver fréttin á fætur annarri borist af kúriðufárinu í Evrópu. Þar hafa ráðherrar og embættismenn sagt af sér vegna þess að þeir hafa ekki tekið nógu hart á málunum og kúariða finnst í sífellt fleiri löndum. Mjög víða hefur komið upp krafa um hertar aðgerðir og vísindamenn eru sífellt að uppgötva ný sannindi um smitleiðir. Nýverið benti rannsókn til þess að kúariða gæti borist í önnur dýr, t.a.m. svín, með kjötmjöli, en það var áður talið óhugsandi. Á Írlandi er vandamálið landlægt og er um 25.000 sýktum skepnum slátrað í hverri viku.

Á Íslandi hefur kúariða aldrei fundist vegna þess að hér hefur riðuveikt sauðfé aldrei verið notað í fóður handa nautgripum. Heilbrigðisvitund hefur orðið ofar kostnaðarvitund hvað það varðar. Það ætti að vera skylda allra þeirra sem á einhvern hátt geta lagt sitt af mörkum að sjá til þess að svo verði áfram. Þeir sem vilja grípa til vægustu aðgerða gagnvart smitinu hafa ætíð verið talsmenn óheftrar verslunar og framleiðendur, m.ö.o. hagsmunaaðilar. Það er því í sjálfu sér ekkert undrunarefni að Vefþjóðviljinn skuli fylla þann flokk. En óskandi væri að málflutningur þeirra hefði verið málefnalegri.

Á umræddum fundi UHR útskýrði sérfræðingur Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur (sem einnig er menntaður dýralæknir) málið ítarlega fyrir nefndarmönnum. Í góðu samráði við fulltrúa Heilbrigðiseftirlitsins og lögfræðing var unnin bókun um málið. Það er þessi bókun sem Vefþjóðviljinn telur að hafi verið unnin án þess að "kynna sér staðreyndir málsins". Í bókuninni er hvergi tekið fram að umræddur innflutningur á írsku nautakjöti hafi verið hættulegur neytendum, einungis að hann hafi ekki verið löglegur. Síðan leggur UHR til að í baráttu við kúariðu sé gripið til hörðustu aðgerða og innflutningur frá sýktum svæðum bannaður. Þetta eru aðgerðirnar sem Vefþjóðviljinn telur dæmi um leið pólitíkusa til að slá sig til riddara. "The absence of evidence is not the same as evidence of absence," sagði mætur maður. Það má til sanns vegar færa hvað kúariðu varðar. Öruggasta leiðin til að halda kúariðu frá Íslandi er að banna innflutning á kjöti frá löndum þar sem hennar hefur orðið vart. Þetta lagði UHR til og það er þetta sem Vefþjóðviljinn telur einungis vera leið pólitíkusa til að vekja athygli á sjálfum sér. Margur heldur mig sig.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.