Kaldir blása norðanvindar

Í dag er 171 ár liðið frá því síðasta aftakan fór fram hér á landi. Þann 12. janúar árið 1830 voru þau Agnes Magnúsdóttir, 33 ára vinnukona, og Friðrik Sigurðsson, 18 ára bóndasonur, tekin af lífi við Þrístapa í Vatnsdalshólum. Þau höfðu verið fundin sek um morð á Natani Ketilssyni bónda. Saga þessi er landsmönnum að mestu kunn, enda hafa margir gert henni skil. Nægir í því sambandi að minnast orða Bubba Morthens, "Kalt blés norðanvindur einn janúarmorgun/er Agnes og Friðrik lögðu af stað", en einnig gerði Egill Eðvarðsson myndina Agnesi, þar sem hans útgáfa af sögunni fær að njóta sín.

Eitthundrað sjötíu og eitt ár er ekki sérstaklega langur tími í mannkynssögunni, en engu að síður er það ekki í of mörgum löndum sem enginn hefur verið tekinn af lífi í tæpar tvær aldir. Öxi sú og höggstokkur sem notuð voru við verknaðinn eru nú tryggilega læst inni í geymslum Þjóðminjasafnsins. Það segir allt sem segja þarf um hugarfar Íslendinga gagnvart aftökum. Þær eru hluti af fortíðinni og munir þeim tengdir best geymdir á safni.

Því miður viðgengst dauðarefsing víða um heim, í 87 löndum alls. En sem betur fer er henni aðeins beitt í örfáum ríkjum og þeim löndum fjölgar ört sem hafna dauðarefsingu algerlega. Síðan 1990 hafa yfir 30 lönd afnumið dauðarefsingu, þ.á m. Azerbadjan, Turkmenistan, Máritíus og Fílabeinsströndin.

Í dag eru 85 af hverjum 100 aftökum framkvæmdar í 5 löndum: Kína, Íran, Sádi-Arabíu, Lýðveldinu Kongó og Bandaríkjunum. Frá því 1990 er vitað til þess að 6 lönd hafi tekið fólk af lífi fyrir glæpi sem framdir voru áður en sakborningar náðu 18 ára aldri. Þetta eru Íran, Nígería, Pakistan, Sádi Arabía, Bandaríkin og Jemen.

Eitt land stingur nokkuð í augu á báðum þessum listum, þó athæfið sé jafnalvarlegt hvar sem það er framið, en það eru Bandaríkin. Bandaríkjamenn telja sig blysbera vestrænnar siðmenningar og að þeirra sé að standa vörð um hin vestrænu gildi lýðræðis og mannréttinda. Erfitt er að taka slíkan málflutning alvarlega þegar mannréttindabrot eru jafn tíð þar og raun ber vitni. Í Bandaríkjunum voru 98 fangar teknir af lífi árið 1999 og síðan 1990 hafa 13 fangar verið teknir af lífi sem voru enn börn að aldri þegar þeir frömdu glæpinn.

Mannréttindi eru ekki afstæð, þó einhverjir hafi sagt svo. Það er alltaf jafnmikill glæpur að svipta mann lífi. Ríkisvaldið hefur engan rétt til þess að taka þegna sína af lífi. Það að vinna kosningabaráttu á ekki undir neinum kringumstæðum að gefa manni vald yfir lífi og dauða þess fólks sem veitir honum umboð til starfa. Í Bandaríkjunum er stór hluti embættismanna kosinn beinni kosningu sem og ríkisstjórar sem hafa vald til að stöðva aftökur.

Engin rök eru fyrir dauðarefsingu. Hér er eingöngu um gamaldags hefndarþorsta að ræða, auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Í Kanada var dauðarefsing afnumin árið 1976. Árið 1975 voru morð þar 3,09 á hverja hundrað þúsund íbúa. Árið 1980 hafði þeim fækkað í 2,41 á hverja hundrað þúsund íbúa og 1999, 23 árum eftir afnám dauðarefsingar, var þetta hlutfall í 1,76 á hverja hundrað þúsund íbúa, eða 44,7% færri en árið 1975 þegar dauðarefsing var enn í gildi. Dauðarefsing hefur ekkert með pólitík að gera. Allir þeir sem vilja telja sig siðmenntaða menn eiga að berjast gegn henni með öllum tiltækum ráðum. Þeim ríkjum sem beita henni á að refsa eins og öðrum sem brjóta mannréttindi.

Það væri óskandi að mannkynið næði fljótt þeim siðferðislega þroska sem náð var hér á landi fyrir tæpum tveimur öldum þegar hætt var að drepa fólk í refsingarskyni.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.