Pósturinn, með kveðju – og hagnaði

Íslensku þjóðlífi hefur á undanförnum árum verið gjörbylt eftir kennisetningum hins frjálsa markaðar. Hvar sem mögulegt er að koma hinu nýja guðspjalli við hefur það verið gert. Í heilbrigðisþjónustu, menntakerfinu, samgöngum, fjarskiptum og svo mætti lengi telja. Mikið kapp er lagt á að hlutafélagavæða ríkisfyrirtæki. Ríkið má, skv. Boðorðinu, ekki undir nokkrum kringumstæðum „vasast í“ nokkrum hlut sem einkaaðilar gætu „framkvæmt“.

Fyrir u.þ.b. 20 árum mátti heyra klingjandi hljóm markaðsguðspjallanna í Bretlandi. Þar var þjóðlífinu umturnað; járnbrautir, gasfélög, símafyrirtæki – allt sem nöfnum tjáir að nefna var selt einkaaðilum. Múrinn hefur áður fjallað um skelfilegar afleiðingar þessarar óheftu markaðshyggju og bent á að ekki væri úr vegi að kynna sér reynslu annarra landa áður en samfélaginu er umturnað. En ráðamenn eru ekki mikið fyrir slíkt enda hafa markaðsöflin hlotið sess guðspjallamanna og því væri goðgá að efast um boðskapinn. Enda kemur fæstum til hugar að reynslan af hlutafélagavæðingu geti verið annað en stórkostleg.

Það er því athyglisvert að fylgjast með umræðum um eitt af þeim fyrirtækjum sem ríkisstjórnin hf-aði fyrir ekki margt löngu. Hér á landi var um árabil rekið ríkisfyrirtæki sem hét Póstur og sími. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar skipti því upp í tvö fyrirtæki. Annað þeirra, Íslandspóstur hf., hefur verið mikið í fjölmiðlum undanfarna daga. Ástæðan, eins og flestir þekkja, er sú að fyrirtækið réð engan veginn við þá grunnskyldu sína að koma bréfum og bögglum til landsmanna fyrir jólin.

Í allri umræðunni um orsakir þessarar brotalamar og afleiðingar hennar hefur verið hljótt um nýtt rekstrarform fyrirtækisins. Það skyldi þó ekki vera að það að markaðssjónarmið urðu alls ráðandi í rekstri þess hafi eitthvað með málið að gera? Það skyldi þó ekki vera að krafan um gróða hafi orðið til þess að ráðamenn fyrirtækisins reyndu að sleppa með sem minnsta mögulega þjónustu fyrir jólin? Margur skyldi ætla það. En svo hefur íslenska þjóðin verið heilaþvegin með markaðsmöntrunni að það er eins og engum detti þessi nærtæka skýring í hug. Í staðinn leita menn logandi ljósi að einhverri annarri mögulegri skýringu. Bara einhverju sem ekki leiðir hugann að því að markaðsvæðing sé kannski ekki alltaf lausnin.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.