Ólga í Tékkó – allt í lagi hér

Þeir eru ábúðarmiklir á svip þessa dagana, fréttamenn ríkissjónvarpsins sem segja landslýð frá ástandinu í Tékklandi. Þar standa kollegar þeirra hjá tékkneska ríkissjónvarpinu í ströngu. Þann 20. desember síðastliðinn hófu tékknesku fréttamennirnir mótmæli vegna ráðningu nýs fréttastjóra. Þremur dögum síðar lögðu fréttamennirnir bygginguna undir sig og hófu eigin útsendingar. Sjónvarpsstjórinn rak starfsmennina sem svöruðu með því að fara í verkfall og fara hvergi. Síðan þá hafa mótmælin hafa stigmagnast. Þingmenn hafa reynt að ráða fram úr deilunni án árangurs og nú hefur almenningur í Tékklandi tekið við sér og safnast saman á götum úti þúsundum saman til mótmæla. Nýjustu fréttir herma að sjónvarpsstjórinn sé kominn á spítala, alvarlega veikur.

Það sem kveikti þessa mótmælaöldu var, eins og áður segir, ráðning nýs sjónvarpsstjóra á ríkissjónvarpið. Skipan mála í Tékklandi er á þann veg að yfir ríkisfjölmiðlunum er útvarps- og sjónvarpsráð sem skipað er pólitískum fulltrúum. Þetta ráð skipar í stöður yfirmanna og réð hinn nýja sjónvarpsstjóra, Jiri Hodac. Fréttamennirnir telja að Hodac sé um of tengdur flokki Vaclavs Klaus, fyrrverandi forsætisráðherra, þau tengsl séu ástæða stöðuveitingarinnar og þau tefli hlutleysi fjölmiðilsins í hættu. Þetta sjónarmið hefur mætt skilningi víða um heim, a.m.k. 120 þúsund Tékkar hafa skrifað undir yfirlýsingu þar sem afsagnar Hodacs er krafist og samtök blaðamanna víða um heim hafa lýst yfir stuðningi sínum við aðgerðir tékknesku fréttamannanna.

Það er því ekki að undra að kollegar þeirra hjá íslenska ríkissjónvarpinu hleypi brúnum og stari alvöruþrungnir í myndavélina er þeir segja frá þessum væringum. Þeir skilja mikilvægi hlutleysis og sjónarmið kollega sinna. Þó er ekki laust við að manni finnist holur hljómur í röddum þeirra. Skipan mála hér á landi er sú sama og í Tékklandi, pólitískt útvarpsráð ræður í stöður og menntamálaráðherra er æðsti yfirmaður útvarpsins. Það þætti saga til næsta bæjar ef fréttamenn ríkissjónvarps Íslands leggðu bygginguna undir sig til að koma í veg fyrir að hlutleysi fréttastofunnar væri stefnt í voða.

Hér á landi eru pólitískar ráðningar fréttamanna regla en ekki undantekning. Hvar annars staðar í heiminum kemur upp vandræðaástand á fréttastofu þegar ungliðahreyfing eins stjórnmálaflokks heldur landsþing og í ljós kemur að hvorki fleiri né færri en fimm fréttamenn ríksisjónvarpsins eiga þar rétt til setu? Hvar annars staðar færir fréttastofa forsætisráðherra landsins blóm þegar þúsundasta viðtalið er tekið við hann? Alls staðar annars staðar væri það stjórnmálamaðurinn sem þakkaði fyrir sig en ekki öfugt, enda þrífast þeir á athygli fjölmiðla.

Pólitískar ráðningar fréttastofu sjónvarps eru blettur á fjölmiðlum landsins. Þær koma í veg fyrir að valdhöfum sé veitt eðlilegt aðhald, sem á að vera eitt höfuðmarkmið hverrar fréttastofu. Það skýtur skökku við að forsætisráðherra tali fallega um það að færa valdið frá stjórnmálamönnum til almennings í áramótaræðu á fjölmiðli þar sem flokksbræður hans hafa greiðan aðgang að öllum fréttamannastöðum sem losna.

RÚV á að vera sjálfstæð stofnun, óháð duttlungum stjórnmálamanna. Þar á að vera rekin öflug fréttastofa sem veitir valdhöfum aðhald, hverjir sem þeir eru. Af hverju þarf ríkissjónvarpið að vera svo nátengt valdhöfum? Hér eru margar ríkisreknar menningarstofnanir sem eru það ekki, sinfóníuhljómsveit, þjóðleikhús, bókasöfn o.fl. Valdhafar gera sér hins vegar grein fyrir mikilvægi þess að stýra fjölmiðlum, að hafa einhverja lágmarksstjórn á því hvernig hlutirnir eru matreiddir fyrir almenning. Það gerir það enn brýnna að rjúfa tengsl RÚV við pólitíkusa og reka hér öflugan ríkisfjölmiðil sem sinnir menningarlegum skyldum sínum, rekur öfluga, óháða fréttastofu og sinnir öryggishlutverki sínu.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.