Upp og niður árið 2000

Upp

Steingrímur J. Sigfússon
Helsta heppni Steingríms í lífinu er að hafa ekki orðið flokksleiðtogi 1987 eða 1995, í staðinn er hann núna sjaldgæft fyrirbæri: þungavigtarstjórnmálamaður í stjórnarandstöðu. Og hann yngist með hverju ári.

Geir H. Haarde
Ríkisstjórnin getur gert hvaða óvinsæla hlut sem er, alltaf er Geir jafn vinsæll. Hann er talinn sniðugur þó að hann segi aldrei neitt hnyttið og getur haldið áfram að ausa úr kössum ríkissjóðs án þess að fjárlagahalli verði úr.

Vala Flosadóttir
Allir muna hvar þeir voru daginn sem Vala vann bronsið enda hefur enginn gert betur síðan Vilhjálmur var í Ástralíu. Hvenær fá þeir Ólympíuleikana næst?

Árni Mathiesen
Hið glaðbeitta ungmenni Sjálfstæðisflokksins verður fastagestur í ríkisstjórn í 20 ár eins og faðirinn. Flokkurinn hleypir ungu fólki aldrei að þannig að Árni þarf ekki að óttast samkeppni. Þá er hann eini ráðherra ríkisstjórnarinnar sem virðist geta unnið mál fyrir dómstólum.

Össur Skarphéðinsson
Allir fengu betri útkomu úr prófkjörum en hann í fyrra en samt tókst honum að verða flokksforingi vegna þess að hann var eini maðurinn sem þorði að bjóða sig fram í alvöru (hvað hét hann nú aftur, hinn?).

Kristinn H. Gunnarsson
Þegar Kristinn var í Alþýðubandalaginu þótti þingseta hans minna á vondan brandara en á einni nóttu varð hann einn helsti foringi Framsóknarflokksins, þingflokksformaður, kommissar í Byggðastofnun, vænlegt ráðherraefni og jafnvel næsti varaformaður. Þetta segir þó líklega meira um stöðu flokksins en hann.

Margrét Sverrisdóttir
Framkvæmdastjóri og helsti vonarpeningur Frjálslynda flokksins, sumir myndu segja eina von flokksins. Ógæfa hennar er að vera dóttir formannsins sem lagði ekki í að gera hana að varaþingmanni.

Erpur Eyvindarson
Erpur sló í gegn á Skjá einum, svo rækilega að hann er líklega eini Kúbukomminn í heiminum sem auglýsir pizzur. Move over, Bubbi.

Guðni Ágústsson
Þrátt fyrir Júdasarkossinn er Guðni hinn sterki bjartasta von Framsóknarflokksins. Segir það sitthvað um vonleysi flokksins. Guðni má þó eiga það að hann hefur ekki fylgt Halldóri jafnhratt yfir á hægri vænginn og aðrir forystumenn flokksins.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Unga konan í Sjálfstæðisflokknum og eftirlæti allra fjölmiðlamanna. Hún getur varla annað en grætt, verandi þingmaður í kjördæmi þar sem sjarmatröllin Kristján Pálsson, Gunnar Birgisson, Sigríður Anna og Árni Ragnar eru fyrir á fleti.

Ásdís Halla Bragadóttir
Loksins kom að konunum í Sjálfstæðisflokknum og þá var hún á réttum stað. Svo fékk hún að skamma Hannes í sjónvarpi líka. Ásdís Halla mun ná langt og ýmsir eru þegar farnir að tala um hana sem framtíðarborgarstjóraefni flokksins í Reykjavík.

Ögmundur Jónasson
Loksins er Ögmundur hættur að halda eldmessur, mætir í sófaspjallþætti í staðinn og er miklu betri í því.

Svanfríður Jónasdóttir
Hún er vinsælasti stjórnarandstöðuþingmaðurinn hjá Morgunblaðinu sem er sívitnandi í heimasíðu hennar.

Egill Helgason
Það er ekki hægt annað en að dást að manninum sem leyfir sama fólkinu að vera lengur en hálftíma í sjónvarpinu. Nú er bara að vona að Egill falli ekki í gryfju frægðarinnar. Ekki fleiri söngatriði með Geirfuglunum, plís!

Ólafur Sigurðsson
Honum tókst hið ómögulega í kosningasjónvarpi ríkissjónvarpsins þegar talið var í Bandaríkjunum (í fyrsta skipti), að draga upp svo marga hatramma repúblíkana að hann virtist nánast hófsamur í samanburði við þá.

Þórhallur Sverrisson
Engum sem sá hann sem gestalýsanda í Evrópukeppninni datt í hug að maðurinn gæti leikið; svo kom Íslenski draumurinn og þá kom í ljós að hann lék svona vel í sjónvarpinu líka.

Bríeturnar
Nú eru þær búnar að flytja inn sænska bók með hugmyndafræði og geta þá loksins orðið róttækir femínistar með hugmyndir í stað þess að vera bara gelgjur.

Guðrún Arnardóttir
Hún varð að vísu í 7. sæti en í íþróttagrein sem enginn hvítur maður kemst venjulega í úrslit.

Niður

Kári Stefánsson
Hlutabréfin í Decode lækka og lækka, Kári var einn vinsælasti maður á Íslandi en núna er hann óðum að verða maðurinn sem tapaði peningunum okkar.

Guðjón Þórðarson
Stokeævintýrið er líklega mesta flopp ársins og trú manna á "ofurþjálfaranum" sem átti að geta breytt öllu fellur jafnvel hraðar enn hlutabréfin í Decode.

Villi Vill
Ungir jafnaðarmenn á Íslandi eignuðust leiðtoga í ár en voru fljótir að missa hann á ný; er þetta ekki einn stysti stjórnmálaferill allra tíma?

Margrét Frímannsdóttir
Formaðurinn sem varð varaformaður? Flestir hefðu valið Sankti Helenu.

Davíð Oddsson
Þjóðin elskar hann ennþá en það nægir honum ekki meðan Garðar og öryrkjarnir þola hann ekki. Ef hann heldur áfram að setja upp geðvonskusvipinn í sjónvarpi fer að verða kominn tími á Major fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Karl Sigurbjörnsson
Eini maðurinn sem ógnar Davíð á Íslandi varð smám saman að manninum sem hélt hátíðina sem enginn mætti á og að lokum að þeim sem barðist fyrir jólalegri auglýsingum; það er hætt við að fáir hlusti á næstu predikanir.

Gunnar Ingi Gunnarsson
"Doktorinn dæmalausi" eins og Sverrir kallar hann. Jafnvel innan Frjálslynda flokksins þykir Gunnar leiðinlegur kverúlant.

Össur Skarphéðinsson
Loksins er Össur orðinn leiðtogi. Vandamálið er að flokkurinn hefur lítið fylgi og Össur virðist ekkert vera að auka það. Æ, æ, æ.

Stefán Baldursson
Af hverju er hann ennþá leikhússtjóri? Átti ekki að ráða til fimm ára?

Guðjón Pedersen
Lér konungur er harmleikur en jafnast þó ekki á við feril Guðjóns sem einu sinni var helsta vonarstjarna íslensks leikhúss.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Fleiri vonarstjörnur lækka flugið. R-listans er ekki minnst fyrir neitt sem gerðist á árinu nema þúfuna sem ekki mátti byggja á og stríð Alfreðs við Landssímann. Einu sinni átti Ingibjörg að leiða alla vinstrimenn í stjórnarráðið í stað Davíðs en nú er Össur orðinn formaður í staðinn og Ingibjörg situr uppi með Helga og Hrannar.

Björn Bjarnason
Maðurinn sem einu sinni átti að verða varaformaður og jafnvel formaður flokksins. Geir Haarde skammar kennarana og er þó áfram vinsæli söngvarinn, Björn gerir hið sama og þykir fúll og leiðinlegur.

Jóhanna Sigurðardóttir
Prófkjörunum pakkar hún saman en þegar kemur að því að eiga fylgismenn á þingi fer í verra. Jóhanna er farin að minna á Churchill á fjórða áratugnum, reiður einfari sem er komin yfir sitt besta. Er einhver Hitler sem getur bjargað henni?

Orri Hauksson
Nýtt verkefni bættist við starf hans í ár: að skrifa skammarbréf um öryrkja. Er nema von að hann hafi tollað stutt í starfi?

HNN
Radíusbræður brutu tvö af grundvallarlögmálum íslensks gríns, a. ekki reyna að flytja útvarpsþætti í sjónvarpi og b. gera ekkert sem minnir á Spaugstofuna.

Valgerður Sverrisdóttir
Það hefði verið í góðu lagi að sameina ekki bankana ef hún hefði ekki látið öllum illum látum við Búnaðarbankann fyrst.

Skjár einn
Öllum sem sjá hann aldrei og öllum sem vinna þar finnst dagskrárgerðin þar frábær. Aðrir sjá að hér er á ferð Útrás, útvarp framhaldsskólanema, komið í sjónvarp.

Siv Friðleifsdóttir
Fæstir stjórnmálamenn skilja hugtakið "upplýsingaöld" þó að þeir noti það mikið en fáir verr en Siv. Það á ekki að reyna að ljúga um samræður við útlendinga, það fréttist.

Keiko
Hvalurinn sem hvarf.

áj/kóp/sj/sp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.