Enn er höggvið í sama knérunn

Nú berast fréttir af því að búið sé að finna framtíðarlausn á vanda heilbrigðiskerfisins. Engan skyldi undra, nú á þessum tímum markaðshyggju, að hér er um einkavæðingu að ræða. Læknar ræða alvarlega sín á milli um stofnun einkarekins sjúkrahúss og nú síðast fréttist af því að 12 læknastöðvar ætli að stofna félag um rekstur sameiginlegrar miðstöðvar fyrir „sérhæfða þjónustu“ eins og það heitir á fagmálinu. Í fréttatíma Ríkisútvarpsins í gærmorgun sagði fulltrúi einnar stöðvarinnar að hér gæti verið komin lausn á biðlistavandamálinu í heilbrigðiskerfinu.

Þessar hræringar allar bera stefnu ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum slæmt vitni. Síðan Davíð Oddsson varð forsætisráðherra íslensku þjóðarinnar hefur hann markvisst unnið að því að skera niður fé til heilbrigðiskerfisins. Til þeirra óhæfuverka hefur hann haft trygga meðreiðarsveina og -meyjar, m.a. Sighvat Björgvinsson og Ingibjörgu Pálmadóttur. Lengi vel var heilbrigðiskerfi íslensku þjóðarinnar nokkuð sem fæstir vildu hrófla við. Almenn samstaða var um það, hvar í flokki sem menn stóðu, að ríkisrekið heilbrigðiskerfi væri grundvöllur íslenska velferðarsamfélagsins. Það var helst að Hannes Hólmsteinn Gissurarson og nokkrir fylgismenn hans væru á annarri skoðun.

Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Alþýðuflokks setti á komugjöld í heilbrigðiskerfinu, vakti það mikla reiði á meðal landsmanna. Skrifað var í blöðin og Þjóðarsálin og fleiri slíkir spjallþættir voru undirlagðir af kvörtunum óánægðra Íslendinga. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Heilbrigðiskerfið er þó enn flestum Íslendingum nokkuð heilagt. Á síðustu árum hefur hins vegar einkavæðingabylgja riðið yfir það. Þjónustusamningar eru gerðir, heilu elliheimilin boðin út og áform uppi um að bjóða heila heilsugæslustöð út, með manni og mús. Og nú eru uppi hugmyndir um að heilt sjúkrahús verði einkarekið. Og ástæðan? Þjónusta hins opinbera er ófullnægjandi.

Hér eru á ferðinni hringrök af bestu gerð. Fyrst sker ríkisstjórnin markvisst niður til heilbrigðismála, sumarlokanir plaga fólk og biðlistar lengjast. Þá fara að heyrast raddir um að markaðslögmálið eigi að ráða hér eins og annars staðar, einstaklingar geti gert hlutina betur en ríkið. En heilbrigðiskerfið er ekki eins og hvert annað fyrirtæki. Markaðslögmál mega aldrei ráða ferðinni, þegar líf og heilsa fólks er í húfi. Íslendingar byggðu í sveita síns andlits upp heilbrigðiskerfi á heimsmælikvarða. Allir hafa jafnan aðgang að læknisþjónustu, engum er vísað frá vegna fátæktar eða félagslegra aðstæðna. Nú á enn að höggva að rótum þessarar samfélagsþjónustu með því að setja hana undir hatt hagnaðar og afkomutalna. Það má aldrei verða.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.