Litgreiningarlýðræði

Í dag mun dómari í Flórída úrskurða um talningu á 14.000 vafaatkvæðum sem ráða úrslitum um það hver verður næsti forseti Bandaríkjanna. Hver sem niðurstaðan verður er talið víst að henni verði áfrýjað og þannig muni málið halda áfram fyrir dómstólum. Það er kannski við hæfi að í landi þar sem lögmenn og dómsstólar skipa jafn stóran sess og í Bandaríkjunum sé ákvörðun um hver skipi embætti forseta landsins tekin af dómskerfinu. Óþrjótandi framboð er af ungu fólki í lögfræðinámi í Bandaríkjunum, enda möguleikar á miklum tekjum og frægð, ef heppnin er með. Svo rammt kveður að þessu að menn eru farnir að hafa áhyggjur af því að of fáir „hæfir“ nemendur sæki í raungreinar og í stað þess að vinna að uppfinningum þjóðinni og mannkyninu til heilla eyði hæfustu menn framtíðarinnar tíma sínum í að lögsækja hver annan.

Forsetakosningarnar hafa nú staðið í nokkrar vikur, búið er að skilgreina og endurskilgreina auða seðla og ógilda, kæra og hefja gagnsókn á víxl. Deilan hefur, eins og flestir vita, snúist um það hvort eigi að handtelja vafaatkvæði í Flórída. Hefur spunnist mikil lagadeila um þetta og báðir forsetaframbjóðendurnir hafa talað mærðarlega um gildi lýðræðisins, þó ekki séu þeir sammála um hvernig það sé best varðveitt. Þessar deilur virka hálffurðulega á lýðræðisþjóðir sem eru vanar því að reglur séu settar fyrirfram um uppsetningu kjörseðla og skilgreiningu vafaatriða, og ekki breytt þegar að talningu kemur.

Málefni svartra kjósenda hafa hins vegar vakið þó nokkra athygli utan Bandaríkjanna, en sorglega litla innan þeirra, þangað til nú a.m.k. Þannig er mál með vexti að þúsundir blökkumanna telja að þeim hafi kerfisbundið verið meinað að nýta sér kosningarétt sinn í Flórída, af starfsmönnum kjördeilda. Ásakanir af þessu tagi myndu víðast hvar vekja upp mikla rannsókn, en ekki í Bandaríkjunum. Þar hafa menn verið of uppteknir við að rannsaka hvort ellilífeyrisþegar í Flórída hafi örugglega skilið uppsetningu kjörseðilsins og hvort þeir hafi merkt nógu fast við þann frambjóðenda sem þeir ætluðu sér að kjósa.

Að meina kjósanda að nýta sér lýðræðislegan rétt sinn til kosninga er ekki dæmi um lýðræðislegt samfélag, þvert á móti. Hér er um að ræða alvarlegt mannréttindabrot, en stjórnvöld hafa skellt skollaeyrunum við þessum ásökunum, þar til nú. Nú á nefnilega að fara að rannsaka hvort ríkisskipuð nefnd Flórídaríkis, undir stjórn Jeb Bush, hafi staðið að því að útiloka svarta kjósendur, sem taldir eru hallir undir demókrata. Það að bróðir annars frambjóðandans hafi umsjón með skipulagningu kosninga þætti út af fyrir sig óviðunandi í hvaða lýðræðisríki sem er. Í dag tilkynnti dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna loks að hafin væri rannsókn á þessu máli og er hætt við því að hún hafi einhver eftirmál, reynist ásakanir blökkumanna sannar.

Það er hins vegar umhugsunarvert hvers vegna ekki var brugðist við fyrr. Ásakanir um að svartir kjósendur hafi verið blekktir, meinaður aðgangur að kjörstöðum, lögregla hafi ógnað þeim og fælt þannig frá ættu að kalla á skjót viðbrögð. Það er hins vegar þannig í landi frelsisins að mannréttindi ríkra ellilífeyrisþega í Flórída eru meira virði en svartra kjósenda. Þannig er ástandið í „mesta lýðræðisríki heims“.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.