Að opna hug og hjarta

Nú eru liðnir 16 dagar síðan heilt skólastig í landinu lamaðist er framhaldsskólakennarar fóru í verkfall. Svo virðist sem lítið eða ekkert hafa þokast í samkomulagsátt á þeim tíma. Ríkisvaldið, sem ber ábyrgð á því að menntakerfi landsins starfi með eðlilegum hætti, hefur ekkert gert til þess að reyna að ná samningum við kennara. Frá því í júní var ljóst hvert stefndi og ríkið hafði nægan tíma til þess að reyna að koma í veg fyrir verkfall, en ríkisstjórnin gaf sér ekki tíma til þess. Þegar litið er til þess hve lítið ríkisvaldið hefur lagt á sig til að ná sáttum við kennara, hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort ráðherrum sé í raun sama um hvernig aðbúnaði kennara er háttað.

Það er því ekki úr vegi að rifja upp orð ráðherra menntamála sem hann lét falla þann 2. janúar árið 1998, þegar ný lög um Kennaraháskóla Íslands tóku gildi. Björn tjáði sig þar um gildi menntunar og mikilvægi kennarastarfsins, sem fyrir honum er allnokkuð: „Störf og áhrif kennara verða aldrei metin til fulls.“ Eitthvað virðist ráðherra hafa gengið af þessari trú, allavega er komið í ljós að ekki á að meta störf þeirra til mannsæmandi launa.

En Björn hélt áfram: „Kennarinn þarf ekki einvörðungu að hafa fræði sín og kennslutækni á valdi sínu. Í huga margra er kennarastarfið köllun. Hvað sem því líður verður kennarinn að hafa þekkingu á börnunum sjálfum. Stuðla að sem bestum þroska þeirra, opna hug þeirra og hjarta fyrir öllum góðum áhrifum, vekja áhuga til náms, sem endist þeim alla lífsleiðina. Nám er ekki bundið við hin formlegu skólaár, heldur er það æviverk að viðhalda menntun sinni.“Það er ekki lítið sem æðsti yfirmaður menntamála telur að felist í kennarastarfinu og leitun er að meira ábyrgðarstarfi í íslensku þjóðfélagi. Aðgerðir, eða öllu heldur aðgerðaleysi, hans og annarra ráðamanna virðist þó benda til þess að þeir fylli flokk þeirra sem telji kennarastarfið til köllunar og vilji því ekki að meta það til launa líkt og önnur störf.

Nú berast fréttir af því að kennarar séu unnvörpum að leita sér annarra starfa, nemendur séu búnir að ráða sig til vinnu og margir hverjir hafi engan hug á því að snúa aftur til náms, ekki í bráð a.m.k. En ráðamenn íslensku þjóðarinnar hafa ekki áhyggjur af því. Ráðherra menntamála lætur sig málið litlu varða og forsætisráðherra lætur eins og þetta komi honum ekki við. Það væri óskandi að ráðamenn þjóðarinnar reyndu stundum að fara eftir þeim fögru fyrirheitum sem þeir gefa við hátíðlegar athafnir. Gildi menntunar verður seint ofmetið. En menntunarstig þjóðar ræðst ekki af æðstastigi lýsingarorða ráðamanna á hátíðarstundum. Það ræðst af aðbúnaði og starfsháttum í skólum og ekki síst af starfsánægju uppfræðara þjóðarinnar. Er ekki mál til komið að ríkisstjórnin opni hug sinn og hjarta?

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.