Skíðaherdeild Halldórs Ásgrímssonar

Á dögunum barst sérkennilegt erindi frá utanríkisráðuneytinu til borgarstjórans í Reykjavík. Ráðuneyti Halldórs Ásgrímssonar er í óða önn að skipuleggja nýjustu stríðsleikjahrinu bandarískra bandamanna okkar hér á landi. Á næsta ári þarf enn og aftur að halda verjendum landsins við efnið til að þeir verði viðbúnir þegar kemur að hinni miklu innrás. Gaman verður að vita hverjir verða andstæðingarnir núna, síðast voru það heiftúðugir umhverfisverndarsinnar, sem væntanlega réðust á Ísland þar sem það hafði ekki enn staðfest Kyoto-bókunina. Hver það verður núna er vandi um að spá. Það hentar ríkisstjórninni ágætlega að halda sig við umhverfisverndarsinna, stóriðjumálin eru ekki enn fullfrágengin.

Þó virðist við fyrstu sýn að um verði að ræða skíðaherdeild, eða flokk brjálaðra skíðamanna. Utanríkisráðuneyti Halldórs Ásgrímssonar falast nefnilega eftir fólkvanginum á Bláfjallasvæðinu undir tindátana í þessum æfingum. Það þarf þó ekki að þýða að um innrás skíðamanna sé að ræða, hugsanlegt er að Bláfjallasvæðið sé það svæði sem varnarliðið ætli sér að berjast til þrautar um, ef til innrásar kemur. Þó er ekki alveg víst að ástæða þessa staðarvals sé svo háfleyg. Friðþór Eydal, upplýsingafulltrúi varnarliðsins, hefur nefnilega upplýst hver hin raunverulega ástæða þess er. Í Bláfjöllum fá tindátar NATO nefnilega að vera í friði fyrir íbúum landsins sem þeim er ætlað að verja. Ef svo heldur fram sem horfir verða æfingarnar eftir nokkur ár á tindi Vatnajökuls svo að blessaðir hermennirnir fái nú frið.

Það er skelfilegt til þess að hugsa að hin herlausa þjóð, Íslendingar, skuli ekki láta verndara sína í friði þegar þeir eru að æfa sig við varnirnar. Í fyrra reyndu hermennirnir að æfa sig í Hljómskálagarðinum, en urðu frá að hverfa vegna mótmæla. Það á ekki að láta það endurtaka sig, nú er stefnt til fjalla. Hið fyrirhugaða æfingasvæði er að vísu hluti af vatnsverndarsvæði höfuðborgarinnar. Allt rask á slíku svæði gæti haft í för með sér varanleg áhrif á vatnsból borgarinnar og ef ekki er varlega farið gæti unnist óbætanlegt tjón á þeim. Aðgangur að hreinu og tæru vatni er hins vegar ekki aðalatriðið, öryggi landsins er fyrr í forgangsröðinni. Hvaða máli skiptir hvort við höfum aðgang að vatni ef hinir argvítugu umhverfisverndarsinnar, eða skíðamenn hafa hernumið landið?

Best væri kannski að Halldór Ásgrímsson kæmi upp eigin skíðaherdeild. Íslendingar eru miklir skíðamenn og utanríkisráðherra gæti farið í samstarf við skíðafélögin á Bláfjallasvæðinu. Halldór Ásgrímsson yrði þá marskálkur og gæti farið fremstur í flokki sveitarinnar í selskinnsjakkanum og verndað fólkvanginn fyrir innrás óvinaherja.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.