Genatísk stéttskipting?

Breska ríkisstjórnin gerði í síðasta mánuði þá breytingu á lögum um tryggingar að tryggingafélögum var heimilað að krefja væntanlega viðskiptavini sína um að undirgangast erfðafræðilega rannsókn. Hér er verið að brjóta blað í sögu erfðafræðirannsókna, en það hefur hingað til verið sameiginlegur skilningur um allan heim að tryggingafélög ættu ekki að fá aðgang að erfðafræðilegum upplýsingum. Tiltæki bresku stjórnarinnar opnar félögunum þó ekki aðgang að hvaða erfðafræðiupplýsingum sem er. Eingöngu er um að ræða próf til að skera úr um hvort viðkomandi býr yfir geni því sem veldur Huntington-sjúkdómnum. Hér er um að ræða banvænan sjúkdóm sem gengur í erfðir og höfðu tryggingafélögin lagt mikla áherslu á að fá vitneskju um hverjir bera þessi gen og hverjir ekki.

Hér er hins vegar verið að hreyfa við viðkvæmum málum og afleiðingarnar gætu orðið skelfilegar. Fyrst búið er að gefa tryggingafélögum leyfi til að leita að Huntington-sjúkdómsgeninu, verður erfitt að meina þeim að leita að öðrum arfgengum sjúkdómsgenum. Þeir sem eru svo óheppnir að bera slík gen munu sennilega hvergi fá líftryggingu. Þannig mun tryggingamarkaðurinn einkennast af genatískri stéttaskiptingu og þeir óheppnu verða út undan.

Tryggingasalar halda því fram að þeir eigi að hafa fullan aðgang að upplýsingum um þau sjúkdómsgen sem viðskiptavinir þeirra gætu búið yfir. Ef þeim verði meinaður aðgangur að þessum upplýsingum muni tryggingamarkaðurinn hrynja. Fólk muni þá fara í rannsókn hjá lækni sínum og þeir sem eru svo óheppnir að hafa þessi gen flykkist til tryggingafélaganna og líftryggi sig. Hinir sem séu lausir við genin hafi síður fyrir því að líftryggja sig. Þannig muni tryggingafélögin á endanum verða fyrir gífurlegu tapi og markaðurinn hrynja.

Breska stjórnin tók á engan hátt á þeim siðferðilegu álitamálum sem fylgja afleiðingum samþykktar hennar. Þeir sem bera Huntington-sjúkdómsgenið standa því uppi varnarlausir ef ekkert verður að gert. Stjórnvöld munu hins vegar ekki komast upp með það til lengdar að taka ekki á þessum málum. Verði niðurstaðan sú að tryggingafélögum verði leyfður enn frekari aðgangur að erfðafræðilegum upplýsingum verða stjórnvöld að búa til öryggisnet fyrir þá sem tryggingafélögin vilja ekki skipta við. Aðgerðir stjórnvalda mega ekki verða til þess að til verði ný stéttaskipting í þjóðfélaginu sem ráðist af genum fólks. Allir hafa sama rétt til öryggis í ellinni og til að búa fjölskyldum sínum öruggt umhverfi eftir dauða sinn, sama hvernig genasamsetning þeirra er.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.