Mannréttindi fyrir atkvæði

Nú berast þær fréttir að átök Palestínumanna og Ísraela séu í rénum og sjái jafnvel fyrir endann á þeim, í bili. Kofi Annan, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hefur síðustu daga setið sitt á hvað á fundum með Ehud Barak og Yasser Arafat og reynt að stilla til friðar. Leiðtogarnir hafa hins vegar ekki hittst sjálfir til að semja um frið.

Vonandi tekst Annan að miðla málum og stilla til friðar þannig að lát verði á blóðsúthellingunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Síðan átökin brutust út hafa 90 manns látið lífið, þar af 85 Palestínumenn. Þær tölur ættu ekki að koma á óvart enda er aðstöðumunur aðila mikill. Palestínumenn kasta grjóti og bensínsprengjum að ísraelskum hermönnum sem svara með því að skjóta gúmmíhúðuðum stálkúlum að mótmælendum. Deilurnar snúast eins og fyrrum um svæði þau sem Ísralesmenn hernámu í sex daga stríðinu. Inn í þær fléttast deilur um stofnun Palestínuríkis, en Ísraelsmenn hafa staðið í vegi fyrir henni.

Bandaríkin hafa löngum verið helsti stuðningsmaður Ísraelsstjórnar og hergögn og peningar hafa flætt til Ísraels frá Bandaríkjunum. Þar vestra eru gyðingar fjölmennur og áhrifamikill þrýstihópur. Undir stjórn Clintons hefur dregið úr stuðningi Bandaríkjamanna við Ísrael, enda erfitt að styðja þjóð sem svo skýlaust brýtur samþykktir Sameinuðu þjóðanna. Bandaríkin hafa gert loftárásir á Írak fyrir að brjóta gegn samþykktum Öryggisráðs SÞ, bandarískir hermenn eru einnig við gæslu víða um heim til að sjá til þess að alþjóðasamþykktum sé framfylgt. En í Ísrael brjóta skjólstæðingar Bandaríkjanna samþykktir Sameinuðu þjóðanna daglega óáreittir.

Á dögunum örlaði þó á stefnubreytingu hjá Bandaríkjastjórn þegar öryggisráð SÞ samþykkti ályktun sem hvatti Ísraelsríki til að fara eftir fyrri samþykktum SÞ. Fulltrúi Bandaríkjanna gekk þó ekki svo langt að styðja tillöguna, hann sat hjá. Vakti þetta vonir um varanlega stefnubreytingu Bandaríkjanna, en þær vonir dvínuðu þegar Bandaríkin greiddu atkvæði gegn því að Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna kæmi saman til að fjalla um átökin. Hjáseta Bandaríkjanna í Öryggisráðinu vakti enda hörð viðbrögð heima fyrir og t.a.m. fullyrtu báðir frambjóðendur til þings í New York fylki, Rick Lazio og Hillary Clinton, að Bandaríkin hefðu átt að beita neitunarvaldi og stöðva þannig framgang tillögunnar.

Það sýnir sig enn og aftur að ekki eru sama mannréttindi og mannréttindi í Bandaríkjunum. Viðskiptahagsmunir skipta meira máli, en mestu máli skipta að sjálfsögðu atkvæði í kosningum. Á meðan gyðingar vestra eru jafn öflugur þrýstihópur og raun ber vitni, er víst lítil von til þess að Bandaríkin gerist málsvarar mannréttinda fyrir botni Miðjarðarhafs.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.