Mig dreymd´ í nótt ég sá Joe Hill

Í dag eru 111 ár liðin frá fæðingu Svíans Joels Emmanuels Hägglands. Hann tók síðar upp nafnið Joe Hillstrom, en varð þekktur undir nafninu Joe Hill. Joel fluttist til Bandaríkjanna árið 1902 og varð þar farandverkamaður. Hann flakkaði um Bandaríkin og kynntist ömurlegu hlutskipti verkafólks af eigin raun. Árið 1910 var hann staddur í San Pedro í Kaliforníu og hóf þar afskipti sín af verkalýðsmálum þegar hann var kosinn ritari samtakanna Industrial Workers of the World. Barátta Joes fyrir bættum kjörum verkafólks fór ekki síst fram á sviði tónlistarinnar, en hann var ljóðskáld og lagahöfundur. Árið 1911 birtist hans þekktasta baráttuljóð, The Preacher and the Slave, í söngbók sem iðnverkasamtökin gáfu út.

Á næstu árum varð hann brátt þekktur á meðal verkafólks um öll Bandaríkin fyrir hárbeittar ádeilur sínar. Hann þekkti aðstæður þess af eigin raun og orti um þær á einföldu, skýru ljóðmáli. Ljóðin voru síðan sungin, ýmist við hans eigin tónsmíðar, eða þekkt bandarísk þjóðlög. Í janúar árið 1914 dvaldist Hill í Salt Lake City. Þar varð hann fyrir byssuskoti við óljósar aðstæður og leitaði læknishjálpar. Skömmu síðar var hann handtekinn og ákærður fyrir að hafa myrt kaupmann í bænum og son hans og rænt búð þeirra. Engar beinar sannanir lágu fyrir um aðild Hills að ránmorðinu og málflutningur ákæruvaldsins byggðist eingöngu á þeirri staðreynd að hann hafði orðið fyrir byssuskoti. Sjálfur neitaði Hill að skýra til hlítar frá því hvernig skotið hafði borið að, sagði að hann hefði deilt um konu við annan mann og orðið fyrir skoti í þeim deilum. Hann neitaði að segja nánar frá kringumstæðum og hver konan var, því hann vildi vernda heiður hennar.

Þögn Hills varð honum dýrkeypt, en hann var dæmdur til dauða og skotinn þann 19. nóvember 1915. Verkalýðshreyfingin barðist fyrir því að fá hann sýknaðan, en allt kom fyrir ekki. Stjórnvöld í Utah sátu fast við sinn keip þrátt fyrir að Woodrow Wilson, forseti Bandaríkjanna, reyndi að fá þau til að náða Hill. Hill tók dauða sínum eins og sannur píslarvottur. Kvöldið fyrir aftökuna skrifaði hann félaga sínum í verkalýðsforystunni, Bill Haywodd: „Bless Bill. Ég dey eins og sannur uppreisnarmaður. Ekki eyða tíma í að syrgja. Skipuleggðu.“ Hill bar þannig hagsmuni verkamanna fyrir brjósti allt fram í rauðan dauðann.

Joe Hill var gerður ódauðlegur með þekktri tónsmíð Alfred Hays, Joe Hill, sem síðan hefur verið sungið um allan heim, m.a. af Joan Baez og Kristínu Ólafsdóttur. Barátta hans fyrir bættum kjörum verkafólks, ljóð hans og lög og síðast en ekki síst píslarvætti hans munu halda nafni hans á lofti um ókomna tíð.

„Mig dreymd´ í nótt ég sá Joe Hill
hinn sanna verkamann.
En þú ert löngu látinn Joe,
ég lifi sagði hann, ég lifi sagði hann.“

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.