Allir í strætó – enginn með Steindóri

Í dag er bílalaus dagur í Reykjavík sem og 642 öðrum borgum og bæjum í Evrópu. Fyllsta ástæða er til að hvetja alla til þess að skilja bílinn sinn eftir heima í dag og nýta sér almenningssamgöngur í staðinn. Frakkar riðu á vaðið með bíllausan dag árið 1998 og síðan hafa fleiri þjóðir bæst í hópinn. Reynsla erlendis sýnir að notkun almenningssamgangna er um 10% meiri á þessum degi en ella og það munar um minna. Fjöldi einkabíla í heiminum er orðið alvarlegt vandamál, svo alvarlegt að Kofi Annan gerði það umtalsefni sínu á árþúsundaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á dögunum.

Lýsti hann þar miklum áhyggjum yfir þróun á sviði umhverfismála, ekki síst loftslagsbreytingum. Annan sagði að árið 1998 hefðu tugþúsundir látið lífið vegna náttúruhamfara sem rekja mætti til lofstlagsbreytinga, mest allt fólk undir fátæktarmörkum. Um það bil 25 milljónir manna þurftu að flýja heimili sín af sömu sökum og kostnaður vegna eyðileggingar af völdum náttúruhamfara var meiri þetta eina ár en allan 9. áratuginn. Til að reyna á einhvern hátt að hamla gegn loftslagsbreytingunum er nauðsynlegt að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Aðalritarinn hvatti til þess að Kyoto-bókunin yrði fullgilt og ríki heimsins, sérstaklega vestrænu iðnríkin, tækju sig saman um að uppfylla skilyrði hennar.

Fulltrúi Íslendinga á fundinum var Davíð Oddsson forsætisráðherra. Málaflutningur hans var nokkuð sérstakur. Á honum er nefnilega að skilja að það sé umhverfinu í hag að Íslendingar fái undanþágu frá Kyoto-bókuninni. Allt sem forsætisráðherra sagði um umhverfismál gekk í sömu átt, Íslendingar verða að fá að menga meira en allir aðrir, það er í raun gott fyrir allan heiminn. Að vegna hinna endurnýtanlegu orkugjafa sem Ísland býr yfir skuli staðsetja hér stóriðju og Sameinuðu þjóðirnar eigi að beita sér fyrir því að stóriðja færist yfir á staði sem búa yfir endurnýtanlegri orku. Hvort Davíð vill að Sameinuðu þjóðirnar hvetji til uppbyggingu stóriðju á Íslandi, eða að Ísland verði miðstöð stóriðju í heiminum skal ósagt látið. Munur á málflutningi forsætisráðherra Íslands og aðalritara Sameinuðu þjóðanna var hins vegar sláandi. Aðalritarinn hvatti þjóðir heimsins til þess að axla sameiginlega ábyrgð á meðan Davíð reyndi að skjóta Íslendingum undan þeirri ábyrgð.

Jarðefnaeldsneyti er 75% af orkugjafa heimsins. Óhófleg fjölgun bíla eykur þar enn á og ýtir undir óheillavænlega þróun umhverfismála. Átök eins og bílalausir dagar eru því nauðsynleg til að vekja fólk til umhugsunar um ástand mála. Eitt helsta markmið með deginum er að fá fólk til að velta hlutunum fyrir sér. Vonandi taka sem flestir þátt í þessu átaki og sýna það, þó ekki væri nema einn dag, að einkabíllinn er ekki upphaf og endir vestrænnar siðmenningar. Skiljum því bílinn eftir heima í dag og tökum strætó, hjólum eða ferðumst á tveimur jafnfljótum.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.