Sælir eru trúaðir

Í hádeginu í gær fór fram athyglisverð umræða í Norræna húsinu. Þar ræddust við þrír rithöfundar, þeir Günter Grass, Slawomir Mrozek og Matthías Johannessen. Margt athyglisvert kom fram í þessum umræðum og eitt af því voru hugleiðingar Grass um ritskoðun markaðarins. Þar velti hann upp þeirri spurningu hvort ritskoðun þá sem finna mátti í A-Evrópu á valdatíma kommúnista, sé á einhvern hátt að finna í vestrænu samfélagi í dag. Hvort sú kvöð sem markaðurinn leggur á ritverk um hagnað feli ekki í sér nokkurs konar ritskoðun. Þetta er athyglisverð umræða og víst er að ekki þarf að leita lengi til að finna dæmi þess sem Grass var að hugleiða. Hér á landi mætti nefna ljóðabækur, en útgáfa þeirra hefur dregist saman til muna undanfarið og ef óheft markaðsöflin fengju að ráða myndi hún líklegast leggjast af. Úti í heimi má benda á draumaverksmiðjuna Hollywood. Þar verða kvikmyndir að falla markaðnum í geð og skila hagnaði og afleiðingin verður Hollywood-formúlan. Þeir sem ekki fylgja henni eru fyrir vikið oft nefndir óháðir kvikmyndagerðarmenn.

Ekki var farið mjög ítarlega út í þessa sálma á fundinum þó þarft hefði verið. Grass kom einnig fram með nokkuð athyglisverðan punkt. Í umræðum um kapítalista líkti hann þeirri hugmynd þeirra um að markaðurinn hefði alltaf rétt fyrir sér við þá hugmynd sem við líði var í kommúnistaflokkum austantjaldsþjóða um að Flokkurinn hefði alltaf rétt fyrir sér. Þetta er mjög þörf ábending, ekki síst í dag þegar markaðsöflin tröllríða öllu samfélaginu. Ekki hefði Grass getað fengið betra dæmi um þetta en pistil þann sem Björgvin Guðmundsson formaður Heimdallar birtir á heimasíðunni Frelsi.is í dag, þriðjudaginn 12. September. Þar er að finna hugleiðingar um þau atriði í máli Grass sem hér hafa verið reifuð og augljóst er á máli Björgvins að hann hefur aldrei heyrt aðra eins vitleysu og efasemdir Grass um markaðinn. Heimsmynd hans hrundi að hluta þegar hann „áttaði sig fljótt á að þrátt fyrir að menn fái verðlaun fyrir að raða saman orðum þá þurfa þau orð ekki endilega að vera sönn…“. Á mánudaginn áttaði Björgvin sig sem sagt á því að allt sem Nóbelsverðlaunahafar segja er ekki endilega satt og rétt.

Þó stendur grunnurinn í heimsmynd Björgvins eftir óhaggaður, markaðslögmálin geta ekki verið slæm. Honum fannst leiðinlegt að jafnverðlaunaður maður skyldi láta aðra eins vitleysu út úr sér en örvænti ekki vegna þess að að hann fékk það á tilfinninguna „að flestir áttuðu sig á ósannindunum sem fólust í þessum fullyrðingum, nema kannski kommakallar eins og Árni Bergmann.“ Það var nú gott að ekki létu fleiri blekkjast af þessum óhroða um markaðinn en gamlir kommakallar. Þó er ekki laust við að þetta skítkast á markaðinn hafi hrært tilfinningar í hjarta Björgvins: „Það var sorglegt að hlusta á Nóbelsverðlaunahafann halda því fram, að í markaðshagkerfi sé innbyggð ritskoðun. Ekkert er eins fjarri lagi.“

Björgvin veit nefnilega eins og er að markaðurinn hlúir að öllum sprotum í hinni margbreytilegu flóru lista og menningar. Vonbrigði hans yfir því að jafnvirtur maður skuli fremja slíkt guðlast sem árás á markaðinn eru ekki síðri fyrir það að Grass er nýfrjáls undan hinu mikla ritskoðunaroki sem við lýði var í Vestur-Þýskalandi, eða eins og Björgvin segir: Um leið og Günter Grass hafnar þessu [þ.e. kennisetningum markaðarins] þá fer hann að verja það kerfi sem varð til þess að hann gat ekki skrifað og sett fram skoðanir sínar.“ Svo er að skilja sem Grass hafi búið við mikla ritskoðun í heimalandi sínu Vestur-Þýskalandi, en sé nú loks laus undan henni í faðm markaðarins og launi það með tungu höggormsins.

Nú ætti einhver góðhjartaður maður að taka sig til og snara pistli Björgvins yfir á þýsku og senda nóbelsverðlaunahafanum. Þá gæti hann séð svart á hvítu að kenning hans um að ofurtrú kapítalista á óskeikulleika markaðarins jafnast fyllilega á við ofurtrú forystumanna kommúnistaflokka austantjaldslanda á Flokkinn sinn. Svo lengi lærir sem lifir.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.