Meira fé til menntamála

Íslendingar hafa löngum státað sig af því að leggja mikið upp úr menntun og menningu þjóðarinnar. Nú líður að því að skólar hefjist á ný eftir sumarleyfi og enn og aftur er sú staða komin upp að draga verður úr umsvifum skólastofnana vegna skorts á starfsfólki. Þetta er árviss viðburður því ekki hefur tekist að fullmanna íslenska skólakerfið með menntuðum kennurum í áraraðir. Blöðin eru þessa dagana full af atvinnuauglýsingum frá hinum og þessum skólum, leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum. Illa gengur að manna þessar stöður, margar deildir leikskóla liggja niðri vegna manneklu og nú lítur út fyrir að í sumum framhaldsskólum þurfi að fella niður áfanga vegna kennaraskorts.

Er ekki mál að linni? Er ekki kominn tími til að spara ræður um nauðsyn menntunar fyrir íslensku þjóðina en auka þess í stað fjárveitingar til skólamála? Í raun þarf að eiga sér stað alger breyting á hugsunarhætti landsmanna. Af hverju er það gefin staðreynd að þeir sem sjá um að gæta barna okkar þurfi endilega að lifa á lúsarlaunum? Þau börn sem fylla leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla landsins eru framtíð þjóðarinnar og það hvernig að þeim er búið skiptir höfuðmáli fyrir þá framtíð. Ástandið er hins vegar þannig að reglulega fara kennarar í verkföll til að berjast fyrir auknum launum og þau verkföll raska námi og starfi í skólunum. Það gengur ekki lengur að láta reka á reiðanum með ástandið í menntakerfinu. Það á að vera forgangsverkefni stjórnvalda, hvaða nafni sem þau nefnast, að búa svo í haginn að hægt sé að byggja upp þroskandi skólastarf í öruggu umhverfi.

Á meðan núverandi valdhafar ráða ferðinni er þó ólíklegt að hér verði breyting á. Í hlutabréfasamfélagi nútímans þar sem allt snýst um gróða og fréttatímar eru undirlagðir af fregnum af viðskiptum með hlutabréf eiga málefni leikskóla og annarra skóla lítt upp á pallborðið. Þó almennt sé samþykkt að aukið menntunarstig þjóðar skili sér í auknum tekjum þá er bara svo langt þangað til. Stjórnmálamenn geta ekki hreykt sér af þeim tekjum sem betri aðbúnaður leikskólabarna í dag mun skila þjóðinni eftir þrjátíu ár. Einu tölurnar sem stjórnmálamenn þurfa að svara fyrir eru árleg útgjöld til menntamála. Það er hins vegar tími til kominn að bylta hugsunarhætti þjóðarinnar til menntakerfisins alls. Uppeldi barna okkar er mikið ábyrgðarstarf og því á að búa svo í haginn að til þess ráðist hæfustu einstaklingarnir. Það skiptir undirritaðan t.d. miklu meira máli að hæft starfsfólk ali upp börn hans en að hæft fólk fáist í banka- og fjármálastofnanir. Það væri óskandi að ráðamenn þjóðarinnar legðu meira upp úr mannauðnum en peningaauðnum.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.