Ekki eru allir gestir til gæfu

Enn einu sinni standa ríkisstjórn landsins og borgaryfirvöld fyrir þeirri ósvinnu að erlend herskip eigi hér viðdvöl. Í síðustu viku komu hingað til hafnar nokkur herskip frá NATO í svokallaða kurteisisheimsókn. Í henni felst að herskipin standa gestum og gangandi opin og var öllum sem það vildu boðið um borð nú um helgina. Í þetta sinn bar ekki mikið á vígskipunum sem voru vel falin á bak við tívolí og skemmtiferðaskip. Ánægjulegt var að sjá hversu fáir þáðu þetta boð, enda óskiljanleg árátta að halda morðtólum að almenningi líkt og um sjálfsagðan hlut sé að ræða.

Samtök herstöðvaandstæðinga stóðu fyrir mótmælastöðu fyrir framan breska herskipið í höfninni. Þar sem um táknræn og æsingalaus mótmæli var að ræða var hópurinn ekki fjölmennur að þessu sinni, einungis 15-20 manns. Það þykir þó sumum of mikið. Það er athyglisvert að nærstærsta dagblað á Íslandi, DV (mán. 10. júlí bls. 48), skuli sjá sig knúið til að ljúga að lesendum sínum með því að birta mynd af þremur mótmælendum og fullyrða að ekki hefðu aðrir mætt til að mótmæla, auk þess sem blaðamaður þykist vita að borgarbúar hafi almennt tekið þessum gestum vel. „Fréttaflutningur“ blaðsins sem kallar sig frjálst og óháð er s.s. ennþá rétttrúnaður kalda stríðsins, ómengaður af staðreyndum.

Heimsókn herskipa af þessu tagi er alvörumál. Mörg skipa Atlantshafsbandalagsins geta borið kjarnorkuvopn og er það óskemmtileg tilhugsun að hingað komi skip sem beri slík vopn. Slysin gera ekki boð á undan sér. Meiru skiptir að það er siðferðisleg skylda Íslendinga að hýsa ekki gjöreyðingarvopn. Atlantshafsbandalagið hvorki játar því né neitar hvort kjarnorkuvopn séu um borð í skipum þeirra og flugvélum. Sú stefna þeirra er vanvirðing við fullveldi þeirra ríkja sem för bandalagsins eiga leið um. Friðlýsing svæða fyrir umferð kjarnorkuvopna kemur í veg fyrir að bandalag á borð við NATO geti eftir eigin geðþótta komið kjarnorkuvopnum fyrir víðs vegar um heiminn.

Lítil von er til þess að ríkisstjórn Íslands sýni þann manndóm að lýsa landið kjarnorkuvopnalaust svæði. Það væri hins vegar óskandi að borgaryfirvöld í Reykjavík tækju af skarið og friðlýstu borgina fyrir umferð kjarnorkuvopna, eða í það minnsta hafnarsvæðið. Fjöldi borga víðs vegar um heim hefur gripið til þessara aðgerða. Það er í raun óskiljanlegt að félagshyggjuöfl þau sem nú eru við völd í borginni skuli ekki fyrir löngu hafa stigið þetta skref til að efla frið og mannúð. Fáir munu sakna þeirrar skemmtunar að geta sýnt börnum sínum nýjustu morðtólin á sunnudagssíðdegi.

kóp/sj

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.