Andrúmsloftið er sameign jarðarbúa

Á dögunum sendi Alþjóða Rauði krossinn frá sér skýrslu um náttúruhörmungar. Þar er lagt til að komið verði á fót alþjóðlegu samstarfi til að takmarka mengandi útblástur. Samkvæmt því mundi hver jarðarbúi fá ákveðinn kvóta af mengandi efnum sem hann mætti láta frá sér fara, óháð efnahag. Þannig myndu hin svokölluðu vanþróuðu lönd hljóta sama rétt til mengunar og hin svokölluðu þróuðu lönd.

Hugmyndin að baki þessu alþjóðlega kerfi, óháð efnahag og iðnframleiðslu, er sú að loftslagsbreytingar jarðarinnar snerti alla jarðarbúa. Mengun frá iðnríkjunum hiti upp jörðina alla með skelfilegum afleiðingum fyrir alla sem á henni búa. Þannig séu mengunarmál ekki einkamál iðnríkja heldur sameiginlegt vandamál heimsbyggðarinnar allrar. Eins og staðan er í dag er t.d. koldíoxíð mengun 62-sinnum meiri á hvern íbúa iðnvæddu ríkjanna en þeirra vanþróuðustu. Þær hamfarir sem rekja má til loftslagsbreytinga koma hins vegar verst niður á vanþróuðu ríkjunum. 96% allra dauðsfalla sem rekja má til náttúruhörmunga verða í vanþróuðu ríkjunum. Flóðin í Mósambík, Bangladesh og á A-Indlandi, stormarnir í Venezuela, fellibylurinn Mitch í Hondúras og áhrif El Nino eru allt dæmi um það. Því er spáð að árið 2025 verði meira en helmingur íbúa vanþróuðu ríkjanna sérstaklega berskjaldaður fyrir veðri og vindum.

Það segir sig sjálft að þar sem loftslag jarðarinnar er sameiginlegt öllum jarðarbúum ætti að vera sameiginleg ábyrgð á því. Mengunarslys í einu landi hefur áhrif víða líkt og slysið í Tsjernóbyl sýndi okkur. Verði slíkum alþjóðlegum mengunarpotti komið á fót mun það gerbreyta viðhorfum vestrænna ríkja til umhverfismála. Í skýrslunni er dæmið lagt upp þannig að erlendar skuldir vanþróuðu ríkjanna séu þrefalt verðminni en það sem þau eiga inni vegna mengunar af völdum kolefnissambanda. Á sama hátt hafi ríkustu þjóðir heims safnað sér upp 13 þúsund milljarða mengunarskuld.

Það er hætt við því að áætlanir ríkisstjórnar Íslands um að auka útblástur gróðurhúsalofttegunda myndu eitthvað breytast ef slíkri samábyrgð væri komið á. Það er löngu kominn tími til að þjóðir heimsins taki höndum saman og geri raunverulegt átak í mengunarmálum. Kerfi svipað því sem Rauði krossinn leggur til væri líklegt til þess að vekja menn til vitundar og auka ábyrgðartilfinningu iðnríkjanna, ekki síst þar sem beinir fjárhagsmunir væru þar í húfi.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.