Viðskiptafrelsi og tvískinnungur

Tvær bandarískar þingnefndir samþykktu í gær, 20. árið í röð, að veita Kína álíka viðskiptafrelsi við Bandaríkin og flest önnur ríki heimsins njóta. Bill Clinton er sérstakur talsmaður þessa og berst ötullega fyrir því að Bandaríkin auki viðskipti sín við Kína og nú síðast bættist Alan Greenspan seðlabankastjóri í hóp stuðningsmanna tillögunnar. Tillagan hefur mætt allnokkurri andstöðu, sérstaklega í hópi repúblikana, en einnig innan demókrataflokksins. Andstaða við tillöguna er ýmist vegna mannréttindabrota Kínverja, eða ótta bandarísku verkalýðshreyfingarinnar við ódýrar kínverskar vörur.

Clinton og fylgjendur hans blása hins vegar á öll rök gegn tillögunni. Þeir segja að framboð á ódýrum vörum frá Kína muni gagnast bandarískum neytendum og opnun markaðar muni gefa bandarískum framleiðendum tækifæri til að nema lönd í Kína. Ekki eru stuðningsmenn tillögunnar heldur í vandræðum með að verja þá ákvörðun að opna á viðskipti við kommúnistaríkið Kína með öllum þeim mannréttindabrotum sem þar tíðkast. Rök þeirra eru þau að aukin samskipti Kína við Vesturlönd ýti undir lýðræðisþróun í landinu, kjör landsmanna batni og því fylgi aukin virðing fyrir mannréttindum.

Þessi rök eru skynsamleg því yfirleitt hlýtur að vera betra að breyta samfélögum innan frá en að þvinga þau til breytinga með utanaðkomandi þrýstingi. Það er einnig gott að Bandaríkjamenn hafa séð ljósið í þessu máli. Þess getur því ekki verið langt að bíða að viðskiptabanni á Írak verði aflétt og höft á viðskipti við Kúbu verði afnumin. Aukin samskipti Vesturlanda við kommúnistaríkið Kúbu og ríkisstjórn Saddam Hussein mundu því, með rökum Clinton og félaga, ýta undir lýðræðisþróun og bæta mannréttindi í ríkjunum.

Það er þó ansi ólíklegt að af þessu verði. Staðreyndin er sú að aukin viðskipti við Kína hafa ekkert með hugsjónir að gera. Hér er aðeins á ferðinni einstakt tækifæri fyrir Bandaríkin að nýta sér gríðarstóra ónýtta markaði Kína. Það eru krónurnar og aurarnir sem ráða ferðinni en ekki hugsjónir um mannréttindi í fjarlægum löndum. Samþykki þing Bandaríkjanna tillögurnar aukast líkurnar á því að Kína verði veitt aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Það verður athyglisvert að hlusta á rök Clintons gegn því að Írak og Kúbu verði veitt sama aðild. Það er erfitt hlutverk að praktísera heimspólitík eftir viðskiptalegum sjónarmiðum og reyna að klæða hana í búning hugsjóna.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.