Væringar í verkalýðsmálum

Undanfarið hafa borist fregnir af hræringum í verkalýðsmálum. Forráðamenn Verkamannasambands Íslands og Flóabandalagsins birtast á víxl í fjölmiðlum, kastandi hnútum hver í annan, kvartandi yfir samstarfinu. Nú virðist svo komið að óhjákvæmilegt sé að kljúfa Verkamannasambandið í herðar niður. Upphaf þessara deilna eru deilur í áherslum í kjarasamningum sem urðu til þess að verkalýðsfélögin á suðvesturhorninu ákváðu að semja sér fyrir sig undir merkjum Flóabandalagsins við atvinnurekendur. Hér verður ekki lagt mat á það hvaða aðilar bera sök á þessum deilum og hvor málstaðurinn sé réttari. Það er hins vegar stóralvarlegt mál ef rjúfa á samstöðu verkafólks meira en orðið er.

Þróun í verkalýðsmálum hefur hin síðustu ár orðið í þá átt að draga úr samtakamætti verkafólks með vinnustaðasamningum, bæði einstaklingsbundnum og hópatengdum. Í áratugi hefur verkafólk unnið að því að styrkja sambönd sín og heildarsamtök á borð við Verkamannasamband Íslands búa yfir miklum samtakamætti sem nýtist vel í kjaraviðræðum. Allar hræringar í þá átt að draga sig út úr þessum heildarsamtökum eru ekki neinum til góðs nema atvinnurekendum. Þeir sitja eins og púkinn á fjósbitanum og fitna við hver hnýfilyrðin sem falla á milli forkólfa verkalýðshreyfingarinnar. Því minni einingar sem atvinnurekendur þurfa að semja við því minna vægi hefur verkfallsógnin.

Ef af þessum klofningi verður myndast gjá á milli verkafólks á landsbyggðinni annars vegar og á höfuðborgarsvæðinu hins vegar. Slíka gjá getur verið erfitt að brúa og þurfa menn því að vanda sig sérstaklega í næstu skrefum. Persónulegar krytur verkalýðsforkólfa mega ekki vinna gegn umbjóðendum þeirra, verkafólkinu sjálfu. Það væri því óskandi að verkalýðshreyfingin hætti að vinna gegn sjálfri sér með þessum sundrungaraðgerðum og færi að beita sterkasta vopni sem hún býr yfir, nefnilega samtakamættinum.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.