Kastljós ríkisstjórnarinnar

Í gærkvöldi var á dagskrá sjónvarpsins, eins og alla virka daga, fréttaskýringaþátturinn Kastljósið. Þættir þessir hafa vakið þó nokkra athygli, enda fer í þá mikið af krafti og peningum fréttastofunnar. Þættir þessir taka á málefnum líðandi stundar, í myndver koma gestir og ræða við þáttagerðarmenn þau Rögnu Söru Jónsdóttur og Gísla Martein Baldursson. Í gærkvöldi var síðan komið að því að ræða árásir forsætisráðherra íslensku þjóðarinnar, Davíðs Oddssonar, á Öryrkjabandalag Íslands og þó aðallega formann þess.

Davíð Oddsson hefur nefnilega gripið til þess ráðs þegar að honum er sótt á Alþingi að ráðast á Öryrkjabandalagið og forystumenn þess. Þannig var það þegar umræða hófst á þingi um frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur um fjárreiður stjórnmálaflokka, að Davíð Oddsson tók til máls, ekki til að tjá sig um það hvort bókhald stjórnmálaflokka ætti að vera opið eða lokað, heldur til þess að lýsa skoðun sinni á hegðun og persónu formanns Öryrkjabandalagsins.

Nú gæti maður spurt sig hvað formaður Öryrkjabandalagsins og gjörðir hans koma umræðum á Alþingi um fjárráð stjórnmálaflokka við, og það gerðu reyndar flestir. Þegar ráðherra var beðinn um að útskýra mál sitt kom í ljós að hann áleit að auglýsingar Öryrkjabandalagsins fyrir síðustu kosningar þar sem kjósendur voru hvattir til þess að gera málefni öryrkja að kosningamáli, væru fjárframlög í kosningasjóði Samfylkingarinnar. Hvernig forsætisráðherra komst að þessari niðurstöðu er enn á huldu, því ekki hafa fréttamenn gert neitt í því að krefja hann um skynsamleg svör í þessu máli.

Í gærkvöldi var hins vegar komið að því að ræða við formann Öryrkjabandalagsins um þessi mál. Undirritaður hélt að nú ætti að ræða við hann um árásir forsætisráðherra á hann sjálfan og skjólstæðinga hans. Annað kom þá á daginn. Þáttarstjórnendur tóku þann sérkennilega pól í hæðina að krefja formann Öryrkjabandalagsins um svör við því hvort hann ætlaði ekki að biðjast afsökunar, hvort hann gæti starfað áfram sem formaður nú þegar reiði forsætisráðherra beindist að honum. Tilefni árása forsætisráðherra voru aldrei dregin í efa, heldur gengið út frá því í þættinum að það væri formaður Öryrkjabandalagsins sem ætti að biðjast afsökunar á því að hafa reitt Davíð Oddsson til reiði. Á fjóra mismunandi vegu var formaðurinn spurður út í afsökunarbeiðni og mögulega afsögn, alveg sama hverju hann svaraði.

Þetta verður að teljast einhver sú sérkennilegasta fréttamennska sem undirritaður hefur orðið vitni að. Fréttamenn voru búnir að ákveða það fyrir þáttinn að formaður Öryrkjabandalagsins væri vondi maðurinn í þessu máli og það var alveg sama hvað hann sagði, hann skyldi a.m.k. biðjast afsökunar fyrst hann var ekki tilbúinn til þess að segja af sér. Það er ótrúlegt að fréttamenn ríkissjónvarpsins skuli spila þennan leik forsætisráðherra. Með orðum sínum í gærkvöldi voru stjórnendur þáttarins að samþykkja þá skilgreiningu Davíðs Oddssonar að gagnrýni á stjórnvöld og þá sérstaklega á forsætisráðherra sé óeðlileg og beri að refsa fyrir. Hvernig getur maður vonast eftir því að slíkir fréttamenn sýni stjórnvöldum gagnrýnið aðhald?

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.