Svo skal böl bæta …

Ekki verður hún oflofuð sú vinna sem alþingismenn vorir leggja á sig þjóðfélaginu til hagsbóta. Í gær mátti sjá merki þess á hinu háa Alþingi. Nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar lögðu þá fram þingsályktunartillögu til að sporna við því óréttlæti sem þeim finnst felast í því að ríkisvaldið gerir sitt til að draga úr áfengisneyslu. Þingmenn þessir telja það mikið óréttlæti að ekki sé hægt að kaupa áfengi í matvöruverslunum. Það sé sjálfsagt mannréttindamál að þurfa ekki að fara í sérverslun til þess að kaupa sér áfenga drykki og aðgangur að þeim eigi að vera hinn sami og að matvöru.

Flutningsmenn virðast þó ekki hafa gert sér grein fyrir þeim grundvallarmun sem er á áfengi og matvöru. Óhófleg áfengisneysla hefur verið skilgreind sem eitt helsta heilbrigðisvandamál vestrænna þjóða. Reynsla annarra þjóða sýnir að allir tilburðir í þá átt að auka aðgang að áfengi leiða til aukinnar unglingadrykkju og aukinnar almennar notkunar á áfengi. Sem dæmi má nefna tölur frá Svíþjóð annars vegar og Danmörku hins vegar. Í Svíþjóð er svipað kerfi og hér, þar er áfengi selt í sérverslunum. Athuganir sýna fram á að meðaltalsdrykkja hvers Svía er um það bil 6 lítrar af hreinum vínanda á ári en í Danmörku, þar sem áfengi er selt í matvöruverslunum, er meðaltalsdrykkja hvers manns um það bil 10-12 lítrar af hreinum vínanda. Í greinargerð með tillögu flutningsmanna er ekki að finna stafkrók um áhyggjur yfir aukinni neyslu áfengis og af málflutningi þeirra mátti ráða að slíkar áhyggjur íþyngja þeim ekki. Einn flutningsmanna, Þórunn Sveinbjarnardóttir, notaði það sem rök fyrir tillögunni að unglingadrykkja væri hvort sem er vandamál á Íslandi.

Vissulega væri þægilegt að geta keypt sér rauðvín með steikinni í matvöruverslunum. Það augljósa hagræði á hins vegar að vera aftar í forgangsröðinni en baráttan við vandamál sem tengjast áfengisneyslu. Það ætti að vera öllum ljóst að ef viðskiptasjónarmið eiga að verða allsráðandi í sölu áfengis þá er voðinn vís. Það er eðli hins frjálsa markaðar að selja sem mest af þeirri vöru sem á boðstólum er og áfengi yrði á engan hátt undanskilið þeirri reglu. Ef áfengi væri selt í matvöruverslunum væri aukin sala á því eðlilegur hvati verslunareigenda.

Þessi tillaga og sá málflutningur sem fylgir henni einkennist af ábyrgðarleysi. Hún er eingöngu hugsuð út frá þeim þægindum sem væru í því að þurfa ekki að fara í sérverslun eftir áfengi. Afleiðingar þessara þæginda skipta flutningsmenn ekki máli. Áfengi er ekki eins og hver önnur verslunarvara. Að horfa eingöngu á sölu þess út frá viðskiptasjónarmiðum er ávísun á aukinn heilbrigðisvanda. Það væri óskandi að sumir þingmenn hugsuðu tillögur sínar til enda og slægju heldur af „populismanum“ í staðinn. Ef svo væri þyrfti þingflokksformaður Samfylkingarinnar sennilega ekki að koma í pontu og sverja tillögur þeirra af sér á líkan hátt og Rannveig Guðmundsdóttir gerði í gær.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.