Hversu lengi er hægt að hafa höfuðið í kafi?

Fyrirfram hefði ég haldið að sú mikla umræða sem átt hefur sér stað hér á landi um umhverfismál í kjölfar fyrirhugaðrar virkjunar í Fljótsdal, hafi ekki farið framhjá neinum. Íslenskt þjóðfélag snerist ekki fyrir svo margt löngu um það hvort menn væru á með eða á móti því að framkvæmdirnar færu í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum. Yfir 40.000 manns skrifuðu sig á lista til þess að krefjast þessa lögformlega mats, fjölmiðlar voru uppfullir af umfjöllun um málið og á Alþingi var hart tekist á um það eins og annars staðar. Töldu margir þetta bera vitni um það að Íslendingar væru að vakna til vitundar í umhverfismálum og margir þeir sem eitt sinn höfðu umhugsunarlaust stutt virkjun höfðu skipt um skoðun vegna aukins vægis umhverfisþátta. Það virðist þó vera að stór hópur Íslendinga (allt of stór) hafi algjörlega leitt umræðuna hjá sér, geri sér ekki grein fyrir því að umhverfismál skipta æ meira máli eða jafnvel því að umhverfismál skipti yfir höfuð einhverju máli. Hér er átt við Sjálfstæðisflokkinn.

Sjálfstæðisflokkurinn, stærsti stjórnmálaflokkur landsins, hefur um árabil haldið úti stjórnmálaskóla. Skóli þessi er ætlaður ungu fólki sem er að stíga fyrstu skref á sviði stjórnmálanna. Um síðustu helgi birtist auglýsing í Morgunblaðinu frá títtnefndum stjórnmálaskóla. Skólinn virðist vera með mjög hefðbundnu sniði nú, þar verða tekin fyrir utanríkismál, sjávarútvegsmál og fleiri stór mál sem nauðsynlegt er að ræða. Það sem vekur hins vegar hvað mesta athygli þegar dagskráin er skoðuð er ekki það sem á henni er, heldur það sem vantar. Þeir sem standa að stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins virðast nefnilega ekki telja það nauðsynlegt að umhverfismál séu rædd. Hvergi á þéttskipaðri dagskránni er þau að finna. Sjálfstæðisflokkurinn telur greinilega að þau mál séu ekki það mikilvæg að það þurfi að ræða þau eitthvað sérstaklega á þessum vettvangi.

Það er greinilegt að ekkert er að breytast í Sjálfstæðisflokknum í átt til nútímalegrar stjórnmálaumræðu. Það er kannski ekkert skrítið að í flokki sem stjórnað er með tilskipunum formanns telji menn ekki þörf á mikilli umræðu. Það er hins vegar alveg ljóst að í flokknum hans Davíðs ríkja þau viðhorf að umhverfismál skipti ekki ýkja miklu máli. Þar er greinilega litið á þau sem eitthvað sem hægt er að skreyta ræður með á hátíðarstundum, en ekki „alvörustjórnmál“ eins og utanríkis- og sjávarútvegsmál. Það er kannski engin ástæða til þess að vera hissa yfir þessu, framganga flokksins í virkjunarmálum og hvernig ríkisstjórnin keyrði þau mál í gegn hefði átt að vera næg vísbending um að svona væri málum háttað í raun. En einhvern veginn bjóst maður ekki við því að Sjálfstæðisflokkurinn mundi setja auglýsingu í dagblöð um það að umhverfismál væru ekki stjórnmál.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.