Heilbrigðisþjónustan hf.

Um næstu mánaðamót munu framkvæmdastjórnir stóru spítalanna tveggja í Reykjavík leggja tillögur sínar að rekstraráætlun fyrir heilbrigðisráðherra. Þar er eins og búast mátti við gert ráð fyrir miklum niðurskurði og enn meiri hagræðingu (sem er annað orð yfir niðurskurð hjá markaðsfræðingunum). Nú síðastliðin ár hefur krafan verið sú að skera niður í heilbrigðiskerfinu. Skiptir þá ekki máli að niðurskurður bitnar á notendum þjónustunnar, þ.e. veiku fólki.Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðisráðherra heldur samviskusamlega áfram á þeirri niðurskurðarferð sem Sighvatur Björgvinsson hóf fyrir margt löngu.

Þegar Sighvatur kom fram með sínar tillögur um komugjöld sjúklinga, niðurskurð o.fl. urðu vatnaskil í heilbrigðismálum Íslendinga. Fram að því hafði ríkt nokkur sátt um það hjá þorra þjóðarinnar að í landinu þyrfti að vera öflugt heilbrigðiskerfi sem stæði öllum opið óháð efnahag og aðstæðum. Það vakti því úlfúð í þjóðfélaginu þegar Sighvatur hóf öxina á loft að rótum kerfisins. Síðan þá hefur krafan um niðurskurð og hagræðingu orðið æ háværari. Allar þrjár ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar hafa haldið áfram að skera niður í heilbrigðiskerfinu og nú er svo komið að stjórnendur spítalanna eru orðnir svo gegnsýrðir af markaðshugsuninni sem sjá má í tillögum þeirra.

Aðalatriðið í tillögum stjórnendanna er nefnilega það að spítalarnir séu reknir í samræmi við þær tekjur sem þeir afla. Enn sem komið er afla spítalar ekki mikilla tekna með því að selja þjónustu sína. Þær tekjur sem hér um ræðir eru þær fjárveitingar sem ríkisstjórnin ákveður að veita til spítalanna. Það á með öðrum orðum að ákveða fyrirfram hversu mörgum sjúklingum spítalarnir mega sinna á hverju ári.

Þörfin á spítalavist eða heilsufar landsmanna ráða ekki ferðinni, heldur einhver tala sem Davíð Oddsson, Ingibjörg Pálmadóttir og félagar sættast á. Afleiðingin af þessu er sú að biðlistar lengjast vegna þess að fækka verður skurðaðgerðum. Einnig verður mikill niðurskurður í öldrunarþjónustu, t.d. á að fækka rúmum á öldrunarsviði Sjúkrahúss Reykjavíkur úr 25 í 15. Á sama tíma eldist íslenska þjóðin og þörfin fyrir aðhlynningu aldraðra verður æ meiri.

Þessi grundvallarbreyting á þeirri hugmynd sem liggur að baki heilbrigðisþjónustu er enn eitt dæmið um það hvernig smátt og smátt er verið að markaðsvæða allt samfélagið. Fjármagnið ræður ferðinni, ekki raunverulegar þarfir.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.