• Eitt stærsta verkefni stjórnmálanna (10/30/2017)

  Að rífa sig upp daginn eftir kosningar, baráttuna með tilheyrandi ati og svo vöku um kosninganótt, til að fljúga út til Helsinki á Norðurlandaráðsþing er um margt sérstök lífsreynsla. Ferðalagið er dálítið í þoku og ég var ekki kominn inn á hótelherbergi fyrr en að ganga tvö að staðartíma. Og svo hófust herlegheitin klukkan níu í morgun.

  En þetta er ótrúlega áhugavert. Í dag hef ég setið fundi og undirbúningsfundi og kynningarfundi. Já, þetta eru margir fundir. Efnið er hins vegar spennandi og það er heiður að fá að taka þátt í þessu starfi. Samstarf Norðurlandanna er ekki endilega sexí í hugum margra og ekki fer það alltaf hátt í umræðunni, en mikilvægt er það.

  Á meðal þess sem fjallað var um í dag voru málefni Norðurslóða, heimskautsins. Loftslagsbreytingar hafa gert það að verkum að þar verða breytingar ár frá ári með hlýnandi veðurfari og minni ís. Margir sjá þetta sem tækifæri til að græða meiri peninga. Það er hins vegar stórhættuleg hugsun, þar sem við verðum fyrst og fremst að huga að því hvernig við getum verndað viðkvæma náttúru svæðisins.

  Ég sat líka fund um orkumálasamstarf Norðurlanda. Þar var kynnt skýrsla Jorma Ollila, sem kom út í sumar, en þar er kvatt til þess að Norðurlöndin taki höndum saman í orkumálum. Og raunar meira en hvatt til þess; það sé beinlínis nauðsynlegt eigi að takast að uppfylla skilyrði Parísarsamkomulagsins. Jorma hvatti stjórnmálamenn til dáða og sagði að næsti áratugur yrði sá krítískasti í þessum efnum. Skýrsluna má nálgast hér.

  Sjálfum finnst mér stundum eins og stjórnmálamenn átti sig ekki á því hve nauðsynlegt er að grípa til aðgerða strax. Það eru rétt rúm tólf ár þar til við eigum að vera búin að uppfylla Parísarsamkomulagið og það er því enginn tími til að bíða með það að grípa til aðgerða; allar eru þær nefnilega tímafrekar.

  Það voru til að mynda mikil vonbrigði að í fjármálaáætlun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, til næstu fimm ára, nam aukið fjármagn til umhverfismála aðeins einum milljarði króna árlega. Það dugar engan veginn og er ekki í neinu samræmi við verkefnin. Bara sem dæmi þá fékk Skógræktin ekkert nálægt þeim fjárhæðum sem hún þarf til að fara í þau verkefni sem þó er talað um í loftslagsskýrslu Hagfræðistofnunar HÍ.

  Mér finnst þetta eitt stærsta verkefni stjórnmálanna, og þá líka íslenskra, og ekki fá athygli í samræmi við það. Næsta ríkisstjórn þarf að taka þessi mál föstum tökum og ég leyfi mér að vona að tillag Vinstri grænna um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 verði þar höfð að leiðarljósi.

  Á morgun hefst þingið svo formlega og á næstu dögum gefst mér færi á að ræða aðskiljanlegustu mál við þingmenn og ráðherra frá Norðurlöndunum.

 • Þetta er kerfið þitt, Þorsteinn (9/12/2017)

  Ég var á fróðlegum fundi Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni í gær um frítekjumarkið. Þar kom margt mjög fróðlegt fram, en ég ætla ekki að fjalla efnislega um þessi málefni í þetta skiptið. Það vakti hins vegar athygli mína hvernig Þorsteinn Víglundsson velferðarráðherra talaði um ríkisfjármálin og þá ramma sem hann og ríkisstjórn hans hafa sett þar.

  Ráðherra útskýrði að það væri nú ekki hægt að gera allt og frítekjumarkið yrði hækkað í áföngum á nokkrum árum. Nýtt umhverfi fjárlaga setti okkur skorður, við yrðum að halda útgjöldum innan rammanna sem birtast í fjármálaáætlun og -stefnu. Þeir skæru okkur þröngan stakk og þá sérstaklega fyrstu árin, en svo yrði meira borð fyrir báru.

  Það vakti athygli mína að ráðherra ræddi um þetta eins og eitthvað náttúrulögmál; að svona væru rammarnir og við stjórnmálamenn, og þá sérstaklega hann sem ráðherra, þyrfti bara að búa við það; hendur hans væru bundnar. Rammarnir umræddu eru hins vegar ákvörðun Þorsteins, annarra ráðherra í ríkisstjóninni og þingmanna stjórnarmeirihlutans. Það voru þeir sem ákváðu hve mikið ætti að setja í hvern málaflokk á næstu árum.

  Þetta er nefnilega kerfið þitt, Þorsteinn, þitt og félaga þinna í stjórnarmeirihlutanum. Það voruð þið sem ákváðuð að ekki færu meiri fjármunir í velferðarmálin og bættuð svo um betur með því að samþykkja fáheyrt þak á ríkisútgjöld. Jafnvel þó vilji væri til þess að gefa rækilega innspýtingu í ríkisútgjöld erum við bundin af því þaki; þau mega ekki verða meira en 41,5% af vergri landsframleiðslu. Og það á við um heildarútgjöld hins opinbera.

  Þetta eru engin náttúrulögmál, eitthvað kerfi sem við búum við og þurfum að þola. Þetta er pólitísk ákvörðun sem Þorsteinn og aðrir stjórnarþingmenn tóku. Og það er ekki sérstaklega stórmannlegt að skýla sér á bak við þá ákvörðun eins og maður hafi ekki komið að henni. Það var pólitísk ákvörðun og með slíkum eiga pólitíkusar að standa.

 • Talaðu nú skýrt, ráðherra (4/20/2017)

  Enn og aftur eru málefni Klíníkurinnar komin í umræðuna eftir að Embætti landlæknis sendi frá sér yfirlýsingu í morgun. Þar er komið inn á það sem er að nokkru leyti rót vandans í umræðunni; ólíkar skilgreiningar. Þannig lítur landlæknir svo á að starfsemi Klíníkurinnar sé sérhæfð heilbrigðisþjónusta, en samkvæmt lögum þarf slík þjónusta leyfi ráðherra til að starfa. Ráðuneytið heldur sig hins vegar við það að skilgreina starfsemina sem hvern annan stofurekstru lækna sem ekki þurfi leyfi ráðherra.

  Þetta er einfaldlega óþolandi. Ráðherra getur með þessu siglt í gegnum þá grundvallar spurningu hvort við viljum þá breytingu í heilbrigðiskerfinu sem Klíníkin boðar – því breyting er það, alveg sama hvaða orð menn fela sig á bak við.

  Í yfirlýsingu landlæknis er vitnað í umræður á Alþingi 23. mars, en þar spurðum við nokkrir þingmenn ráðherra út í málið. Svo segir landlæknir frá samskiptum við ráðuneytið:

  Svar ráðuneytisins var á þá lund að umræðan hefði einungis snúist um hvort leitað yrði til Klíníkurinnar um þátttöku í svokölluðu biðlistaátaki. Enn fremur ítrekaði ráðuneytið þá afstöðu sína að ekki þyrfti leyfi ráðherra vegna starfsemi Klíníkurinnar.

  Hér er farið afskaplega frjálslega með sannleikann hvað þær umræður varðar. Hér og hér má t.d. sjá mínar spurningar til ráðherra, en ég minntist ekki einu orði á biðlista. Ég reyndi að fá ráðherra til að tala skýrt, eins og hann reyndar gumaði af að gera í umræðunum, og spurði:

  Það er líka hægt að spyrja skýrt: Telur hæstv. heilbrigðisráðherra að af þessari starfsemi verði og að hún rúmist innan þess rammasamnings sem hæstv. ráðherra vitnaði til?

  Því miður svaraði ráðherra því engu, fór í fabúleringar um mismunandi skilgreiningar en klikkti svo út með þessum orðum:

  En ég sé ekki að það yrði til heilla að dreifa kröftum heilbrigðiskerfisins með því að fela í auknum mæli flóknari og meiri sjúkrahúsþjónustu aðilum annars staðar en á þeim sjúkrahúsum og spítölum sem fyrir eru.

  En hvað þýðir þetta hjá ráðherra? Þýðir þetta að starfsemi Klíníkurinnar geti haldið áfram, Sjúkratryggingar geri bara ekki nýjan samning við hana? Í bili, að minnsta kosti. Það væri ágætt að fá svar við því, en ráðherra neitar að vera skýr hvað það varðar. Þessu velti ég einmitt upp í samtali við Fréttablaðið, sem sjá má hér, þennan sama dag:

  „Ráðherra var býsna skýr með það að hann muni ekki gera sérstaka samninga um legu á sjúkradeildum í einkarekstri. Eftir stendur hins vegar hvort starfsemi Klíníkurinnar rúmast innan rammasamnings við Læknafélagið sem nú er í gildi. Þýðir þetta að ríkt fólk geti keypt sér aðgerð sem almenningur hefur ekki ráð á?“ spyr Kolbeinn.

  Það er löngu komið meira en nóg af þessum orðhengilshætti. Ábyrgur stjórnmálamaður í embætti ráðherra á að geta talað skýrt um það hvernig starfsemi Klíníkurinnar verður, hvaða aðgerðir þar muni fara fram, hvort þar verði rekin legudeild, hvort hún rúmist innan núverandi samninga og hver verður þróun hennar. Það er beinlínis skylda hans, sem æðsta embættismanns þjóðarinnar í heilbrigðismálum.

  En það er líka skylda hans sem stjórnmálamanns. Lærdómur bóluáranna og hrunsins á ekki að vera sá að við þurfum meiri orðhengilshátt, þurfum frekar að fela okkur á bak við ólíkar skilgreiningar, eigum að skjóta okkur meira undan umræðum um skýr pólitísk efni. Þvert á móti; við þurfum stjórnmálamenn sem tala hreint út og heiðarlega, hafa skýra sýn á hvert þeir vilja stefna og fara ekki í grafgötur með hugmyndafræði sína. Og sem upplýsa þjóðina um hvað er að gerast í málaflokkum sem þeir fara með.

  Kæri heilbrigðisráðherra, talaðu nú skýrt.

 • Gengið á hólm við hugmyndafræði (4/14/2017)

  Svo virðist sem æ fleiri kalli nú eftir skýrri hugmyndafræði, m.a. er boðuð stofnun nýs flokks sem byggir á hugmyndafræði sósíalisma. Ég fagna því, eins og ég fagna öllu sem þýðir að við tölum meira um pólitík. Það sem mér finnst vera hin raunverulega pólitík snýst nefnilega ekki um óræða kerfisbreytingar heldur kristallast hún á afstöðu til samneyslunnar. Ég ætla að leyfa mér að gerast svo djarfur að skella hér fram þeirri einföldun að þau sem vilji auka samneysluna séu til vinstri, þau sem vilji draga úr henni séu til hægri.

  Ég hef talað um það lengi að mér finnist ein mesta meinsemd íslenskra stjórnmála um þessar mundir vera skortur á hugmyndafræði. Með því á ég ekki við dogmatíska trú á hina einu lausn; heldur að við, sem í stjórnmálum stöndum, séum skýr með það hvaða hugmyndafræði okkar hugnast. Um þetta hef ég skrifað áður hér og sagði þá meðal annars:

  Ég held að við eigum að hugsa meira eftir hugmyndafræðilegum nótum, ekki minna. Við eigum að hafa hugmyndafræði um það hvernig við viljum að samfélagið sé. Það á að vera útgangspunkturinn okkar, síðan má taka afstöðu til einstakra álitaefna út frá því, hvort ákveðnar lausnir rúmist innan þeirra grundvallarhugmynda sem við höfum og hvort jafnvel þurfi að víkka hugmyndirnar út. Ekki öfugt. Ekki kasta hugmyndunum fyrir róða og nálgast allt út frá því að einhver lausn gangi vel upp í reiknilíkönum.

  Og þar sem ég hef nú ná þeim merka áfanga í sjálfsupphafningunni að vitna í sjálfan mig, get ég haldið áfram með pælingar dagsins. Hvað á maður svo sem annað að gera á þessum langa degi en að velta hlutunum fyrir sér?

  Núverandi ríkisstjórn hefur lagt fram fjármálaáætlun til fimm ára sem gerir beinlínis ráð fyrir því að samneyslan dragist saman sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Það er hrein og klár hægri stefna og um það hef ég áður skrifað. Samt tala sumir ennþá um einhverja stjórnarflokkanna sem frjálslynda miðjuflokka.

  Kannski hefðu kosningarnar farið öðruvísi ef þetta ákall um skýra hugmyndafræði hefði verið hærra þá. Rétt upp hönd sem heyrði mikið tal um vinstri/hægri, samneyslu/einkaframtak. Sem man eftir umræðum um heilbrigðismál t.d. út frá því hvort um opinbert heilbrigðiskerfi væri að ræða eða aukningu til einkaaðila? Sem man eftir sleggjudómalausum umræðum um það hvort hægt væri að haga skattheimtu þannig að þau sem best hafa það greiddu hlutfallslega meira en þau sem verst hafa það, að skattkerfið væri tekjujöfnunartæki en ekki aðeins tekjuöflunartæki?

  Ég man eftir ótal umræðum um búvörusamningana, gríðarlega löngum greinum sem fylltu heilu blöðin, stjórnmálafólki að slá sér á brjóst fyrir afstöðu sína gagnvart þeim. Og eins mikilvægir og þeir eru, þá eru þeir ekki stóru línurnar í stjórnmálunum, samneysla/einkaframtak, skattkerfið og velferðarkerfið. Ég man eftir endalausu tali um kerfisbreytingar í hinu og þessu – bara ekki skattkerfi Bjarna Benediktssonar. Sjálfur reyndi ég að tala um hugmyndafræði og mér fannst það reyndar ganga ágætlega á vinnustaðafundum. Fólk hefur held ég mun skýrari pólitíska sýn en sumir halda.

  En það er eins og stór hluti stjórnmálamanna veigri  sér við að útskýra hugmyndafræði sína, eða kannski hugsa hana í þaula. Sumir virðast líta á stjórnmál sem ígildi fyrirtækjareksturs og kosningar snúist bara um að finna hæfustu millistjórnendurna með besta mannauðsstjórnunarkerfið.

  Hvergi fannst mér þetta koma betur fram en í umræðum um fjárlög og bandorm í desember. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, lagði þar til ýmsar breytingar til tekjuöflunar sem, ef hefðu verið samþykktar, hefðu gefið færi á að auka við samneysluna. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, brást við tillögunum með því að kvarta yfir því að þær hefðu ekki verið kynntar nægjanlega, sem var reyndar ekki satt, og sagði svo:

  En svo háttar til um þær tillögur sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir hefur lagt fram að þær voru ekki kynntar fyrir nefndinni. Hér er verið að tala um afar viðamiklar breytingar sem þingmenn hafa mismunandi skoðun á, en miðað við þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð mun þingflokkur Viðreisnar greiða atkvæði gegn tillögunum. Það segir þó ekkert um afstöðu þingflokksins til ákveðinna þátta, heldur erum við hér að mótmæla slíkum vinnubrögðum.

  Sem sagt, ekki orð um innihaldið, aðeins athugasemdir við ferlið, væntanlega passaði það ekki í einhverja ISO-staðla. Afstaða Benedikts og Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokksins til innihalds tillagnanna kom svo berlega í ljós í hinni hægri sinnuðu fjármálaáætlun Benedikts þar sem samneyslan dregst saman, en skattkerfi Bjarna Benediktssonar er sem heilagt gral sem ekki mál umbreyta.

  Sjálfur hafði ég ákveðnar efasemdir um þá samstöðu sem náðist um fjárlagafrumvarpið í desember. Og fyrst ég er byrjaður á því að vitna í sjálfan mig er eins gott að halda því áfram, því þetta sagði ég um fjáraukalögin 22. desember:

  Margir þingmenn hafa í pontu komið inn á það samkomulag sem náðist á milli allra flokkanna sjö sem sæti eiga á þingi um sameiginlega afgreiðslu á þessu máli. Ég ætla að játa að ég hafði mjög miklar efasemdir um að þetta væri rétta leiðin. Ég lít svo á að frumvarp til fjárlaga hvers árs sé í raun pólitískasta frumvarp sem fram kemur hverju sinni. Þar eru línurnar lagðar fyrir það hvernig stjórnvöld vilja sjá samfélagið það árið og í ríkisfjármálaáætlun kemur svo sýn til lengri tíma. Ég hafði töluverðar efasemdir um að það væri rétt að flokkarnir næðu allir saman. Sannast sagna fannst mér töluvert spennandi að flokkarnir kæmu einfaldlega með sínar tillögur inn í þingsal, greidd yrðu atkvæði um það hvaða útgjöld flokkarnir væru sáttir við að standa að, þ.e. um hvaða útgjöld næðist meiri hluti á þingi og hvaða útgjöld ekki, og í hendur héldist nauðsynleg tekjuöflun.

  Eins óspennandi og sumum kann að þykja það hljóma snýst pólitík á endanum að miklu leyti um fjármál ríkisins, tekjur og útgjöld. Á að afla tekna og útdeila fjármunum með jöfnuð í huga, þau borgi meira sem hafa ráð á því og þau fái meira í gegnum samneysluna sem á því þurfa að halda. Vinstri, hægri.

  Þess vegna fagna ég umræðum um hugmyndafræði, sósíalisma. Megi þær vera komnar til að vera og lita næstu kosningar. Þá fáum við kannski heiðarlega kosningabaráttu þar sem flokkar úttala sig ærlega um hugmyndafræði sína í stað þess að fela sig á bak við frasa.

 • Samneyslan dregst saman (3/31/2017)

  Ríkisstjórnin gumar nú af fjármálaáætlun sinni, sem lögð var fram í dag. Þar er kominn ramminn fyrir útgjöldin næstu fimm árinn, ramminn sem fjárlög hvers árs fyrir sig eiga að rúmast innan. Sá rammi, fjármálaáætlunin, á svo að rúmast innan fjármálastefnunnar, sem skýrir kannski hvers vegna við höfum rætt hana í þaula síðustu daga á þinginu.

  Fjármálaráðherra hreykir sér af auknum útgjöldum til heilbrigðismála, menntamála og ég veit ekki hvað. Þar er nú ekki allt sem sýnist. Því miður hefur ráðherra fallið í þá gryfju að reyna að fegra hlutina eins og hægt er, í staðinn fyrir að vera bara heiðarlegur og einlægur um það hvernig staðan er.

  Þannig eru stofnframlög til nýs spítala talin með rekstrargjöldum í sjúkrahúsþjónustu, eins og Stundin bendir réttilega á. Séu þau skilin frá, stendur eftir rúmlega sjö milljarða aukning í sjúkrahúsþjónustu á næstu fimm árum.

  Hvað menntamálin varðar ætla ég aðeins að horfa á háskólana núna. Heildarútgjöld til þeirra hækka vissulega um u.þ.b. tvo milljarða á næsta ári, fara úr 40,3 í 42,2 og í lok tímabilsins eiga þau að vera komin í 44,3 milljarða. Í því skyni ber þó að hafa í huga að rektorarar allra háskólanna hafa sagt að það vanti átta milljarða til að ná meðaltali framlaga í OECD-ríkjunum, um framlag á hvern nemanda. Ríkisstjórnin gerir hins vegar ráð fyrir því að sú staða batni aðeins, einfaldlega af því að hún gerir ráð fyrir færri nemendum.

  Það sem sýnir okkur þó svart á hvítu hver áform núverandi ríkisstjórnar eru er þessi mynd hér:

  Hér má sjá fjármálaáætlun hægri stjórnarinnar í hnotskurn. Samneyslan, sem hluti af vergri landsframleiðslu (VLF), eykst lítillega á þessu ári, en síðan mun hún dragast saman. Árið 2021 verður hún komin undir það sem hún er í dag og verður síðan enn minni. Þetta er hægri stefna sett í mynd.

  Það dugar nefnilega skammt að horfa á krónutöluhækkanir, sem vissulega eru til staðar. Upphæðirnar hækka alltaf í takti við verðlag, kostnaðarhækkanir, fólskfjölgun og þjónustubreytingar. Hlutfallið af VLF sýnir hins vegar svart á hvítu hverjar áherslurnar eru.

  Það er margt að skoða í þessu, sem ég mun gera á næstu dögum. Það er t.d. hætt við að mörgum bregði í brún við það að sjá að á næstu fimm árum aukist fjármunir í samgöngu- og fjarskiptamál aðeins um 4,5 milljarða króna – yfir allt tímabilið.

 • Karl á kvennaþingi X – Og hvað svo? (3/19/2017)

  Kannski er það nýtilkomin þörf fyrir reglu sem tekst á við eðlislæga þörf mína fyrir kaos, en mér finnst að pistlarnir eigi að vera tíu. Og miðað við málefnið gætu þeir hæglega orðið 100, 1000, 10.000. Því miður er af nógu að taka.

  Ég er einfaldur maður og hef aldrei skilið það af hverju helmingur mannkyns standi kategórískt skör neðar hinum helmingnum. Verandi sósíalisti hef ég þá einlægu sýn að jöfnuður sé hin rétta leið. Almennt séð er ég svo naívur að ég held að í grunninn snúist þetta um að vilja að öllum líði vel og að til þess að við stöndum jafnfætis gagnvart tækifæru og aðstöðu þurfum við stundum að hugsa um eitthvað annað en okkur sjálf.

  Ég á tvö börn, son og dóttur. Sú tilhugsun að öðru þeirra verði haldið niðri, fái ekki sömu tækifæri í sömu aðstæðum, njóti ekki sömu launa, fái ekki sama framgang – sú tilhugsun er einfaldlega fáránlega. Ég veit ekkert hvað verður úr mínum börnum, en bæði eru þau föðurbetrungar, en ég veit þó að miðað við hægaganginn við það að jafna stöðu karla og kvenna munu þau vera orðin nokkuð roskin áður en fullu jafnrétti er náð.

  Hvað er hægt að gera? Ég ætla ekki að þykjast vera með öll svörin. Ég ákvað að látast ekki vita allt hér, leit á þessa ráðstefnu sem tækifæri til að kynna sér ofan í kjölinn mál sem ég þekkti þokkalega, sumt ágætlega annað síður.

  Hér hef ég lært að beinar aðgerðir eins og kvótar skila bestum árangri. Einhvers konar brauðmolakenning í kynjamálum, að markaðurinn muni laga þetta allt án lagasetninga, er jafn útópísk og hin upprunalega brauðmolakenning. Rannsókn ESB frá árinu 2012 sýna að lögboðnir kvótar skiluðu 40% aukningu á konum í áhrifastöðum (aðallega horft þar til Noregs og stjórna fyrirtækja), á meðan hvatar eins og skattaafsláttur skiluðu aðeins 5% fjölgun kvenna. Markaðurinn gerir bara það sem hann kemst upp með og hentar honum best.

  En ég hef líka lært að lög og reglugerðir eru eitt, hugarfar annað. Ómeðvitaður launamunur (finnst þetta orð eiginlega betra en óskýrður, þar sem það nær utan um að oft er þetta algjörlega ómeðvitað) hverfur ekki fyrr en það er innprentað í okkur öll að hann sé óeðlilegur. Og eitt er hausatalning, annað mæling á áhrifum. Karlarnir grúppa sig saman þó lögformlega sé jafnri, eða nánast jafnri, stöðu náð, taka ákvarðanirnar annarsstaðar, á golfvellinum, eftir ræktina, strákarnir saman.

  Þar kemur menntakerfið til sögunnar. Það þarf að uppfræða um jafnréttismál, um stöðu kynjanna, stöðu kvenna. Það verður að gera á öllum skólastigum, alveg ofan í leikskólann. Það þarf að ala upp kynslóðir sem líta á kynbundinn mun sem eitthvað af þessu skrýtna rugli sem eitt sinn viðgekkst í heiminum. Og það þarf að uppfræða fullorðið fólk líka, fólk sem trúir því að staðan sé önnur en hún er, að þetta sé bara eitthvað þus í góða fólkinu eða eitthvað.

  Þetta er í grunninn ósköp einfalt, typpi eða píka eiga ekki að skipta neinu máli. Enn er staðan þó sú að þau gera það.

  Ég flýg heim á eftir, töluvert fróðari en þegar ég kom. Þar hitti ég fyrir fólk sem veit mun meira um þessi mál en ég, fólk sem hefur barist í þessu árum og áratugum saman, hefur lagt fram frumvörp, breytt lögum, komið á reglum, beitt þrýstingi, uppfrætt, safnað gögnum og þokað málum áfram. Það fólk ætla ég að hitta, fræðast meira og finna út úr því hvað ég get gert til að hjálpa til.

 • Karl á kvennaþingi IX – Endurskilgreining vinnuhugtaksins (3/17/2017)

  Nú er nýlokið málstofu um valdeflingu kvenna í vinnu. Og eins og á öllum öðrum viðburðum kom hér fram gnótt upplýsinga og hugmynda. Eflaust ekki nýtt fyrir öllum, en allavega fyrir mér, sumt a.m.k., og allt dýpkar þetta skilninginn.

  Vinicius Pinheiro, fulltrúi Alþjóða þingmannasambandsins í New York, kynnti niðurstöður könnunar sem sýna að 70% kvenna vilja frekar vinna úti en vera heima. Þau þrjú atriði sem þær oft og tíðum hamla því eru a) léleg eða engin aðstoð við börn, b) lægri laun og minni áhrif en karlar og c) skortur á virðingu, allt frá viðmóti yfir í áreitni og ofbeldi. Þá vill meirihluti karla líka að konur vinni úti.

  En þá kemur að því hvað er vinna. Maria S. Floro, prófessor í hagfræði við American University í Washington, kom mikið inn á þetta í sínu tali og horfði sérstaklega til ólaunaðra umönnunarstarfa, sem ég hef gert að umtalsefni hér áður. Ég stóðst ekki mátið að ræða aðeins við hana eftir málstofuna og fá nánari útskýringu á orðum hennar, en hún talaði um nýja skilgreiningu á vinnuhugtakinu.

  Hún benti mér á að þessi skilgreining kemur frá Alþjóðlegu verkalýðshreyfingunni (ILO) og benti mér á hvar hana er að finna. Hér er hlekkur á þetta, fyrir þau sem vilja skoða þetta betur, en ég tók mig til og þýddi gróflega það sem mér fannst áhugaverðast við hana.

  Vinna er hver sú athöfn sem hver sem er framkvæmdir, óháð kyni eða aldri, til að framleiða vörur eða veita þjónustu sem aðrir nota, eða í eigin þágu.

  Síðan koma nokkrir punktar en þessi fyrstur:

  a) Vinna er skilgreind óháð því hvort hún er formleg eða óformleg, lögleg eða ólögleg.

  Þetta finnst mér góð skigreining á vinnu, af því að hún tekur líka til þess sem ekki er í dag viðurkennt sem vinna; ólaunuðu umönnunarstörfin svokölluðu. Ég hef áður nefnt það mat að verðmæti þeirra á heimsvísu sé tíu trilljónir Bandaríkjadaga á hverju ári, en vandamálið við mat á þessu er bæði tengt skilgreiningum og svo hvernig á að mæla.

  Og eins og áður hefur komið fram lenda þessi störf fyrst og fremst á konum.

  Floro prófessor sagði líka að hún teldi að allt of mikið væri horft til markaðslegra sjónarmiða, efnahagslegra, þegar rætt væri um vinnumál. Það þyrfti að horfa mun meira til félagslegra þátta. Það þótti sósíalistanum gott að heyra frá hagfræðingnum.

 • Karl á kvennaþingi VIII – Valdefling kvenna og friðarmál (3/17/2017)

  Nú er síðasti dagur formlegrar dagskrár okkar íslensku þingmannanna, en þingið heldur áfram í næstu viku þar sem ályktun/stefna verður samþykkt. Þó þetta hafi verið langir dagar væri ég alveg til í að vera hér áfram og komast betur inn í málin. Dagurinn í dag er undirlagður fundi Alþjóða þingmannasambandsins (IPU) um það hvernig hægt er að efla þjóðþing til þess að valdefla konur. Empowering parliaments to empower women – Making the economy work for women, er yfirskriftin.

  Nú er að skríða í hálfleik, en fyrri hlutinn hefur snúist um það hvernig hægt er að aflétta þeim hindrunum sem eru á valdeflingu kvenna. Hér hafa talað fulltrúar margra þjóða og enn einu sinni sér maður hve staðan er ólík eftir löndum. Öll eiga þau það þó sameiginlegt að konur njóta ekki jafnréttis.

  Undirliggjandi þemað eru sjálfbærnimarkmið SÞ fyrir 2030. Þar er sérstaklega horft til markmiðs númer fimm: Jafnrétti kynjanna og valdefling kvenna. Tryggja jafnrétti kynjanna og vadleflingu allra kvenna og stúlkna, en ekki síður númer átta sem fjallar um hagvöxt. Hagvöxtur: Stuðla að varanlegum sjálfbærum hagvexti án aðgreiningar, fullri, arðbærri og mannsæmandi atvinnu fyrir alla.

  Fulltrúi Finnlands benti einmitt á að það væri ekki bara nóg að fjölga konum á þjóðþingum, þó það eitt og sér væri gríðarlega mikilvægt. Konur þyrftu að koma beint að ákvörðunum um efnahagsmál, bæði innan þinga og ríkisstjórna. Það kallast á við það sem rætt var um á málstofu sem ég var á í gær; nefnilega að það væri munur á hausatalningu og því að mæla áhrif. Það þyrfti ekki bara að fjölga konum í stjórnmálum, heldur konum í áhrifastöðum í stjórnmálum.

  Samhljómur er um nauðsyn þess að menntakerfið gegni lykilhlutverki í því að ná þessum markmiðum. Þar komi hið félagslega kerfi inn í líka; velferðarkerfið og stuðningur við barnafjölskyldur og barnagæsla.

  Mér til mikillar gleði er einnig horft til sjálfbærnimarkmiðs númer 16, en það lýtur að friðarmálum:

  Friður og réttlæti: Stuðla að friðsælum samfélögum án aðgreiningar fyrir sjálfbæra þróun, gefa öllum aðgang að réttlæti og koma á fót skilvirkum, ábyrgum stofnunum án aðgreiningar á öllum stigum.

  Friði og stöðugleika verður ekki komið á nema með þátttöku allra í samfélögum og þar gegnir þátttaka kvenna lykilatriði.

  Hér eru þingmenn brýndir til verka; víða þarf að setja lög til að tryggja rétt kvenna, afnema lög sem takmarka þann rétt eða breyta lögum svo jafnrétti sé náð. Mikið verk er að vinna ef sjálfbærnimarkmiðunum á að ná, því 2030 er nú bara handan við hornið.

 • Karl á kvennaþingi VII – ólaunuðu umönnunarstörfin (3/16/2017)

  Nú er dauður tími á ráðstefnunni, verið að bíða eftir því að fara í kokteilboð hjá fastafulltrúa Íslands hjá SÞ. Ég játa að slík boð eru ekki endilega mitt uppáhald, en ég skellti mér þó í betri fötin og mun brosa og spjalla. Dauðan tíma er hins vegar best að nýta til skrifa.

  Í gær sat ég málstofu um ólaunuð umönnunarstörf. Það var upplýsandi, eins og annað hér. Samkvæmt ILO (Alþjóðlegu verkalýðshreyfingunni) er verðmæti þeirra metið á 10 trilljónir Bandaríkjadala á ári hverju. Og allsstaðar eru það konur sem sinna þeim í miklum meirihluta.

  Gary Barker frá Promundo sagði að það ætti einfaldlega að vera markmið á heimsvísu að karlmenn sinntu helmingi þessara starfa. Víða er þó langt í land og þar er Ísland engin undantekning. Konur í öllum tekjubilum sinna þessum störfum mun meira hér en karlar.

  Puma Sen frá UN Women minnti svo á að það er ekki bara að þetta séu ólaunuð störf, heldur fylgir þeim ýmiss kostnaður sem aldrei er reiknaður. Rafmagn, ferðalög og ýmislegt fleira sem leggja þarf út fyrir.

  Jæja, nú er verið að hóa á okkur í blessað boðið og því verður þetta í styttra lagi að þessu sinni (kannski fagna því einhver…).

 • Karl á kvennaþingi VI – Misskiptingin (3/16/2017)

  Og áfram heldur kvennaþingið. Viðburðir frá morgni til kvölds, viltu mæta 8.15, 9, 10? Viltu vera á fyrirlestrum fram að kvöldmat, eða fram yfir? Um hvað viltu fræðast? Viltu hlusta á umræður um hatursorðræðu gegn konum, hvernig við aukum hlutfall kvenna í karllægum störfum, fræðast um mansal, hlusta á umræður um staðgöngumæðrun, kynjakvóta eða stafrænt kynferðisofbeldi eða umfjöllun um ólaunuð umönnunarstörf. Eða viltu elta íslensku sendinefndina?

  Ég ákvað að gera allavega ekki það síðasta, enda þarf ég ekki að fara til New York til að fræðast um það sem er á seyði í íslenskri stjórnsýslu. Hef þó mætt á eitthvað af viðburðunum og það verður að hrósa íslensku sendinefndinni fyrir vel unnin störf.

  Ég verð hins vegar að játa að ég er dálítið eins og krakki í dótabúð hérna. Þó ég hafi einhverja þekkingu á einhverju hér, er það ómetanlegt að geta sest inn á hvern viðburðinn á fætur öðrum og hlustað á reynslusögur og fólk sem er að takast á við vandamálin. Og fræðast.

  Í morgun fór ég á málstofu um stöðu kvenna í kakórækt í Gana og hvernig hægt er að efla þær efnahagslega (economic empowerment, hvernig þýðir maður það?). Það var mjög fróðlegt, bæði hvað varðar stöðu kvenna almennt og svo auðvitað í Gana.

  Þarna kom til dæmis fram að á heimsvísu leggja konur fram 66% vinnuframlagsins og þær framleiða 50% matvæla. Þær fá hins vegar aðeins 10% launanna og eignarhald þeirra nemur 1%. Þetta vissi ég ekki, en þetta er magnaður andskoti. Hvernig getur þetta verið svona?

  Í Gana eru konur 75% af landbúnaðarverkafólki og framleiða 90% matvæla. Það er hæsta hlutfall í heimi, sagði Patricia Appiagyei, kollegi minn á þingi Gana. Karlar eiga hins vegar 75% býlanna, konur fjórðung.

  Óréttlætið er víða og ég ætla að taka það með mér héðan að leggja mitt af mörkum til að berjast gegn því.