• Viðreisn vann fullnaðarsigur (1/10/2017)

  Þá erum við komin með nýja ríkisstjórn, til hamingju með það. Flokksstofnanir stjórnarflokkanna þriggja samþykktu allar þann sáttmála sem liggur fyrir og samkvæmt fréttum var það aðeins í Bjartri framtíð sem það var ekki gert samhljóða.

  Það er nokkuð athyglisvert að Viðreisn skuli hafa samþykkt sáttmálann og virðist svona hoppandi kát með þetta allt saman. Það er ekki langt síðan flokkurinn reyndi að kenna Vinstri grænum um að upp úr fimm flokka viðræðunum hefði slitnað vegna þess að ekki náðist að semja við okkur um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál, ekki bara einu sinni, heldur tvisvar. Reyndi að kenna um, segi ég, einmitt vegna þess að þetta var tilraun til þess að hagræða sannleikanum og koma sökinni á aðra. Allt of mörg gleyptu við þessu, en skoðum aðeins stjórnarsáttmála nýju ríkisstjórnarinnar þar sem hann tekur af allan vafa um að þetta var aðeins fyrirsláttur hjá Viðreisn.

  Benedikt Jóhannesson talaði um að ekki hefði tekist að semja um kerfisbreytingar í þessum tveimur málaflokkum og nefndi Vinstri græn sem sökudólginn. Hvaða kerfisbreytinga er að vænta í stjórnarsáttmálanum í þessum málaflokkum?

  Sjávarútvegsmálin voru, í orði, forgangsmál Viðreisnar í kosningabaráttunni. Kerfisbreytingar var orðið. Ekki er annað að sjá að engar kerfisbreytingar verði hjá nýju ríkisstjórninni. Ekki verður hróflað við kvótakerfinu, þó kannski verði einhverjar lagfæringar gerðar. Þetta er verri samningur en náðst hafði í fimm flokka viðræðunum, þar sem samstaða hafði náðst um innköllun veiðiheimilda. Aðeins átti eftir að semja um hvernig endurúthlutuninni yrði háttað.

  Landbúnaðarmálin á að endurskoða í tíð nýju ríkisstjórnarinnar. Nema hvað, það er beinlínis bundið í lög með nýsamþykktum búvörusamningi að það skuli gert á næstu þremur árum. Það er ekki mikill sigur í stjórnarmyndunarviðræðum að ná því í gegn að farið verði eftir lögum. Meðal þess sem á að skoða er að afnema undanþágu MS frá samkeppnislögum og opna á meiri innflutning. Í fimm flokka viðræðunum var samstaða um að fara í heildarendurskoðun á landbúnaðarkerfinu, það átti eftir að semja um tímann, yrði það á einu ári eða þremur, en samstaða var um að taka allt kerfið til skoðunar, m.a. út frá umhverfissjónarmiðum. Undanþága MS stóð út af borðinu, en fullkominn skilningur var á því að skoða ástæðu hennar og hvort hún væri enn í gildi og hvort ná mætti markmiðum hennar fram með öðrum hætti, en þau eru að mjólkin sé sótt á sama verði til bænda hvert sem er og seld á sama verði hvar sem er. Hvað meiri innflutning varðar þá stóð það vissulega út af borðinu, en þó var samstaða um að hvað hann varðaði yrðu gerðar sömu kröfur og með innlenda framleiðslu hvað varðar merkingar, dýravelferð og lyfjanotkun. Um þetta átti þó eftir að semja.

  Af þessu má sjá að það var fullkominn fyrirsláttur hjá Viðreisn að fimm flokka viðræðurnar hafi strandað á sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Þær strönduðu nefnilega á ríkisútgjöldum og tekjuöflun. Þar stóð Viðreisn þvert gegn hugmyndum um aukna tekjuöflun ríkisins, ekki síst hækkun á sköttum á þá sem best standa.

  Maður á að segja satt. Benedikt Jóhannesson sagði, á blaðamannafundinum áðan, eftirfarandi:

  Það sem við stöndum frammi fyrir núna er að ákveða það hvernig getum við fengið gjald þar sem verður sátt um, gjald sem endurspeglar afkomu greinarinnar á hverjum tíma og skipti með sem réttlátustum hætti afrakstrinum af veiðunum á milli þjóðarinnar og þeirra sem stunda sjóinn. Þannig að þetta er það sem við erum með. Það var í sjálfu sér vitað fyrir fram að það var ekki nákvæmlega sama stefna hjá öllum flokkunum í þessu máli. En það kom fljótlega á daginn líka að það var enginn flokkanna með fyrir fram andstöðu við að breyta því sem núna er. Við sögðum það alltaf að þegar við vorum að kynna okkar stefnu fyrir fram, við leggjum mikla áherslu á markaðstengingu, að við værum ekki með neina eina ákveðna leið heldur legðum meiri áherslu á það að ná leið sem næði þessum markmiðum en væri sem víðtækust sátt um. Bæði á milli stjórnmálaflokkanna og við greinina sjálfa.

  Þetta er ekki í samræmi við það sem gerðist í fimm flokka viðæðunum. Ef þessi sátt sem Benedikt talar nú um, nýgenginn í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, hefði verið málið og þetta aðeins snúist um að skipta afrakstrinum af veiðunum á milli þjóðarinnar og þeirra sem stunda sjóinn, þá hefði verið hægt að hækka veiðigjöldin með einfaldri lagasamþykkt. Það var einmitt krafa Viðreisnar um að markaðurinn ætti að ráða sem gerði þær viðræður flóknar. Viðreisn féll hins vegar frá þeirri kröfu þegar kom að viðræðum við Sjálfstæðisflokkinn, eins og stjórnarsáttmálinn ber með sér.

  Nýi stjórnarsáttmálinn er fullkominn sigur fyrir Viðreisn, því að raunverulegt hlutverk flokksins var ekki að standa fyrir kerfisbreytingum heldur einmitt öfugt, að standa varðstöðu um skattkerfið eins og það er. Það tókst fullkomlega, enda mikill samhljómur með Sjálfstæðisflokknum hvað það varðar og Björt framtíð fylgdi með.

  Þessi ríkisstjórn hefur legið í loftinu frá því daginn eftir kjördag og litað allar aðrar viðræður. Vonandi hættir fólk nú að gleypa hráan áróður um að allt þetta sé nú á einhvern hátt Vinstri grænum að kenna. Markmiðið hjá Viðreisn virðist alltaf hafa verið að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og það tókst.

  Viðbót kl. 17:28. Það er kannski rétt að taka það fram, áður en einhver bendir mér á það, að ég nota hér orðin kerfisbreytingar og varðstaða af sama innihaldsleysinu og ég hef gagnrýnt áður. Það er með vilja gert, en kaldhæðnin skilar sér illa nema lesendur sjái inn í huga minn. Trauðla er svo.

 • Föllum frá frösunum (1/6/2017)

  Einfaldleikinn er oftar en ekki bestur. Þessi viska hefur opinberast mér eftir því sem árin færast yfir, nú nýt ég mín til að mynda mun betur í einföldu lífi en flóknu, ég þarf ekki lengur flugeldasýningar í lífinu til að njóta mín og hvað tónlist varðar hef ég lagt flóknu taktskiptingatónlistina á hilluna og hlýði frekar á eitthvað einfaldara. Á einu sviði getur þó beinlínis verið hættulegt að einfalda hlutina um of, sviði sem ég hef stigið inn á, nefnilega því pólitíska.

  Sú hugsun hefur leitað æ meira á huga minn undanfarna mánuði að það skorti á alvöru umræðu um hugmyndafræði. Um þetta hef ég áður skrifað og mun án efa gera aftur. Það sem ýtir við mér núna eru umræður sem ég átti í um daginn þar sem það að ég kallaði það frasakennda umræðu þegar fólk notaði orð eins og kerfisbreytingar, án þess að rökstyðja nokkuð betur við hvað væri átt.

  Þó kerfisbreytingar sé ekki tilnefnt sem eitt af orðum ársins á Rúv, þá hefur þetta orð tröllriðið pólitískri umræðu undanfarið. Kerfisbreytingar eru af hinu góða, þ.e.a.s. það er alltaf gott að setjast yfir þau kerfi sem við búum við, vega og meta og sjá hvort ekki er hægt að gera betri. Það hlýtur enda að vera hlutverk allra í stjórnmálum að breyta til batnaðar og stundum þarf beinlínis að henda einhverju út og koma upp nýju kerfi.

  Anarkískum huga eins og mínum gengur stundum illa að sætta sig við að heimurinn er uppfullur af alls kyns kerfum, við setjum reglur og lög um hvernig hlutirnir eiga að virka, siðir og venjur skapa kerfi. Þess vegna er öll umræða um stjórnmál í raun umræða um kerfisbreytingar.

  En einmitt þess vegna tel ég það vera eina helstu meinsemd íslenskra stjórnmála í dag að hún er of mikið á yfirborðinu, það er meira talað um nauðsyn óskilgreindra kerfisbreytinga en hvernig í raun á að breyta. Það er nóg að segja: „Minn flokkur er kerfisbreytingaflokkur, við viljum kerfisbreytingar. Þessi flokkur vill það ekki.“ Og þá er maður búinn að setja sjálfan sig á stall um leið og hinn er settur niður. En hvaða breytingar er það sem maður vill? Allt of sjaldan fylgir það sögunni og enn sjaldnar að hinn flokkurinn vill líka breytingar; bara ekki endilega þær sömu og maður sjálfur.

  Þetta hefur verið sérstaklega áberandi í stjórnarmyndunarviðræðum undanfarinna mánaða. Í stað þess að ræða grundigt um það hvernig best er að útfæra þau kerfi sem samfélaginu eru sett, þá komast stjórnmálamenn allt of oft upp með að súmmera málin upp í þetta orð, kerfisbreytingar. Og við það verður orðið að frasa. Og frasar eru ekki góð latína í pólitík.

  Tökum eitt dæmi. Gefum okkur að í sumum tilfellum eigi orðið kerfisbreytingar við sjávarútveg. Þá standa eftir ótal spurningar sem ekki verður svarað með því að segja að einhver vilji kerfisbreytingar en annar ekki.  Hvað vilja flokkarnir t.d. varðandi aflaheimildir? Hversu mörg prósent á að kalla inn á hverju ári, á að bjóða þau hæstbjóðanda? Á að setja hömlur á hverjir geta keypt? Verður þetta eitthvað byggðatengt og ef ekki hvernig á þá að taka á því ef byggðalög missa kvótann? Eða á ekki að taka á því? Mega útlendingar kaupa aflaheimildir? Verður þak á magnið sem hver getur eignast, t.d. 12%? Gildir þetta líka um strandveiðar, á að innkalla þær heimildir og bjóða upp á markaði? Hvað á að gera við peningana sem fást? Hvað á að gera við veiðigjöldin? Sumir vilja að þau falli niður við innköllun, en það þýðir að fyrsta kastið koma lægri fjármunir í ríkissjóð, en svo hækkar það með fleiri innkölluðum heimildum. Hvernig á að brúa það bil í ríkisjármálum? Á kannski að hækka veiðigjöldin strax til að fá peninga inn strax? Setja sérstakt álag á stórar útgerðir sem hafa vel borð fyrir báru og setja þann pening í heilbrigðiskerfið? Hvert er markmið okkar með aðgerðunum? Er það að fá meiri fjármuni inn í sameiginlega sjóði fyrir notkun á auðlindum þjóðarinnar? Eða er það prinsippmál að þegar að úthlutun aflaheimilda kemur verði markaðurinn að ráða?

  Þetta er engan veginn tæmandi listi, spurningarnar eru mun fleiri, en hvar er opinbera umræðan um þetta? Allt þetta eru rammpólitískar spurningar og það er ansi ódýrt að afgreiða það þannig að þau sem eru á ákveðinni skoðun varðandi einhverjar af þessum fjölmörgu spurningum séu bara á móti kerfisbreytingum, eða grundvallarbreytingum eða hvað það nú er sem við viljum kalla þetta. Það er einfaldlega ekki satt.

  Og það er alveg á hreinu að við meinum ekki öll það sama þegar talað er um kerfisbreytingar. Vinstri græn hafa til að mynda talað fyrir nauðsyn þess að gera kerfisbreytingar þegar kemur að skattkerfinu. Að það verði að falla frá skattkerfi Bjarna Benediktssonar sem er kerfi sem nýtist þeim 20% sem best hafa það betur en öðrum. Ekki hefur tekist að ná samstöðu við aðra flokka um þessar nauðsynlegu kerfisbreytingar, en það er ekki af því að hinir flokkarnir séu á móti kerfisbreytingum. Það er af því að þeir hafa aðra pólitík en við og pólitík rúmast ekki í einu orði.

  Ég held að við séum flest í stjórnmálum vegna þess að við höfum ákveðnar hugmyndir um hvernig hægt er að gera samfélagið betra. Við höfum hins vegar ólíka skoðun á því hvað er best fyrir samfélagið. Og við höfum okkar prinsipp, hvert og eitt. Vinstri græn hafa það prinsipp að þegar að tekjuöflun og útgjöldum ríkisins kemur, eigi að fara eftir hugmyndafræði jöfnuðar. Sósíalískum hugmyndum, svo gripið sé til orðs sem gæti orðið næsta tískuorð pólitískrar orðræðu. Aðrir flokkar hafa önnur prinsipp og flokkar standa misfast á þeim. Fregnir af yfirstandandi stjórnarmyndunarviðræðum gefa a.m.k. ekki til kynna að Viðreisn og Björt framtíð haldi fast í sín prinsipp þegar kemur að sjávarútvegi og kvótakerfinu. Og ættum við að hafa það í huga þegar við veltum því fyrir okkur á hverju raunverulega hafi strandað í viðræðum flokkanna fimm; trauðla gildir annað hjá Viðreisn og Bjartri framtíð um prinsippin í þeim en viðræðum við Sjálfstæðisflokkinn. En, án efa meta þeir flokkar það þannig að þeir fái nægilega mikið af sínum málum inn í stjórnarsáttmálann í staðinn og fallast því á þetta.

  Þetta er orðið langt, en þyrfti að vera mun lengra. Og tíðara. Því það er aðeins með alvöru umræðu um pólitík sem við náum fram þeim kerfisbreytingum sem okkur eru svo tamar á tungu. Ekki með því að nota orð eins og frasa, heldur með því að ræða raunverulega það sem að baki orðunum býr.

 • Ákall um ómöguleika (12/25/2016)

  Það hefur verið gríðarlega lærdómsríkt að vera kjörinn á þing, bæði hvað varðar þingstörfin sjálf en ekki síst þegar að stjórnarmyndunarviðræðum kemur. Þar hefur á ýmsu gengið. Hvað okkur Vinstri græn varðar sýnist mér, miðað við umræðuna undanfarnar vikur, vera uppi hávært kall um ómöguleika.

  Mér sýnist krafan vera þessi:

  Við megum ekki láta viðræður brjóta á auknum ríkisútgjöldum, og nauðsynlegri tekjuöflun, en við afgreiðslu fjárlaga eigum við einmitt að láta brjóta á auknum ríkisútgjöldum og nauðsynlegri tekjuöflun.

  Við megum ekki ræða við Sjálfstæðisflokkinn (sem við höfum ekki formlega gert), en málefnin hrein og tær eiga að ráða för.

  Við eigum að mynda vinstristjórn, þó að vinstrið sé ekki í meirihluta á þingi. Krafan virðist vera sú að flokkar hægra megin við miðju verði allt í einu miðjuflokkar og þannig eigum við að semja við þá.

  Við eigum að standa fast á kröfum okkar um félagslegar áherslur og uppbyggingu innviða, velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfis, en samt að mynda ríkisstjórn.

  Við berum ábyrgð á ríkisstjórn sem við mögulega myndum, en líka á ríkisstjórn sem einhverjir aðrir flokkar gætu verið að mynda.

  Nú er víst árstíð kraftaverkanna og kannski eitt slíkt gerist og það takist að hrista saman hæfilega blöndu olíu og vatns, með hæfilegum skammti af dyn kattarins, rótum bjargsins, anda fisksins og fugls hráka.

  En hvað sem gerist efa ég ekki að það verður áfram hlutverk mitt og annarra stjórnmálamanna að svara fyrir ólíkar kröfur sem ekki geta farið saman. Um það snýst víst pólitíkin og okkar er að standa undir því.

  Gleðileg jól.

 • Af stjórnarmyndun II (12/15/2016)

  Það hefur verið gríðarlega lærdómsríkt að taka þátt í viðræðum um stjórnarmyndun. Að mörgu leyti hafa þær verið góðar, flokkar hafa skilgreint betur hvað þeir eru tilbúnir að gera og hvað ekki, en að mörgu leyti ekki. Það á ekki síður við eftirmála þeirra. Ég trúi því staðfastlega að fólk eigi að koma hreint fram, það eigi ekki að segja það sem hentugra reynist. Síðustu daga hef ég því miður orðið vitni af því allt of oft að fólk sem vill láta líta á sig sem fulltrúa nýrra tíma, nýrra stjórnmála, á ekki í vandræðum með að hagræða sannleikanum ef það hentar og gefa eitthvað í skyn sem ekki er sannleikanum samkvæmt.

  Hér mun ég fara yfir þessar viðræður og eftirmála þeirra. Ég bið lesendur að hafa í huga að þetta er mín upplifun, en ég get þó lofað því að allt sem ég segi hér tel ég vera sannleikanum samkvæmt. Ég byggi þessa yfirferð á fundum, bæði innan þingflokks Vinstri grænna og í málefnahópi sem fór yfir sjávarútvegs- og landbúnaðarmál, og þeim gögnum sem send voru á milli flokka sem grunnur að mögulegu samkomulagi.

  Vel má vera að einhverjum finnist ég segja of mikið og ég verði gagnrýndur fyrir það. Ég tel mig þó hvergi vera að rjúfa trúnað. Þá finnst mér einfaldlega að stjórnmálamenn eigi að segja satt og rétt frá og ef það er eitthvað sem ég held að við eigum að taka út úr stjórnmálaumræðunni eftir hrun, og þá ekki síst aðdraganda síðustu kosninga, þá er það að virða kröfu um gagnsæi og heiðarleika.

  Slit fyrri viðræðna

  Sagan hefst í raun 18. nóvember þegar ákveðið var að flokkarnir fimm, Vinstri græn, Samfylking, Píratar, Björt framtíð og Viðreisn, ákváðu að fara saman í viðræður, en Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, var með umboðið. Þeim viðræðum hef ég þegar gert ítarleg skil og því ekki mikið meira um þær að segja, í bili.

  Þá kemur að þeim þætti að flokkarnir þurftu að útskýra á hverju viðræðurnar, hinar fyrri, hefðu strandað. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, tiltók í fréttum Rúv um kvöldið þrjú mál; sjávarútveg, landbúnað og ríkisfjármál:

  Það er líklegast lengst á milli í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum þar sem við höfum verið [með] svona ýmsar kerfisbreytingar á okkar stefnuskrá. Og svo kom nú í ljós þegar að verði væri að skoða ríkisfjármálin að þar stóð ríkið ekki eins vel og við héldum í upphafi. Þannig að það leiddi af sér að til þess að geta [gert] breytingar þá þurftu menn að fara í skattahækkanir sem stóðu svolítið í okkur.

  Næstu daga fór af stað mikill spuni í þá veru að strandað hefði á sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum, Vinstri græn væru á móti kerfisbreytingum og ég veit ekki hvað, argasta íhald í þessum málum og vildi bara varðstöðu.

  En er það svo? Strandaði í raun á sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum í fyrri viðræðunum? Gefum Smára McCarthy orðið, en hann kom í viðtal við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur, þingfréttamann Rúv, strax á eftir Benedikt, eftir að viðræðunum hafði verið slitið 22. nóvember.

  En síðan þegar til kastanna kom þá voru eiginlega langflestir flokkar búnir [að gefa] töluvert eftir, en til dæmis bara sem dæmi, þá er alveg rangt að það hafi strandað á sjávarútvegsmálum. Það er bara Vinstri græn komu mikið til móts við okkur í því, að landbúnaðarmál, hafi strandað á því, það var ekki einu sinni komið almennilega til umræðu. Þannig að það er rangt að taka einhvern veginn þannig í hæðina. Það sem að er hins vegar er málið, er að þegar kom til þess að Viðreisn þurfti að bakka aðeins, gefa aðeins eftir, einhvern veginn miðla málum þá voru þau algjörlega ótilbúin til þess.

  Ég skil vel að einhverjir vantreysti fulltrúum flokka þegar þeir skýra út á hverju strandaði. Það er mannlegt eðli að reyna að koma sem best út úr aðstæðum og því skil ég vel fólk sem tekur því með fyrirvara sem ég og önnur í Vinstri grænum segjum um okkar flokk og sem fólk í Viðreisn, svo dæmi sé tekið, segir um sinn flokk. En hér er þingmaður Pírata að tjá sig um Viðreisn og Vinstri græn og ætti að geta lagt nokkuð hlutlaust mat á málin.

  Viðræður enar síðari

  Leið nú og beið og Birgitta Jónsdóttir fékk umboðið föstudaginn 2. desember. Það var vel og enn betra að hún skildi vilja endurvekja viðræður flokkanna fimm, en það ríkisstjórnarmynstur var fyrsta val okkar Vinstri grænna eins og við sýndum í verki.

  Viðræðurnar hófust á ný og annar blær var á þeim en áður. Það skýrist bæði af því að fljótlega hófust þingfundir sem settu strik í reikninginn, en líka bara af þeirri staðreynd að fólk er mismunandi og viðræður undir stjórn Pírata eru öðruvísi en undir stjórn Vinstri grænna.

  Ég játa það fúslega að ég klóraði mér oft í kollinum yfir því hvernig haldið var á málum, löngum tíma eytt í að kynnast, efla andann og brýna hópinn, og sú leið farin að kalla ekki til fólk úr flokkunum til að vinna að málefnum. Þetta eru vinnubrögð sem ég á ekki að venjast, en ég reyni að vera tilbúinn til að læra eitthvað nýtt og vera ekki íhaldskurfur í hugsun og ég lærði ýmislegt nýtt á verkstjórn Pírata.

  Það er kannski rétt að minna á það að viðræðurnar voru óformlegar. Þingflokkur Vinstri grænna samþykkti þó strax í upphafi þeirra umboð til formanns flokksins um að ganga til formlegra viðræðna við hina flokkana fjóra. Þegar til kom reyndust aðrir flokkar þó ekki tilbúnir í formlegar viðræður, þannig að þær voru óformlegar, þar til yfir lauk.

  Formenn hittust og ræddu málin, byggðu þar á vinnu fyrri viðræðna, en að sjálfsögðu voru þetta nýjar viðræður, ný nálgun og ný vinnubrögð. Hjá okkur í Vinstri grænum var það þannig að við í þingflokknum fengum reglulega skýrslu um viðræðurnar.

  Á föstudaginn var svo kallað til málefnavinnu þar sem nokkrir úr hverjum flokki komu að málum. Fyrst voru tekin fyrir sjávarútvegsmál. Sjálfur sat ég ekki þá fundi, en fékk skýrslur af þeim og sá plöggin sem lögð voru fram og urðu þar til. Hvað þau mál varðar er einfaldast að vísa í frétt Kjarnans um málið, en þar er vísað í umrætt plagg.

  Stóru tíðindin þar eru að grunnur hafði náðst að sátt um að hefja innköllun aflaheimilda. Það er risastórt skref og hefði þótt miklum pólitískum tíðindum sæta hefði náðst saman um stjórnina. Það hvað síðan átti að gera við heimildirnar var enn óútkljáð. Viðreisn hefur talað fyrir uppboði og nýtingarrétti til allt að 33 ára. Við í Vinstri grænum teljum það allt of langan tíma og það geti jafnvel skapað hefðarétt. Það er með öðrum orðum, að mínu viti, ákveðin spurning hvort svo löng ráðstöfun sé ekki í raun dulin einkavæðing. Við í Vinstri grænum höfum talað fyrir mun skemmri leigutíma og viljum horfa til þess sem frændur okkar Færeyingar hafa gert í þeim efnum.

  Á sunnudag var ég kallaður inn á fund málefnahópsins sem þá hafði lokið umæðum um sjávarútveg og sneri sér nú að landbúnaðarmálum. Hann hófst á því að Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG, lýsti þeirri skoðun sinni eftir sjávarútvegsumræðuna að staðan væri alls ekki þannig að fjórir flokkar væru sammála gegn VG. Undir þetta tóku aðrir fulltrúar og sú skoðun kom fram frá öðrum að mikilvægt væri að enginn einn flokkur yrði einangraður, það væri ekki sanngjarnt, auk þess sem ákveðinn samhljómur væri um þörf fyrir grundvallarbreytingar.

  Við tóku umræður um landbúnaðarmál. Þar var mikill samhljómur og fulltrúar allra flokka lýstu því yfir að þeir vildu breytingar á kerfinu. Allir tiltóku að ekki væri verið að leggja til minni stuðning til bænda, heldur breyta fyrirkomulaginu. Allir voru sammála um að það þyrfti að fara í heildarendurskoðun á landbúnaðaramálum, en ekki var eining um hvort hún ætti að fara fram á þremur árum eða einu. Sjálfur hélt ég því fram að ef ætti að fara í allsherjar endurskoðun á landbúnaðarkerfi Íslands væri ekki rétt að búa sér til óþarfa tímapressu og því gæti verið skynsamlegt að nýta þau þrjú ár sem búnaðarsamningur fráfarandi ríkisstjórnar gerir ráð fyrir.

  Aðallega stóðu tvö mál út af í landbúnaði og þegar ég segi stóðu út af, þá á ég við að það átti einfaldlega eftir að ræða þau betur og þeim var vísað til formanna. Þau tvö mál voru undanþága MS frá samkeppnislögum og aukinn innflutningur.

  Sjónarmið okkar í Vinstri grænum er að skoða eigi hvaða forsendur búa að baki undanþágunni, hvort þær eigi enn við og hvort þá sé mögulega unnt að ná markmiðunum fram á annan hátt. Undanþágan er ekkert sérstakt mál fyrir okkur, en við viljum skoða markmiðið sem lýtur að því að mjólk sé sótt til bænda á sama verði hvar sem er á landinu og seld á sama verði hvar sem er. Hvað aukinn innflutning varðar lögðum við mikla áherslu á upprunamerkingar, heilbrigðismál og neytendavernd og vorum ekki tilbúin til að fallast á að opnað yrði algjörlega fyrir innflutning landbúnaðarafurða. Við í Vinstri grænum erum andsnúin algjörlega óheftum innflutningi landbúnaðarafurða, ekki síst út frá sjónarmiðum um umhverfismál, dýravelferð og lýðheilsu. Hér var vissulega meiningarmunur, en þetta þurfti að ræðast betur og fór þannig til formanna. Ég vil þó taka það skýrt fram að í viðræðuhópnum komu fram sjónarmið frá öðrum flokkum um fæðu- og matvælaöryggi, þannig að það var ekki þannig að það væri VG á móti rest.

  Það kom mér því gríðarlega á óvart að lesa það haft eftir Björt Ólafsdóttur, sem setið hafði í viðræðuhópnum fyrir hönd Bjartrar framtíðar, á mánudeginum að fjórir af fimm flokkum væru samstíga. Enn frekar kom mér á óvart að hún sagði þá flokka fjóra vera „framsýna“ sem væntanlega þýðir að sá fimmti, Vinstri græn, séu afturhaldsflokkur, eða hvað? Þessi lýsing á samhug hinna flokkanna fjögurra er ekki í neinu samræmi við mína upplifun af fundi málefnahópsins.

  Ýmislegt er sagt í pólitík og það þýðir ekki að móðgast yfir því, stjórnmálafólk þarf að setja aðra hagsmuni þar ofar. Stjórnarsamstarf byggir hins vegar á trausti og þessi ummæli Bjartar Ólafsdóttur sýndu mér svart á hvítu að hún treysti ekki Vinstri grænum, taldi þá afturhald. Það hvað mér fannst hún fara frjálslega með sannleikann gerði það líka að verkum að traust mitt til hennar rýrnaði. Þegar ég sá þessi ummæli hugsaði ég með mér að það væri greinilegt að hún vildi ekki þessar viðræður og væri byrjuð á pr-vinnunni til að kenna Vinstri grænum um viðræðuslit. Það getur verið kolrangt mat hjá mér, en þá þanka vöktu orð hennar.

  Veðrabrigði

  En snúum okkur aftur að sunnudeginum. Þingflokkar funduðu á sunnudagskvöld og þar ræddum við í Vinstri grænum næstu skref. Þar skiptu ríkisfjármálin höfuðmáli. Við höfðum lagt fram okkar sýn á það hver fjárþörfin væri ef flokkarnir ættu að standa við loforð sín um uppbyggingu í heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfi, sem og almenna innviðauppbyggingu. Samanlagt 27,5 milljarða á árinu 2017, ekki síst vegna þess að samgönguáætlun var algjörlega ófjármögnuð og setti okkur frekari skorður. Þá er ótalið hvað átti að gera það sem eftir lifði kjörtímabilsins.

  Vinstri græn höfðu lagt fram ýmsar tillögur um tekjuöflun á kjörtímabilinu, hátekjuskatt, auðlegðarskatt, frestun á breytingu skattþrepa, sykurskatt, en ekki matarskatt eins og Birgitta Jónsdóttir hefur fullyrt og alls ekki hækkun á almennun tekjuskatti eins og Benedikt Jóhannesson hefur sagt vera nauðsynlegan til að standa undir útgjöldunum. Raunar er ekki hægt að skilja varaformann Viðreisnar, Jónu Sólveigu Elínardóttur, í grein í Kjarnanum í dag öðruvísi en að það hafi verið hugmynd Viðreisnar að hækka tekjuskattinn um 3%. Það er athyglisvert, enda kemur slík hækkun þeim verst sem lægstu launin hafa, en gott að Jóna Sólveig tiltekur að við í Vinstri grænum höfum verið á móti þessu. Það er lauk-, kór- og hárrétt.

  Sjálfur hef ég haft efasemdir um hvort hægt væri að fara í stjórnarsamstarf án þess að fá fram skýran vilja allra flokka til nauðsynlegrar tekjuöflunar. Ég hef ekki séð útfærðar hugmyndir hinna flokkanna fjögurra um hvernig á að afla tekna til nauðsynlegra útgjalda og skýra sýn á þróun útgjalda til næstu ára og sting því að fjölmiðlafólki hvort ekki sé rétt að fara fram á slíkar tillögur?

  Fundinum var frestað og haldið áfram á mánudegi. Við í Vinstri grænum töldum að það hlyti að vera prófsteinn á mögulegt samstarf að flokkarnir næðu saman um afgreiðslu fjárlaga 2017, sem og sýn á ríkisfjármálaáætlun til næstu fimm ára. Næðist saman um þau mál, værum við tilbúin í formlegar viðræður. Vera kann að einhverjum þyki þetta ósanngjörn skilyrði, en ég segi fyrir mína parta að fjárlög eru mikilvægasta frumvarp hverrar ríkisstjórnar. Þar dregur hún upp rammann um það samfélag sem hún vill sjá. Séu flokkar ekki samstiga um aðgerðir, beri svo gríðarlega mikið á milli sem raun bar vitni, þá er betur heima setið en af stað farið. Og það hvernig ríkisstjórn sér ríkisfjármálin fyrir sér til framtíðar, hvaða sýn hún hefur á þróun útgjalda til heilbrigðis-, mennta- og velferðarmála, svo dæmi séu nefnd, er lykilatriði.

  Þetta var til umræðu hjá okkur þegar formaður flokksins upplýsti að beðið hefði verið um fund hennar, Benedikts Jóhannessonar, formanns Viðreisnar, og Óttars Proppé, formanns Bjartrar framtíðar. Að þeim fundi loknum héldu þau þrjú á fund formanna flokkanna fimm og í kjölfar hans var tilkynnt um að ekki yrði farið í formlegar viðræður.

  Við höfum engan áhuga á því að láta einhvern sitja uppi sem sökudólg, þó að ekki hafi náðst saman. Það að flokkar með ólíka pólitík nái ekki saman getur einfaldlega verið eðlilegur hlutur, fólk er ekki tilbúið til að gefa allt eftir. Þar er enginn flokkur betri en annar og skoðanir allra og pólitík jafn rétthá.

  Nú bið ég lesendur sem enn trúa því að strandað hafi á sjávarútvegsmálum að velta eftirfarandi fyrir sér. Eftir fyrri viðræðurnar hafði myndast góður grunnur í þeim og, líkt og vitnað er í að ofan, sagði Smári McCarthy alrangt að þær viðræður hefðu slitnað á þeim. Þvert á móti hefðu Vinstri græn komið mjög til móts við aðra flokka þar. Heldur einhver að sá góði grunnur hafi eitthvað breyst á milli viðræðnanna?

  Svikabrigslin

  Hafandi fylgst með ferlinu, bæði á fundum og í gegnum tilkynningar frá þeim, þá kom tilkynning þingflokks Viðreisnar um viðræðuslitin mér gríðarlega á óvart. Þar sagði að því miður hefði ekki náðst saman um mikilvæg efnisatriði. Allt satt og rétt, en síðan kom þessi setning:

  Einkum voru það áherslur VG í ríkisfjármálum, sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum sem stóðu fjarri áherslum hinna flokkanna.

  Eins og ég hef rakið hér að ofan tel ég ekki hafa verið komið að því í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum að þar ætti að steyta á skeri, þó að vissulega hafi þar verið meiningarmunur á milli flokka. Og þessi augljósa tilraun til að útmála Vinstri græn sem eina sökudólginn er með því óheiðarlega sem ég séð lengi. Nú var það gert, sem fulltrúar Viðreisnar höfðu þó sérstaklega tiltekið, að finna einn sökudólg.

  Það er gríðarlega miður þegar stjórnmálamenn eru tilbúnir til að hagræða sannleikanum eins og þeim hentar. Það er enn meira miður þegar fulltrúar flokks sem tala fyrir nýjum stjórnmálum stunda slíka pólitík án þess að blikna.

  Ég hef orðið var við að undanfarið að sumir í öðrum flokkum, sérstaklega Pírötum og Samfylkingu, eru ósátt við Vinstri græn og telja að við látum eins og við höfum verið þau einu sem vildu auka ríkisútgjöld. Ég er ósammála því að þannig hafi Vinstri græn talað, en maður á alltaf að reyna að læra af gagnrýni. Ég sá þau sömu hins vegar ekki mótmæla þessari yfirlýsingu þingflokks Viðreisnar þar sem það er sagt berum orðum að áherslur VG í ríkisfjármálum hafi verið fjarri áherslum hinna flokkanna.

  Og til að bíta höfuðið af skömminni mætti Benedikt svo í morgunútvarpið á Rás 2 daginn eftir og fullyrti að til að fjármagna útgjaldahugmyndir Vinstri grænna hefði þurft að hækka tekjuskatt. Það eru líka ósannindi og þá ekki síst að ýja að því að það hafi verið okkar hugmynd. Hækkun almenns tekjuskatts var nefnd í viðræðunum, það gerðum við í Vinstri grænum ekki og mótmæltum henni harðlega. Sú hugmynd var hins vegar ekki síst nefnd sem svar gegn hugmyndum okkar í Vinstri grænum.

  Eftir viðræðuslitin fór svo allt af stað. Það hefur vakið mig til umhugsunar um margt hversu ótrúlega margir eru tilbúnir að trúa því fyrirvaralaust að nú hafi VG klúðrað öllu, þarna hafi VG sýnt sitt rétta andlit, þau eru argasta íhald, þau vilja engar breytingar í sjávarútvegi, landbúnaði, kerfisflokkurinn, varðstöðuflokkur, kyrrstöðuflokkur, afturhald, ekki umbótaflokkur.

  Fólk sem ég virði mjög mikils, sumt sem stendur mér afar nærri, virðist tilbúið til að fullyrða margt svo stóryrt um Vinstri græn að það vekur furðu mína. Og það er víst þannig að pólitík á ekki að vera persónuleg og við sem í henni erum eigum að hafa harðan skráp og þola allt og ég veit ekki hvað. Ég hvatti þó son minn til að vera ekkert að fara á Feisbúkk á þriðjudaginn, hann þyrfti ekkert að sjá þær gusur sem yfir okkur gengju. Því að flokkar eru ekki óhlutbundin fyrirbæri, heldur fólkið sem í þeim er. Þingmennirnir. Ég.

  Hvað svo?

  Ég vona að það takist sem fyrst að mynda góða ríkisstjórn. Ég ætla ekki að taka á mig ábyrgð á því þótt aðrir flokkar gangi í stjórnarsamstarf með öðrum flokkum – það er þeirra val og hver og einn flokkur ber einn ábyrgð á því hvað hann gerir. Ég ætla ekki að taka ábyrgð á því að skort hafi upp á vilja til að fara í þá uppbyggingu sem allir flokkar lofuðu fyrir kosningar. Það mun koma í ljós í fjárlagaafgreiðslunni á næstu dögum hver raunverulegur vilji flokkanna er til að aukinna útgjalda.

  Það að segja ekki rétt frá hefur áhrif á traust. Það að segja eitt á lokuðum fundum og annað við fjölmiðla af því að það hentar betur, rýrir traust. Og traust er nauðsynleg undirstaða samstarfs.

  Ég er hins vegar þannig gerður að ég lifi lífi mínu eftir hugmyndum um æðruleysi og það að gefa af mér. Ég byggi líf mitt á grunni heiðarleika. Fyrirgefningar. Sjálfur er ég breyskur og hef gert og sagt allan fjandann sem ég ekki hefði átt að gera og dauðsé eftir. Ég biðst þá bara afsökunar og reyni að bæta fyrir. Stundum hefur mér þótt það gríðarlega erfitt og jafnvel heykst á því, en það hefur leitt til mikillar vanlíðunar, aðallega manneskjunnar sem ég gerði rangt til en einnig minnar. Það er því alltaf best að segja satt, bera ábyrgð á orðum sínum og gjörðum. Ég krefst þess hins vegar ekki að aðrir lifi eftir slíkum gildum, þeir verða að taka ábyrgð á því að starfa óheiðarlega.

  Hvað er ég að fara með þessu? Jú, ég tek þá ábyrgð alvarlega að mynda starfhæfa stjórn. Ég er reiðubúinn til þess að ræða við fólk um þá stjórn. Ég er ekki tilbúinn í meiri óheilindi, meiri svikabrigsl, meiri ósannindi.

  Hættum nú að hugsa fyrst og fremst um okkar eigið flokksrassgat. Hættum að vera út á við með einhverjar yfirlýsingar sem okkur finnst hljóma vel fyrir okkur. Förum að vinna eins og fólk.

 • Af stjórnarmyndun (11/24/2016)

  Þó nokkuð hefur verið rætt og ritað um stjórnarmyndunarviðræður Vinstri grænna, Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingar og þá ekki síður hvernig og hvers vegna upp úr þeim slitnaði. Sitt sýnist hverjum, eins og vera ber, en það er ekki örgrannt um að ýmsar skýringar sem ég hef séð hafi ekki síst verið settar fram til að fegra hlut þess flokks sem viðkomandi tilheyrir. Hér á eftir fer mín upplifun á þessu. Hún er mín og án efa sjá einhver hlutina öðrum augum en ég. Þetta er þó fróm frásögn af minni hálfu.

  Þegar Katrín Jakobsdóttir fékk stjórnarmyndunarumboðið lá beint við að fara í viðræður við flokkana sem höfðu myndað stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili og Viðreisn. Um það var samstaða innan Vinstri grænna og í þær viðræður fórum við af alvöru. Við vissum sem var að þetta væri alls ekki einfalt mál, flokkarnir væru fimm og margir hverjir með mjög ólíkar áherslur. Þá voru tveir þeirra, Viðreisn og Björt framtíð, nýkomin úr viðræðum við Sjálfstæðisflokkinn og ekki annað að skilja á forsvarsmönnum þeirra en að þær viðræður hefðu gengið vel þar til Bjarni sleit þeim, sem virtist koma formönnum hinna flokkanna nokkuð á óvart. Við vissum því vel að þetta yrði flókið, en einsettum okkur að fara í verkefnið eins vel og við gætum.

  Eftir að Katrín hafði fundað með formönnum allra flokka, eins og lög gera ráð fyrir, var því ákveðið að forystufólk flokkanna fimm settist saman niður mjög snemma í ferlinu og mæti það hvort ástæða væri til að halda áfram. Það var ekki síst gert til þess að Katrín og Vinstri græn yrðu ekki einhver milliliður á milli annarra flokka og við ekki ein um að meta hvort möguleiki væri á samstarfi, heldur ræddu flokkarnir hver við annan og allir saman.

  Niðurstaða þess fundar var að halda áfram. Við vildum hafa ferlið eins skilvirkt og hægt væri og því var skipað í fjóra málefnahópa, einn úr hverjum flokki í hvern hóp. Formenn og forystufólk flokkanna hittist síðan reglulega og fór yfir stöðuna, tók fyrir þau mál sem ljóst var að aðeins þau gátu leyst og mátu stöðuna í hverju skrefi. Þessi vinna hófst á mánudag og þingflokkur Vinstri grænna var ýmist í hópum eða til aðstoðar þeim og við funduðum stíft þar sem farið var yfir árangur vinnunnar.

  Sjálfur var ég í málefnahópi sem fjallaði um alþjóðamál, jafnréttismál, málefni útlendinga innflytjenda og flóttafólks, menningarmál, löggæslu og dómsstóla og mannréttindi. Ég kom að þessari vinnu á þriðjudegi, en þá hafði þegar komið í ljós að staða ríkissjóðs var verri en áður hafði verið talið og ljóst að eitt af verkefnum nýrrar stjórnar væri að stoppa upp í um 20 milljarða gat á fjárlögum næsta árs.

  Þetta fór ég yfir í upphafi fundar míns hóps og minnti á að einmitt þess vegna gætum við ekki leyft okkur að setja hvað sem er niður á blað. Það kom þó ekki að sök, því við vorum öll sammála um að það sem við værum að gera væri að setja niður að hverju við vildum vinna yrði barn úr brók og það yrði svo grunnur fyrir áframhaldandi vinnu við stjórnarsáttmála.

  Í hópnum voru fulltrúar allra flokkanna fimm, m.a. varaformaður Viðreisnar. Ég skynjaði mikinn einhug og áhuga á að halda áfram hjá öllum í hópnum. Í lok þriðjudags töldum við fyllstu ástæðu til að halda samræðum áfram næsta dag, vildum þá m.a. bæta íþrótta- og æskulýðsmálum á dagskrána.

  Öll lögðum við fram okkar mál, hvernig við vildum sjá kröftum ríkisstjórnarinnar varið og öll ræddum við að kostnaður við það sem við vorum að lista upp yrði ræddur síðar og þá kæmi í ljós hvort hægt yrði að fara í þau verkefni sem við listuðum upp. Ég fregnaði það úr öðrum hópum, bæði frá fulltrúum Vinstri grænna og annarra flokka, að þar hefði verið það sama uppi á teningnum; allir flokkar settu verkefni fram sem þeir vildu sjá verða að veruleika. Við vorum hins vegar mjög meðvituð um stöðu ríkisfjármála og vissum að á þeim ylti hvernig allt færi.

  Staða ríkisfjármála er hins vegar einfaldlega verkefni sem verður að leysa. Ef vilji er til samstarfs, ef vilji er til þess að taka ábyrgð og leysa verkefnin, þá finnur maður leiðir. Í hópi um ríkisfjármál var ýmislegt uppi á borðum og öllum steinum velt til að sjá hvort gerlegar leiðir fyndust. Ekkert hafði hins vegar verið ákveðið þar, ekki frekar en í öðrum málefnahópum. Hópurinn hafði einfaldlega listað það upp hvar væri mögulegt að ná í tekjur. Í þeirri vinnu kom ekki mikið frá Viðreisn, frómt frá sagt. Ekkert benti til þess að þar á bæ hefði fólk önnur plön um það hvernig hægt yrði að takast á við það verkefni að afla ríkinu tekna, nokkuð sem öllum á að vera ljóst að er nauðsynlegt eigi að gera það sem fulltrúar allra flokkanna, Viðreisnar líka, voru að setja á blað.

  Ákveðin mál voru erfiðari en önnur og þeim var vísað til formanna. Stjórnarskrármálið hleypti öllu í hnút um hríð, en hugmynd að lendingu varð til á vettvangi formannanna. Sjávarútvegsmálin voru flókin, enda allir flokkarnir fimm með ólíka stefnu þótt samhljómur væri meiri hjá sumum en öðrum. Þar varð sú lending að hinir flokkarnir fjórir settu saman tillögu og formannanna beið að taka afstöðu til hennar og stefnu Vinstri grænna. Allir voru sammála um að grunnur hefði verið lagður að lausn. ESB-málin stóðu út af borðinu, en það sem hafði verið rætt í þeim benti til að lausn fyndist. Tæpt hafði verið á landbúnaðarmálum, þannig að flokkarnir sögðu sína skoðun, en vinna átti eftir að fara fram um að ná saman þar.

  Við í Vinstri grænum lögðum mikið á okkur til að þetta gæti náð saman og sýndum það að við værum tilbúin til málamiðlana í ýmsum efnum. Við vissum sem var að stefna flokkanna fimm var um margt ólík. Einmitt þess vegna vildum við fá það á hreint hvort aðrir flokkar sæju ástæðu til að halda þessu áfram, til að fara í þá vinnu að finna tekjur, ákveða útgjöld,  setja saman stjórnarsáttmála. Eftir fund Benedikts Jóhannessonar, formanns Viðreisnar, með Katrínu var hins vegar ljóst að sá vilji var ekki fyrir hendi. Því var einboðið að slíta þessu.

  Það er ekki þannig að við eða aðrir flokkar hafi heimtað ákveðin útgjöld og ákveðna tekjuöflunarleiðir. Það er einfaldlega rangt. Það er ekki þannig, eins og haft er eftir Þorsteini Víglundssyni þingmanni Viðreisnar, að hinir flokkarnir fjórir hafi heimtað einhverja upphæð í útgjaldaaukningu gegn Viðreisn. Fulltrúar Viðreisnar í málefnahópunum tóku fullan þátt í því að setja fram sínar hugmyndir um það hvernig við vildum efla heilbrigðiskerfið, velferðarkerfið, menntakerfið, menninguna. Við vorum öll að setja okkar hugmyndir á blað og ræða þær.

  Það að Viðreisn hafi ekki treyst sér í að fara í áframhaldandi vinnu er þeirra mál. Forsvarsmenn flokksins geta hins vegar ekki látið eins og allir aðrir flokkar hafi verið að krefjast útgjalda; það er einfaldlega ekki rétt frásögn af því sem gerðist og ég leyfi mér að efast um að fulltrúar Viðreisnar í málefnahópunum geti tekið undir þá lýsingu.

  Sú ríkisstjórn sem tekur við völdum þarf að takast á við ríkisfjármálin, sama hvaða flokkar skipa hana. Hún þarf að taka ákvörðun um hvort farið verði í uppbyggingu og þá hvernig eigi að fjármagna hana. Það er ábyrgðarhlutverk, en fólk sem kosið hefur verið til starfa á Alþingi verður að geta staðið undir ábyrgð.

  Viðræðurnar voru um margt lærdómsríkar og sérstaklega fyrir nýjan þingmann eins og mig. Ég, og aðrir í Vinstri grænum, lagði mig fram við að ná samhljómi í hinn fimmradda kór og það gerðu allir fulltrúar allra flokka sem ég var í beinum samskiptum við líka.

  Það er ekkert óeðlilegt að það slitni upp úr stjórnarmyndunarviðræðum, sérstaklega ekki þegar um jafn marga flokka er að ræða og nú var og jafn ólíka að mörgu leyti. En úr ólíkum efnum kemur oft áhugaverð blanda. Á það reyndi hins vegar aldrei nú, þar sem heykst var á því að halda vinnunni áfram.

  Stjórnmálaflokkar sem ákveða að taka þátt í stjórnarmyndunarviðræðum hljóta að gera það af ábyrgð. Þeir hljóta að kynna sér hugmyndir og stefnur þeirra flokka sem þeir setjast til borðs með og velta því fyrir sér hvort sameiginlegur flötur náist. Það kemur því á óvart að formaður Viðreisnar hafi ekki vitað meira um hugmyndir Vinstri grænna varðandi tekjuöflun en svo að hann hafi lesið um þær í blöðum á þriðjudag, eins og hann lýsir sjálfur á pistli á heimasíðu flokksins. Það ber ekki vott um mjög vönduð vinnubrögð, svo ekki sé meira sagt.

  Okkur í Vinstri grænum datt ekki í hug að bíða með umræðu um ríkisfjármál, þótt aðrir hafi verið rúma viku í umræðum án þess að setja niður fyrir sér stöðu ríkissjóðs. Við viljum vinna faglega og byggja ákvarðanir á bestu fáanlegu upplýsingum og sú vinna skilaði því að nú vita allir sem tóku þátt í vinnunni hver staðan er í fjármálum ríkisins. Það er síðan hvers flokks að svara hvernig best er að takast á við þessa stöðu, því það verður að gera hversu óþægilegt sem einhverjum kann að finnast það.

  Að lokum vil ég þakka öllum þeim fyrir samstarfið sem ég vann með í viðræðunum. Það var gott.

 • Sálfræðiþjónusta ætti að vera niðurgreidd (10/27/2016)

  Margt er skrýtið í kýrhausnum og eitt af því sem ég á erfitt með að skilja er hvers vegna við niðurgreiðum þjónustu geðlækna, en ekki sálfræðinga. Það ætti að vera morgunljóst að báðir eru gríðarlega mikilvægir þegar kemur að meðferð við geðrænum sjúkdómum og því furðulegt að skilja á milli með þeim hætti sem gert er varðandi niðurgreiðslu. Geðlæknar hafa nú samninga við Tryggingarstofnun, en ekki sálfræðingar. Því miður verður það gjarnan til þess að fjölmargir sækja sér ekki þá þjónustu sem sálfræðingar hafa upp á að bjóða, þar sem tími hjá sálfræðingi getur kostað um 15.000 krónur.

  Sálfræðingar og geðlæknar eru oftar en ekki að vinna með sama sjúkdóminn, en geðlæknar nota lyf á meðan sálfræðingar nota viðtalsmeðferð í meira mæli en læknirinn. Oft og tíðum fer þetta tvennt saman, viðtalsmeðferð og lyfjagjöf, ekki síst þegar kemur að þunglyndi þar sem besti árangurinn fæst gjarnan með lyfjagjöf og viðtalsmeðferð samhliða, oft hugrænni atferlismeðferð.

  Notkun geðlyfa hér á landi hefur mikið verið í umræðunni, en því miður finnst mér á stundum hafa skort á að við rýnum í ástæðurnar fyrir því hve mikið er notað af geðlyfum. Það er mikilvægt að hafa í huga að geðlyf geta verið lífsnauðsynleg í baráttu við sjúkdóma og hjálpa þar að leiðandi mörgum. Það á ekki síst við um alvarlegri geðsjúkdóma og því er meira um að geðlæknar fáist við alvarlegri geðveiki en sálfræðingar, sem þó koma oft og tíðum líka að slíkri meðferð.

  Ég tel hins vegar nauðsynlegt að skoða hvort það geti verið að sú staðreynd að tími hjá geðlæknum er niðurgreiddur en ekki sálfræðingum geti ekki leitt til þeirrar augljósu niðurstöðu að þau sem minna hafa á milli handanna leiti frekar í ódýrari þjónustuna, þ.e. þá sem er niðurgreidd, en þá dýrari.

  Geðraskanir eru á meðal algengust ástæða fyrir nýgengi örorku. Það er því mikilvægt að gera allt sem hægt er til að bjóða upp á þjónustu sem getur nýst eins snemma í ferlinu og mögulegt er. Það er grátlegt að fólk þurfi að neita sér um nauðsynlega þjónustu sálfræðinga vegna efnaskorts.

  Vinstri græn vilja að sálfræðiþjónusta verði hluti af hinu almenna heilbrigðiskerfi og þá viljum við að sálfræðiþjónusta verði tryggð í öllum framhaldsskólum. Vonandi getum við sem flest sameinast um að vinna að þeim góðu málum eftir kosningar.

 • Stöndum vörð um landvörsluna (10/20/2016)

  Ferðaþjónustan hefur verið mikið í umræðunni undanfarin ár, enda hefur verið fordæmalaus fjölgun ferðamanna á Íslandi. Því miður hefur núverandi ríkisstjórn látið reka á reiðanum að samþykkja stefnu í þessum málum, þrátt fyrir að fólk úr geiranum hafi sjálft kallað eftir því. Vinstri græn samþykktu á dögunum ferðamálastefnu þar sem tekið er á þeim fjölmörgu efnum sem tengjast ferðaþjónustunni. Mig langar að horfa til einstaks þáttar, nefnilega landvörslunnar.

  Framlög til uppbyggingar innviða hafa því miður allt of oft verið tengd umræðu um gjaldtöku þegar kemur að ferðamönnum. Þannig hafa deilur um komugjöld, gistináttagjöld, náttúrupassa, bílastæðagjöld og hvað þetta allt heitir yfirtekið umræðuna og nauðsynlegri uppbyggingu ekki verið sinnt.

  Staðreyndin er hins vegar sú að ferðaþjónustan skilar milljarðatugum, sumir hafa nefnt 70 milljarða, til samfélagsins nú þegar. Nauðsynlegar aðgerðir eiga því ekki að sitja á hakanum af því að ekki er búið að tryggja sértæka tekjustofna til að standa undir þeim.

  Landvarsla er gríðarlega mikilvæg. Það skiptir öllu að standa vörð um náttúruna og gæta að því hvernig umgangur og dreifing gesta er um viðkvæm svæði. Ríkisstjórnin ætti því án tafar að setja fjármuni í aukna landvörslu. Það getur hún gert með því að láta þá renna beint til sveitarfélaganna eða byggðasamlaga í tilfelli smærri sveitarfélaga. Þá þarf að setja sérstaka fjármuni til þeirra stofnana sem sjá um utanumhald, svo sem Umhverfisstofnunar.

  Landvörslu á mikilvægum svæðum, eins og á þjóðgörðunum okkar, þarf að efla til muna og það er ekki boðlegt að slíkt sé sett í samhengi við beina gjaldtöku og látið bíða ákvarðana þar um. Það er skylda okkar sem byggjum þetta land að skila því til afkomenda okkar í ekki verra, og helst betra, ásigkomulagi en við tókum við því.

 • Verkefni næstu ríkisstjórnar (10/17/2016)

  Komandi kosningar eru í mínum huga þær mikilvægustu um langa hríð. Það segi ég ekki bara af því að ég er í framboði, jafnvel ég er ekki svo sjálfhverfur, heldur vegna þess að síðustu ár hafa einkennst af viðbrögðum við áfalli, hruni heils efnahagskerfis. Við slíkt áfall þarf fyrst að fara í neyðarbjörgun og svo að byggja upp úr rústunum og aðgerðir stjórnvalda litast af því. Það gekk vel hér á landi, þó ýmislegt hefði mátt fara betur og hópar hafi farið misvel út úr því, og nú er staðan sú að efnahagslífið er á uppleið, við höfum borð fyrir báru með að hlúa að því sem þarf að hlúa, til að skipta gæðunum.

  Þess vegna skiptir máli hvernig næsta ríkisstjórn verður skipuð. Það verður að tryggja að hún verði skipuð flokkum sem huga að almannaheill, ekki sérhagsmunum, sem vilja ekki ana með okkur í annan hring á frjálshyggjuhringekjunni sem snérist svo hratt síðast að við þeyttumst af henni. Hún þarf að hafa samneysluna og velferð í huga.

  Næstu ríkisstjórnar bíða fjölmörg aðkallandi verkefni og það er gríðarlega mikilvægt að þau verkefni verði leyst með samfélagsleg sjónarmið að leiðarljósi.

  Það er lykilatriði að næsta ríkisstjórn taki á loftslagsbreytingum með beinskeittum aðgerðum, láti náttúruna njóta vafans, taki umhverfissjónarmið inn í allar aðgerðir sínar og setji á beinar aðgerðir til að draga úr kolefnisútblæstri. Horfa þarf til stórra pósta eins og sjávarútvegs og landbúnaðar út frá umhverfismálum, því ábyrgð okkar í þeim efnum er rík.

  Það er lykilatriði að næsta ríkisstjórn byggi velferðarkerfið upp, tryggi mannsæmandi laun fyrir alla, taki á húsnæðisvandanum bæði hjá þeim sem vilja eiga en einnig þeim sem vilja leigja og taki á móti fleira flóttafólki en nú er gert.

  Það er lykilatriði að skattkerfinu verði beitt sem jöfnunartæki, en ekki bara til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð.

  Það er lykilatriði að uppræta allar birtingarmyndir kynjamisréttis í samfélaginu, útrýma kynbundnum launamun og tryggja menntun á sviði jafnréttis og kynjafræða á öllum skólastigum.

  Það er lykilatriði að jafnrétti til náms verði tryggt, óháð aldri búsetu og efnahag. Koma verður á fyrirframgreiddum námslánum og taka á því neyðarástandi sem er að skapast vegna kennaraskorts. Gera verður kennarastarfið fýsilegra, til dæmis með því að efla faglegt sjálfstæði kennara og leggja áherslu á skólaþróun á öllum skólastigum og tryggja fjármuni til þess.

  Það er lykilatriði að hið félagslega rekna heilbrigðiskerfi verði byggt upp. Í því samhengi þarf að hlusta vel eftir því þegar stjórnmálafólk talar um fjölbreytt og mismunandi rekstrarform, því það er ekkert annað en newspeek fyrir einkavæðingu, eða einkarekstur, í heilbrigðiskerfinu. Sú hugsun á ekki að vera ríkjandi að það sé í lagi að rekstur stórra þátta í heilbrigðiskerfinu sé með gróðarsjónarmið einkafjárfesta í huga. Kannanir sýna líka að mikill meirihluti þjóðarinnar er sammála Vinstri grænum í þessum efnum; almenningur vill ekki einkarekið heilbrigðiskerfi.

  (Ég hef áður kallað eftir því að við höldum hugmyndafræðinni þar vel á lofti og í þessum efnum á einfaldlega að notast það sem við höfum; þegar að heilbrigðis- og velferðarkerfinu er gríðarlega mikilvægt að vinstri sjónarmið ráði för.)

  Það er lykilatriði að við tökum á þeim spillingarmálum sem upp hafa komið og sækjum fé sem á heima í samneyslunni en skilar sér ekki þangað. Að við endurskoðum stjórnarskrána og byggjum á vinnu stjórnlagaráðs.

  Lykilatriðin eru fleiri, og kannski tíni ég einhver til á næstunni, en þetta er það sem mér finnst að næsta ríkisstjórn eigi að snúast um. Og kjósendur sem vilja flokka sem vinna að þessu ættu að greiða þeim atkvæði í komandi kosningum. Það ætla ég að gera með því að kjósa Vinstri græn.

 • Ríkisstjórn tekjuhæstu tuttugu prósentanna (10/14/2016)

  Katrín Jakobsdóttir beindi í vikunni fyrirspurn til Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnhagsráðherra vegna fregna um að tekjur efstu tekjuhópanna væru að aukast langt umfram aðra, þeir ríkustu ættu sífellt meira. Katrín spurði Bjarna hvort ekki væri rétt að nota skattkerfið sem jöfnunartæki, nokkuð sem við í Vinstri grænum teljum að rétt sé að gera. Bjarni hafði litlar áhyggjur af þessu og sagði orðrétt:

  „Í tíð þessarar ríkisstjórnar höfum við beitt okkur fyrir skattalækkunum sem hafa sérstaklega skilað sér til millitekjufólksins.“

  Nú vill svo til að skattbyrði er eitthvað sem hægt er að kanna, þannig að stjórnmálamenn geta ekki sagt hvað sem er í þeim efnum. Skoðum því hver staðan er, skattbyrðina eftir tekjubilum, tíundahlutum, en skiptum síðustu tíundinni í tvö bil.

  Svona er staðan þegar beinir skattar alls eru skoðaðir, almennur tekjuskattur að frádregnum bótum, útsvar, fjármagnstekjuskattur, auðlegðarskattur sem hlutfall af heildartekjum, þ.e. almennum tekjum og fjármagnstekjum.

  skattbyrdi-2012-2015

  Og til að gæta allrar sanngirni skulum við líka skoða þetta án auðlegðarskattsins, sem núverandi ríkisstjórn kaus að framlengja ekki.

  skattbyrdi-2012-2015-anaudlegdar.png

  Niðurstaðan er mjög skýr. Myndirnar, sem byggja á gögnum af heimasíðu RSK, bera saman skattbyrði beinna skatta hjá hjónum og öðrum samsköttuðum eftir tekjubilum. Þær sýna, svo ekki verður um villst, að skattbyrði hefur aukist hjá öllum nema hjá tekjuhæstu 20%. Þar hefur hún minnkað – og minnkað langmest hjá þeim 5% sem hæstar hafa tekjurnar. Sú jöfnun sem Vinstri græn komu inn í skattkerfið í síðustu ríkisstjórn er horfin út í veður og vind. Af því hefur Bjarni hins vegar engar áhyggjur.

  Ríkisstjórnin, með fjármálaráðherranum Bjarna Benediktssyni, er nefnilega ríkisstjórn þeirra 20% tekjuhæstu. Ekki okkar hinna.

  Þetta dæmi sýnir að Bjarni Benediktsson, sem er ekki bara formaður Sjálfstæðisflokksins heldur einnig fjármála- og efnahagsráðherra íslenska ríkisins, er gjarn á að fara frjálslega með staðreyndir í umræðum um ríkisfjármál. Ég hef áður bent á þessa áráttu hans í grein sem ég skrifaði í Fréttablaðið undir fyrirsögninni „Segðu satt, Bjarni“. Þessi grein varð tilefni fyrirspurnar til staðreynda- og samfélagsvaktar Vísindavefs Háskóla Íslands sem birt var svar við í dag. Þar er staðfest að Bjarni fór fram með villandi málflutning af því það hentaði honum.

  Ég er svo einfaldur maður að mér finnst að stjórnmálamenn eigi bara að segja satt. Því miður hefur það sýnt sig að stundum er það til of mikils mælst og oft og tíðum virðist reglan vera sú að þeir hafi það sem hentugra reynist.

 • Banatilræði við hugmyndafræðina (10/9/2016)

  Ég hef átt mörg samtöl um pólitík undanfarna daga, sem betur fer enda væri það áhyggjuefni ef frambjóðandi til Alþingis ætti fá slík samtöl í miðri kosningabaráttu. Það er ánægjuefni að finna það hve fólk er áhugasamt um það hvernig málum samfélagsins er háttað. Bæði höfum við áhuga á einstökum málum, sem oft og tíðum fá tímabundna athygli í samfélaginu, en æ fleiri sem ég ræði við nefna að það þurfi líka að ræða grundvallar hugmyndafræði. Slíkt samtal átti ég í gærmorgun sem situr í mér og mig langar því til að hugsa upphátt.

  Það hefur verið lenska undanfarin ár að lýsa yfir dauða vinstrisins og hægrisins. Það þurfi að nálgast viðfangsefnin sem einstök álitamál og finna réttu lausnina hverju sinni. Það sé jafnvel bara hallærislegt að skipta flokkum niður eftir því sem nefnd er úrelt hugmyndafræði.

  Ég skil fólk sem talar svona. Mörg eru óendanlega leið á þeim stjórnmálum sem við höfum búið við, kvarta yfir því að kreddufesta og flokkshollusta ráði för og vilja einfaldlega leysa þau mál sem koma upp. Ég skil og virði þessa skoðun, en ég held að hún eigi sér líka þá slæmu hlið að hugmyndafræði á síður upp á pallborðið hjá fólki. Og – vinsamlegast munið að ég er að hugsa upphátt, er ekki með útpælda greiningu og svör – það að kasta hugmyndafræðinni fyrir róða hefur, að mínu mati, því miður haft það í för með sér að allt í einu er öll orðæðran upp í loft. Upp í loft er kannski ekki rétta hugtakið heldur hefur þetta orðið til þess að færa orðræðuna í átt til nýfrjálshygjunnar. Nýfrjálshyggjan hefur stolið umræðunni, var sagt við mig í gær, og því meira sem ég hugsa þetta því meira sammála verð ég.

  Því hvernig tölum við um mikilvæga þætti í okkar samfélagi? Listahátíð er metin eftir því hvort hún skilaði hagnaði, menntamálaráðherra lætur fólk borga fyrir framhaldsskólamenntun ef það hefur náð ákveðnum aldri af því að það er hagkvæmt og umbyltir framhaldsskólanáminu til að laga það að þörfum atvinnulífsins um vinnuafl. Tekjutenging afborgana á námslánum er afnumin, af því að í einhverju reiknilíkani kom það vel út. Framlög til heilbrigðiskerfisins eru metin út frá excel-skjölum, en ekki þörf. Og svo mætti lengi telja.

  Hvergi sér þessa meira stað en í heilbrigðiskerfinu. Í stað hugmyndafræðilegrar umræðu um einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar festum við okkur í skilgreiningu á því hvort einstakt dæmi sé einkarekstur, einkavæðing, eða opinber rekstur. Hafirðu þá hugmyndafræði að heilbrigðisþjónusta eigi að vera á höndum hins opinbera, er umsvifalaust skellt framan í þig að þessi stofnun þarna eða hin sé nú rekin af einkaaðilum og ætlarðu að vera á móti því?

  Ég held að við eigum að hugsa meira eftir hugmyndafræðilegum nótum, ekki minna. Við eigum að hafa hugmyndafræði um það hvernig við viljum að samfélagið sé. Það á að vera útgangspunkturinn okkar, síðan má taka afstöðu til einstakra álitaefna út frá því, hvort ákveðnar lausnir rúmist innan þeirra grundvallarhugmynda sem við höfum og hvort jafnvel þurfi að víkka hugmyndirnar út. Ekki öfugt. Ekki kasta hugmyndunum fyrir róða og nálgast allt út frá því að einhver lausn gangi vel upp í reiknilíkönum.

  Í morgun hlustaði ég á frambjóðenda annars stjórnmálaflokks boða kerfisbreytingar og leiðin til þeirra væri samstjórn flokkanna á miðjunni. Ég er ósammála því. Ég held að við þurfum stjórnmálaflokka sem þora að leggja fram stefnu byggða á hugmyndafræði, sem vilja nálgast samfélagsleg úrlausnarefni út frá hugmyndafræðinni. Ekki til að vera ósveigjanlegir í henni, heldur af því að sumt finnst manni í hjartanu, þó maður geti þurft að taka tillit til annarra aðstæðna við úrlausnina.

  Ég vona að vinstrið og hægrið lifi góðu lífi, af því að sú einfeldningslega skipting segir okkur þó það út frá hvaða hugmyndafræði fólk vill nálgast það hvernig á að búa um hnútana í samfélagi okkar.

  Loftslagsbreytingar, flóttamannamál og misskipting eru stærstu viðfangsefni stjórnmálanna nú við upphaf 21. aldar. Þetta eru allt mál sem verða ekki leyst af markaðnum heldur samfélögum. Vinstri og hægri hafa ekki átt jafn vel við um langa hríð.